Oft gleymum við því að við getum sýnt fyrirhyggju í lífinu og gert varúðarráðstafanir til að forðast skakkaföll. Margir bíta samt bara í skjaldarrendurnar og bjóða framtíðinni birginn eins og sönnum víkingum sæmir. Þetta þekkjum við Íslendingar vel sem og afleiðingarnar.
Nú er byrjað að bólusetja gegn árlegri Inflúensu á flestum heilsugæslustöðvum og stærri vinnustöðum sem talin er gefa 60-90% vörn gegn þeim stofnum sem bólusett er gegn. Notað er nýtt bóluefni (Fluarix) sem inniheldur þá 3 stofna sem gengið hafa í sumar á suðurhveli jarðar og koma nú til okkar á norðurhvelið auk bóluefnis gegn svínaflensunni (H1N1). Búist er við að svínaflensan komi aftur í vetur og geti þá smitað þá einstaklinga sem enn eru óvarðir. Viljum við verja okkur, börnin okkar og gamla fólkið í vetur? Bólusetning er nefnilega ekki lækning heldur fyrirbyggjandi ráðstöfun til að forðast alvarlega sjúkdóma og þannig til að viðhalda heilbrigði, ekki síst hjá þeim sem mest þurfa á því að halda.
Útiveru þarf að stunda allt árið um kring, ekkert síður á veturna. Við Íslendingar erum svo heppnir að hafa aðgang að bestu sundstöðum í heimi. Í sundi erum við vel varin að okkur finnst. Heitt vatnið í lauginni og þú getur synt eins og selur eða slakað á í heita pottinum. Við komumst jafnvel í beina tengingu við frumþættina í okkur sjálfum, allt vatnið sem er okkur svo kært. Vinin í eyðimörkinni þessa daganna. En eitt þolum við illa, a.m.k. hvað augun okkar varðar og það er klórinn. Þess vegna verjum við okkur, notum sundgleraugu til að synda með og skolum síðan vel af okkur í sturtunni á eftir. Þetta þykir okkur öllum sjálfsagður hlutur.
Sundið í lífsins ólgusjó er ekki jafn auðvelt. Spjótin standa á okkur úr öllum áttum. Öruggasta heilsutrygging sem nokkur getur fengið fyrir veturinn er flensubólusetning, sérstaklega ef viðkomandi er veikur fyrir og telst í meiri áhættu á að fá fylgisýkingar eftir flensu. Búist er við eftirskjálfta af svínaflensu í vetur og ennþá eru margir óvarðir í þjóðfélaginu, ekki síst börnin. Ekki er hægt að byrja bólusetja ungbörn fyrr en um 6. mánaða aldur en það er hægt að bólusetja verðandi mæður til að verja síðar kornabörnin þeirra.
Það er alltaf leiðinglegt að liggja heima í 1-2 vikur með flensu en það er margfalt leiðinlegra að fá fylgisýkingar svo sem lungnabólgu eða eyrnabólgu sem talið er að allt upp undir helmingur barna fær eftir Inflúensu. Sérstaklega á þetta við eins og staðan er í dag þar sem ekki er hægt að treysta sýklalyfjunum nógu vel vegna sýklalyfjaónæmis og ekki verður farið að bólusetja yngstu börnin í ungbarnaheilsuverndinni geng algengustu meinvöldum fylgisýkinga flensu, pneumókokkunum, fyrr en á næsta ári.
Fullorðnu fólki, 60 ára og eldra og sjúklingum með langvinna sjúkdóma stendur í dag til boða að fá bólusetningu gegn árelegri Inflúensu á næstu heilsugæslustöð ókeypis, aðeins þarf að borga komugjaldið. Sóttvarnarlæknir mælir með að sem flestir í þessum hópi láti bólusetja sig. Eins gegn algengustu gerðum af pneumókokkum með svokallaðri lungnabólgubólusetningu sem á að endurtakast á 5-10 ára fresti og sem hægt væri að framkvæma í leiðinni. Vinnustaðir hafa verið „frekir“ á Inflúensubóluefnið sl. ár svo hér gildir lögmálið fyrstur kemur, fyrstur fær, eða meðan birgðar endast.