Að íslenska þjóðin hafi aðeins eitt hjarta er kannski ekki alveg sannleikanum samkvæmt eins og stendur í auglýsingu dagsins á Hjartadeginum 26.9.2010, Öll þjóðin -eitt hjarta, þótt það sé auðvitað satt að þjóðin stefni sameiginlega að lifa hremmingarnar nú af. Þá má þá líka segja að þjóðin hafi fengið hjartaáfall haustið 2008 eða þjóðarhjartað hafi verið kramið og sé að jafna sig. Ekki sem betur fer af alvarlegri kransæðastíflu og hjartadrepi heldur slæmu hjartsláttarkasti með verkjum og vanlíðan. Sjúkdómurinn reyndist grafalvarlegur en er læknanlegur með endurhæfingu og eftirliti. Ekki hafði verið fylgst nægjanlega vel með blóðþrýstinginum og öðrum áhættuþáttum svo sem offitunni. En hvað hefði skeð ef sjúkdómurinn hefði náð að ganga lengra. Ekki er víst að þjóðin hefði lifað þær hremmingar af. Það má því segja að það hafi verið lán í óláni að sjúklingurinn greindist á læknanlegu stigi þrátt fyrir allt og að hægt sé að bjóða lækningu nú. Það þýðir að minnsta kosti ekki lengur að þrjóskast við og stinga hausnum í sandinn. Og sjúklingurinn verður að hafa mandóm til að taka á sínum málum.
Alvarlegustu hjartasjúkdómarnir sem er kransæðakölkun og afleiðingar hás blóðþrýstings til margra ára eru að mörgu leiti fyrirséður sjúkdómur. Fólk sem lifir illa, reykir og borðar of mikið, er of feitt og hreyfir sig lítið, er í mestri áhættu. Áhættuþættirnir mælast meðal annars í háum blóðþrýstingi og háu kólesteróli. Hlutverk heimilislækna og hjarta- og æðalækna er að fylgjast með þessum þáttum og reyna að hafa áhrif á lífsvenjur fólks. Eins að gefa lyf og fylgjast með þróun sjúkdómseinkenna. Í mörgum tilfellum er hægt að snúa þróuninni við og margir sjúklingar breyta algerlega um lífstíl og lifa gæfuríkara lífi á eftir. Þar komu forvarnir að gagni og hægt var að bregðast við.
Hættumerki mátti víða sjá þjóðlífinu sl. áratug og þeir fátæku urðu fátækari og þeir ríkari, ríkari. Falin verðbólga, kúlulán meðal útvalda sem og arður og ofurlaun í illa reknum fyrirtækjum og bönkum. Við kunnum ekki fótum okkar fjárráð og almenningur tók lán á lán ofan til að reyna að fylgja eftir ímyndaðri meðalmennsku m.a. í íbúðar- og bílakaupum. Í sjálfu sér var sjúkómurinn geðrænn í eðli sínu eins og þegar um einhverskonar fíkn er að ræða og menn hræðast timburmenn og að horfast í afleiðingar gjörða sinna. Sállíkamleg einkenni og afneitun eru algengust einkennin eða þar til menn verða hræddir um líf sitt og fá viðvörun með áfalli og taka þá á málum. Aðrir eru ekki svo heppnir og fá ekki viðvörun eða hunsa hana. Og þá fer sem fer.
Nýjustu upplýsingar í gær eru að Íslendingar séu meðal feitustu þjóða og verma 9 sætið á heimslista OECD ríkja. Miklu feitari en nágranaþjóðirnar. Vísbendingar eru að að offitan ná til barnanna okkar. Fyrstu einkenni offitu eru meðal annars fitubreytingar í kransæðum. Fitan veldur mörgum sjúkdómum sem eiga eftir að aukast í framtíðinni að óbreyttu. Fyrir utan hjarta- og æðasjúkdóma að þá má nefna sykursýki, krabbamein og gigtarsjúkdóma sem og þunglyndi. Það er ljóst að við hreyfum okkur of lítið og við borðum of mikið, sérstaklega sykur og feitmeti hverskonar. Þetta þarf að laga og við eigum að borða miklu meira af fiski. Þá líður okkur betur, við lifum lengur og spörum óhemju mikið í heilbrigðiskostnaði. Gangi okkur öllum vel og tökum þátt og til hamingju með Hjartadaginn.