Mánudagur 27.09.2010 - 12:06 - FB ummæli ()

Vísindin og heilbrigðisþjónustan á Íslandi

stykkisholmurVið ræktum garðana okkar. Við höldum húsunum okkar við og pössum upp á smyrja bílinn reglulega og fara með hann í skoðun á hverju ári. Allt slétt og fellt á yfirborðinu. Ekkert vantar síðan upp á heilbrigði og fegurð móður náttúru þar sem við búum eins og meðfylgjandi mynd frá Breiðafirði sýnir. Hreint land með nóga orku, tært vatn alls staðar og sjórinn fullur af sjávarfangi. En hvernig skyldi síðan ein feitasta þjóð veraldar passa upp á sína innri fegurð og heilsuna almennt talað. Þessari spurningu reyna íslenskir heimilislæknar meðal annars að svara þessa daganna ásamt mörgum öðrum. Leitað er ráða í fræðunum með öðrum starfsgreinum heilsugæslunnar með það að markmiði að bæta þjónustuna og auðvelda mönnum aðgang að ráðgjöf og þjónustu fyrir alla, hvar sem þeir búa á landinu. Greinin hefur þróast frá „gamla“ heimilislækninum eða héraðslækninum í 4 ára sérnám þar sem lögð er áhersla á að bestu þekkingu á flestum sviðum læknisfræðinnar sem getur komið almenningi að sem mestu gagni.

Í raun heitir greinin heilsugæslulækningar enda byggist hún á teymisvinnu fleiri heilbrigðisstétta en gamla heitið, heimilislækningar, skýrir starfsviðið engu að síður jafnvel endar höfðar það til kjarnans í þjóðfélaginu, sjálfrar fjölskyldunnar og samskipta meðlimanna þeirra á milli. Sérstök áhersla er lögð á algengustu sjúkdómana, smitsjúkdóma og sjúkdóma sem snúa að umhverfi og lífstíl. Hvert aldurskeið hefur sín vandamál, allt frá ungbörnum til öldunga. Ungbarnaheilsuverndin, skólaheilsugæslan, unglingavandamálin, mæðraverndin, slysa- og bráðaþjónustan, atvinnu- og umhverfissjúkdómar, lífstílssjúkdómar, geðsjúkdómar og öldrunarþjónusta. Forvarnir hverskonar eru ávalt í megin fókus, sérstaklega þær sem tengjast slæmum lífstíl, tóbaksreykingum og áengis- og vímuefnavandamálum. Fylgst er reglubundið með leyndum áhættuþáttum svo sem aukinni líkamsþyngd, hreyfingarleysi, háu kólesteróli, háum blóðsykri og háum blóðþrýstingi.

Framfarir eiga sér með vísindum, rannsóknum og þróunarstarfi m.a. í grasrótinni sjálfri. Ekki er síst mikilvægt að virkja vísindin inn í sérfræðinám heimilislækna og daglegu vinnu. Þessa daganna takast menn t.d. á um mikilvægi blindrar skimunar fyrir allar konur sem forvörn gegn brjóstakrabbameini. Gæðaþróun er einmitt langtíma vinnuferill sem reynir að svara slíkum spurningum. Vísindi heilsugæslulækna taka fyrst og fremst mið af gæðaþróun til langs tíma og sem á að vera íhaldssöm í eðli sínu. Sígandi lukka er best og margar nýjungar innan læknisfræðinnar reynast því miður ekki standast tímans tönn þegar betur er að gáð.

Vísindaþing Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) hefur verið haldið annað hvert ár í 20 ár og er eins og hver önnur uppskeruhátíð á íslenskri heilbrigðisþekkingu. Þar hafa verið lögð drög að nýjum rannsóknum og verkefnum, eldri rannsóknir kynntar svo og lagt mat á þá gæðaþróunarvinnu sem stunduð hefur verið. Vísindasjóður FÍH hefur styrkt einstök verkefni og eins áhugasama einstaklinga. Árangur hefur í gegnum tíðina verið glæsilegur og mörg verkefni verið jafnvel erlendum starfsbræðrum til fyrirmyndar og greinar eftir íslenska höfunda birtast m.a. í víðlesnustu læknatímaritum erlendis. Lokatakmarkið er síðan að rannsókna- og þróunarvinnan leiði til betri vinnuferla sem tekið er tillit til í nýjum klínískum leiðbeiningum Landlæknisembættisins sem einmitt sá um að mennta fyrstu íslensku héraðslæknana fyrir tæplega 250 árum síðan.

8-9 október verður 10. vísindaþing FÍH haldið í Stykkishólmi. Fljótlega eftir þingið mun ég kynna á blogginu mínu áhugaverð efnin sem þar verða kynnt. Nú eru viðsjárverðir tímar og heilmilislækningar eiga undir högg að sækja, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Mikil undirmönnun hefur verið um árabil í starfstéttinni og meðalaldur heimilislækna orðin ískyggilega hár eða rúmlega 50 ár eins og kom fram nýrri skýrslu Samtaka verslunar og þjónustu um málið og greint var frá í Morgunblaðinu fyrir helgi. Útlit er fyrir að meirihluti þeirra lækna sem stafa í dag hætti störfum innan fárra ára. Þannig eru blikur á lofti hér á landi en alls staðar erlendis er þessi grein læknisfræðinnar í miklum blóma og vex hraðar en nokkur önnur sérgrein læknisfræðinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn