Fimmtudagur 14.10.2010 - 14:19 - FB ummæli ()

Fátt segir af einum

Nú er eitt ár síðan ég byrjaði að blogga á Eyjunni. Ég þakka Eyjunni fyrir að vera vera til og gefa mér þetta tækifæri. Það er gott að getað tjáð sig um þjóðfélagsmálin, ekki síst heilbrigðismál á tímum þegar verulega er skorið niður í velferðarsamfélaginu. Þvílík rússíbanareið enda stórtíðindi á hverjum degi og af mörgu að taka.

Gagnrýna umræðu hefur sárlega vantað um heilbrigðismálin þar sem fáir útvaldir leggja gjarnan línurnar og nefndir skipaðar pólitískt, án samráðs við fagfélög. Þar vantar gjarnan álit sérfræðinganna samsvarandi t.d. öllum hagfræðingunum sem nú tjá sig greiðlega um efnahagsmálin og niðurfellingu skulda heimilanna á opinberum vettvangi eins og ekkert sé. Afmælisbarnið hefur til að mynda unnið jöfnum höndum í frumheilsugæslunni og á hátæknisjúkrahúsi (LSH) og ætti þar af leiðandi að hafa einhverja yfirsýn á hvar skórinn kreppir.

Umræðan nú um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu litast meira af upphlaupum og eiginhagsmunum en um hvaða þætti grunnþjónustunnar verði að verja. Þannig hefur það reyndar verið í mörg ár og er það ein skýringin á að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu (HH) sat eftir í góðærinu. Síðan hefur hún tekið á sig meiri niðurskurð en aðrar heilbrigðisstofnanir, líka samanborðið við sambærilegar stofnanir úti á landi.

Varðandi hugmyndir nú um sameiningu heilusgæslustöðva eins og nefnd heilbrigðisráðuneytisins leggur til segir Halldór Jónsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna m.a. í nýjasta hefti Læknablaðsins: “ Margvíslegar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi samfellu í þjónustu á fyrsta stigi heilbrigðiskerfisins og að erfiðara er að viðhalda henni í stofnunum, sem komnar eru yfir ákveðna stærð. Það kemur fram í skýrslu nefndarinnar (heilbrigðisráðuneytisins) að fagfélög á Norðurlöndum hafi talað um 12-15 lækna stöðvar en skv. okkar upplýsingum er ekkert fagfélag heimilislækna á Norðurlöndum sem styður slíkt, þvert á móti vara þau við slíkri þróun. Rekstur „ofurstöðva“ með miklum fjölda lækna hefur þegar verið reyndur á Norðurlöndum en olli vonbrigðum. Þar hefur því verið fallið frá slíkum risavöxnum  heilsustofnunum. Slíkar ofurstöðvar eru farnar að líkjast of mikið litlum sjúkrahúsum og stofnunum og hafa þar með tapað þeim persónulega blæ sem er svo mikilvægur í nærþjónustu heimilislækna þar sem komið er til móts við þarfir einstaklingsins, líka þeirra sem oft og tíðum er illa við slíkar stofnanir. Aukið samstarf milli fámennra heilsugæslustöðva gæti hæglega leyst mönnunarvanda og afleysingavanda ef þörf er á og hefur slíkt samstarf milli heilsugæslustöðva nú þegar reynst vel hér á landi og nær væri þá að auka það en alls ekki fækka heilsugæslustöðvum.”

Ekki var heldur brugðist við þegar heilsugæslan á Suðurnesjum var nánast lögð í rúst fyrir 7 árum síðan vegna þess eins að ekki var vilji til að semja við heilsugæslulækna m.a. við þá sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu og kröfðust þess að fá akstursstyrk. Síðan hefur ekki verið hægt að manna stöðurnar og heilsugæsluþjónustan á Suðurnesjum færðist aftur um marga áratugi. Á sama tíma var samt hægt að byggja þar upp hátæknisjúkrahús með skurðstofum sem kemur nú að engum notum.

Umræða um heildarskipulag heilbrigðisþjónustunnar er aldrei mikilvægari en nú.  Ég hvet fleiri heilbrigðisstarfsmenn til að taka þátt og byrja að blogga eða láta í sér heyra á öðrum vettvangi svo sem flest sjónarmið heyrist í umræðunni í þessum mikilvæga en kostnaðarsama málaflokki.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn