Laugardagur 07.08.2010 - 17:16 - FB ummæli ()

Glugginn minn

glugginn minn

Mikið ósköp væri gaman að geta gert eitthvað svaka skemmtilegt og ævintýralegt, eins og t.d. skreppa í nokkra daga siglingu með skemmtiferðaskipi eins og hér sést og sem kom í heimsókn til okkar í Hafnarfjörðinn snemmsumars. Svona eins og einn hring kringum landið svo ég tali ekki um hnattsiglingu. Það vill svo skemmtilega til að glugginn á skrifstofunni minni snýr beint út að höfninni svo ég á auðvelt með að fylgjast með skipaferðum og stundum læt ég mig dreyma. Hvernigf er að vera ókunnugur á framandi slóðum og vita ekki hvar maður lendir. En því miður stendur ferð með þeim tuga skemmtiferðaskipa sem heimsækja landið á hverju sumri okkur ekki til boða í dag.

Bara nafnið „skemmtiferðaskip“ laðar að og hugsunin um gamla Gullfoss fær á sig nýja mynd í hugskotinu. Maður veltir jafnvel fyrir sér hvort væri nú skemmtilegra að að sigla með honum eins og hann var eða þessum tröllauknu nútímalegu fljótandi eylöndum. Og tíminn sjálfur er líka afstæður, sá gamli og sá nýi. Í dag þegar við ferðumst, virðist skipta mestu máli að komast sem fyrst á milli staða, á sem einfaldastan hátt. Það að njóta ferðalagsins og skynja hnöttinn okkar í raunverulegum fjarlægðum virðist skipta minna máli. Við viljum komast yfir sem mest á sem skemmstum tíma, sjá allt og skemmta okkur í einni kippu og einum pakka.

Við gerum oft allt til að sniðganga hversdagsleikann sem við höfum fengið svo nóg af. Það kallast þá að vissu leiti kulnun og sem virðist vera óhjákvæmileg afleiðing nútímavæðingar og langvarandi streitu. En við eigum samt svo marga leiki á borði sem við þurfum að læra að notfæra okkur.

Sigling höfðar þó til einhvers frelsis, víðáttu og þolinmæði, einhvers sem tekur tíma. Skemmtiferðaskip er sérstakt íslenskt heiti á skipi sem siglir með farþega um heimshöfin til að njóta og gleðjast. Erlend sambærileg heiti á skemmtiferðaskipi ná ekki þessum íslensku hughrifum á sama hátt. Bara það að geta notið eftirvæntingarinnar að koma sífellt á nýja staði og njóta síðan framandi umhverfisins í fylgd samferðarmanna, er í allt annarri vídd samanborið við að þjóta um loftin blá milli heimsborganna með stuttri viðdvöl í leiðinlegum fríhöfnum. Skemmtiferðaskipið er líka samfélag með sín eigin lög og reglur. En hægt er að sigla því í strand og sumir verða strandaglópar á viðkomustöðunum.

Ég hef fylgst með erlendu gestunum sem komið hafa í heimsókn í litla miðbæinn okkar í Hafnarfirði og virðast frelsinu svo fegnir. Eins að sjá skipin í öllu sínu veldi sigla eins og ekkert sé inn höfnina að hafnarbakkanum, hljóðlaust og nærfærnislega. Jafnvel með þúsundir gesta auk áhafnar. Stundum eins og þegar einhver kemur loks heim eftir langa fjarveru. Og allir verða hluti af miðbæjarsamfélaginu eina dagstund. Bærinn lifnar við og allt í einu tilheyrum miklu stærri heimi. Vinsemd og eftirvænting og við verðum þess öðruvísi vör að það hljóti að vera gott að eiga heima þar sem svo margir vilja koma og heimsækja. Og svo kveðja þeir með stuttu flauti og koma kannski aldrei aftur. Maður vill getað veifað til baka.

Það er mikill lúxus að hafa aðgang að góðu útsýni eins og ég hef í vinnunni minni. Fyrir þannan aðgang er ég Heilsugæslunni þakklátur. Skjólstæðingum mínum finnst oft líka gott að koma á heilsugæslustöððina þegar þeir koma til að leita sér lækningar og ráðgjafar. Ekki síst þar sem útsýnið út um gluggana skipta miklu máli. Eins að geta notið málverka á veggjunum sem Hafnafjarðarbær hefur lánað okkur og gengið síðan að gluggunum og notið draumkennds útsýnisins yfir hafnarbakkann. Horft jafnvel á öll skipin sem er starfsmönnunum ekkert síður en sjúklingum mikils virði.

Stundum eru gluggarnir líka eins og speglar af raunveruleikanum, eins og hann í raun gæti verið á annarri stund og öðrum stað í lífinu. Stundum ganga skjólstæðingarnir þannig beint að glugganum mínum eftir að hafa heilsað og taka eitt andkaf. Það er góð byrjun á viðtali. Og við erum reyndar öll á sömu siglingunni, aðeins á mismunandi klassa eins og gengur en útsýnið það sama. Ég hef oft óskað að allir læknar og skjólstæðingar þeirra hefðu aðgang að glugga eins og mínum. Og vonandi forðum við síðan sameiginlega okkar „skemmtiferðaskipi“ frá nýju strandi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn