Þriðjudagur 24.08.2010 - 17:37 - FB ummæli ()

Almannatengsl þjóðkirkjunnar

Aðalatriðið er varðar umræðuna nú um meint kynferðisafbrot séra Ólafs Skúlasonar heitins á sínum tíma er hvernig kirkjan ætlar að bæta þann trúnaðarbrest sem þegar hefur átt sér stað gagnvart sóknarbörnum hans um árabil og þar með almenningi.

Mat á sannleiksgildi frásagna fórnalamba kynferðisofbeldis, afsökunarbeðnir kirkjunnar til brotaþola, þagnarskylda presta varðandi kynferðismisbeitinngu á börnum ásamt fyrirbyggjandi aðgerðum gegn þöggun innan kirkjunnar eru atriðin sem mestu umræðuna hefur fengið sl. daga og sem flestir innan kirkjunnar eru nú sammála um að þurfi að gera verklagsreglur um og er það auðvitað vel.

Eins og Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup nefndi í Kastljósviðtali í gærkveldi, að þá eru fáar syndir alvarlegri en einmitt þær sem séra Ólafur er sakaður um. Þótt ekki væri nema vegna mikilla efasemda um afbrot séra Ólafs, að þá hlýtur þjóðkirkjan að skulda öllum þeim þúsundum sóknarbarna sem trúðu honum fyrir öllum sínum heilögustu málum, frá vöggu til grafar, mikið og miklu meira en ómarkvissa afsökunarbeðni í þáskildagatíð.

Trúgjörn sóknarbörn sem hafa alið meiripartinn af ævi sinni undir verndarvæng prests sem síðar er sakaður um níðingsverk gagnvart barni, hljóta að vera nú í sárum. Trúnaðarbresturinn gagnvart preststörfunum er mikill og sáluhjálpin sem veitt var, verður ansi hjáróma í endurminningunni. Sumir eiga jafnvel erfitt með að átta sig og eru dofnir eins og eftir önnur stór áföll í lífinu. Embættisverkin voru ekki unnin af heilindum. Orðin um sannleikann sem hefur verið grafinn, færði Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur frelsistilfinningu eftir alla bælinguna og þöggunina. Orðin hennar hljóta að eiga að leiða til einhvers meira en bara að prestar kinki kolli sín á milli. Orðin um sannleikann af hennar vörum hljóta að eiga að fá að renna um æðar sóknarbarnanna einnig. Ætla má að trúarheimur sumra sé endanlega hruninn ef sannleiksorðin eru enn einu sinni hunsuð. Skortur á viðbrögðum nú getur síðan valdið stærra áfalli síðar, jafnvel sem þarfnast áfallahjálpar og sem undir öðrum sambærilegum kringumstæðum kirkjan hefði veitt en sem kemur ekki lengur að gagni. Trúnaðarbresturinn er það mikill. Það kemur þá í hlut heilbrigðisstarfsfólks og sálfræðinga að veita þessa hjálp um ókomin ár. Ábyrgð kirkjunnar er því mikil.

Skaðinn skeði og umræða hefur átt sér stað. Enginn véfengir sannleiksgildið nema kirkjan. Yfirstjórn kirkjunar og menntamálaráðherra vísa til fyrningar og að ekki sé í mannlegu valdi að dæma. Eins og ég nefndi í færslu minni 20.8. sl., Traust á trú eftir makalaust viðtal við Hr. Karl Sigurbjörnnson biskup á stöð 2 það kvöld að þá er áfallið mest þegar fallið er mest. Málið snýst ekki um dóm fyrir lögum enda Ólafur látinn. Góð uppástunga hefur hins vegar komið um um „sannleiksnefnd“ hjá prestum til að fara ofan í saumana á þessu máli öllu saman. Mestu máli skiptir þó að kirkjan sjálf viðurkenni skaðann sem hún hefur þegar valdið með þögguninni á biskupsstofu um árabil og sem nú er orðin opinber, af öllu hjarta og á mannlegan hátt. Orð eru til alls fyrst. Síðan þarf að endurvinna traustið.

Á sínum tíma og þegar meint afbrot áttu sér stað að þá heyrði kirkjan undir kirkjumálaráðherra. Aðkoma ríkisins var skýr og kirkjan var á ábyrgð ríkisins, ekki síst þjóðkirkjan. Málefni æðstu valdamanna kirkjunnar heyrði einnig undir ríkisvaldið. Þeirri ábyrgð á þeim tíma, getur ríkisvaldið ekki vísað frá sér nú, eins og málefni kirkjunnar komi sér ekki við. Þjóðkirkjan er í stórri trúarlegri skuld við almenning í landinu.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn