Laugardagur 23.10.2010 - 13:23 - FB ummæli ()

Heilsugæsla með sálina að veði

sálinMikið er rætt um veikburða ríkisstofnanir þessa daganna. Þær eiga undir högg að sækja enda hefur stjórnunin ekki alltaf verið eins og best verður á kosið og oft vaknað upp spurningar hvaða hagsmuni er verið að verja. Þróun opinberrar þjónustu hefur liðið fyrir vöntun á forgangsröðun en sjónarmið vina og stjórnmálamanna látin ráða í stað bestu fagþekkingar á hverjum tíma. Oft er líka leitað langt langt yfir skammt og sérfræðingar fengnir utan að þegar besta nálgunin liggur hjá okkur sjálfum.

Gæðaþróun hefur þannig átt erfitt uppdráttar víðs vegar í heilbrigðiskerfinu, ekki síst í heilsugæslunni sjálfri. Skilaboðin um það sem vel er gert nær oft ekki upp í toppinn og sjálfur heilbrigðisráðherra og hans nánust samstarfsmenn oft illa upplýstir um gang mála á gólfinu. En það eru undantekningar og nú hefur t.d. verið stofnuð Þróunarstofa heilsugæslunnar til gæta betur að grasróttinni. Vonast er til að hún efli rannsóknir og vísindi í heilsugæslunni og stuðli að vaxandi gæðaþróunarstarfi sem skili árangri.

Sálfræðihjálp í heilsugæslunni er dæmi um þjónustu sem sárlega hefur vantað í seinni tíð, ekki síst á tímum örra og erfiðra þjóðfélagsbreytinga en sem betur fer á sama tíma og við erumbetur varin fyrir mörgum líkamlegum kvillum. Heilsugæslan byggist í eðli sínu á þverfaglegri vinnu ólíkra heilbrigðisstétta þar sem heimilislæknirinn sjálfur hefur yfirsýn með vandamálunum, eðli starfs hans vegna. Heilsugæslan er miðstöð heimahjúkrunar og öldrunarþjónustu og snertir á margan hátt félagsþjónustuna líka. Vandamálin hafa verið mörg og mikil. Gjörsamlega ómögulegt hefur verið að komast yfir öll verkefnin sem heilsugæslu er ætlað að sinna, ekki síst höfuðborgarsvæðinu þar sem undirmönnunin er hvað mest og upp undir 50 heimilislækna vantar miðað við staðla í nágranlöndum okkar.

Búnar hafa hins vegar verið til stofnanir til að annast ráðgjöf í lýðheilsu (Lýðheilsustofnun) sem auðvitað á heima innan heilsugæslunnar sjálfrar, enda fræðsluhlutverkið ekki síst hlutverk heilbrigðisstarfsfólks eins og nýjustu erlendu klínísku leiðbeiningar gera ráð fyrir. Þjónusta við veik börn fer þess í stað að mestu fram á skyndivöktum. Skortur á þjónustu hefur ekki síst verið gagnvart börnum og unglingum sem hafa átt við geðraskanir að stríða og fjölskyldna þeirra.

Ofvirkni og athyglisbrestur er mjög algengur í okkar þjóðfélagi, ekki síst hjá börnum sem gengur illa í skóla og sem aðlagast samfélaginu oft illa. Skólasálfræðingar hafa engan veginn annað álaginu og skortur á nauðsynlegri þjónutu er orðin mjög áberandi. Mjög erfitt er svo að koma börnum að hjá barnageðlæknum eða á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar LSH (BUGL) sem er undir miklu álagi. Mjög knýjandi þörf er orðin á að heilsugæslan mæti álaginu á einhvern hátt auk þess sem hún þarf að sinna vaxandi kvíða- og þunglyndisröskunum fullorðinna á erfiðum tímum. Á sama tíma er sálfræðiþjónusta sjálfstætt starfandi sálfræðinga á stofu dýr enda eru þeir ekki samningsbundnir við Sjúkratryggingar ríkisins og þannig ekki „hluti af heilbrigðiskerfinu“. Lyfjakostnaður geðlyfja, ekki síst ofvirknislyfja er á sama tíma allt að tvöfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum og segir sína sögu.

Sl. ár hafa nokkrir sálfræðingar verið ráðnir við nokkrar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu til að geta sinnt börnum til 18 ár aldurs og ungum mæðrum sem eiga við geðraskanir að stíða ekki síst þunglyndi og aukin hætta er þá á truflun tengslamyndunar við ungbörnin. Truflun sem getur leitt af sér geðraskanir hjá börnunum síðar og kvíða. Um reynsluverkefni er að ræða sem lofar mjög góðu.

Á heilsugæslustöðinni sem ég starfa í Firði er þjónustan þegar ómissandi þáttur í starfsemi stöðvarinnar. Margra vikna biðtími eftir tíma hjá sálfræðinginum segir stóran hluta af sögunni, en árangurinn af starfinu þó enn meira. Atferlismeðferð við geðröskunum svo sem hegðunarerfiðleikum og ofvirkni og meðferð við kvíðaröskunum og þunglyndi sem ekki fékkst viðhlýtandi meðferð við áður. Varanlegri árangur en með lyfjameðferð og styrking sálar við líkamann. Maður hefur spurt sig, hvernig fórum við að áður og hvaða þjónustu á heilsugæslan að veita ef ekki sálfræðiþjónustu jafnhliða annarri nauðsynlegri læknishjálp. Heilbrigð sál í hraustum líkama.

Önnur tilraunaverkefni hafa verið í gagni með þverfaglega vinnuhópa á heilsugæslustöðvunum. Fyrir nokkrum árum reið Heilsugæslan í Grafarvogi á vaðið með verkefni sem var kennt við fjölskylduna og litla barnið, verkefni sem áður hafði verið hleypt af stokkunum á Heilsugæslunni á Akureyri undir heitinu Nýja barnið. Hjálmar Freysteinsson heilsugæslulæknir var einn að frumkvöðlum verkefnisins þar ásamt fleirum. Markmiðið var að hjálpa ungum mæðrum að bæta tengsl við barnið sitt. Einnig að hlúa að vandmálum verðandi mæðra. Jafnframt að sigta út lítil börn með þroska- og hegðunarvandamál og koma þeim í þverfaglegt meðferðarteymi félagsráðgjafa, sálfræðings og heimilislæknis. Verkefnið hefur verið unnið að í samvinnu við BUGL. Mjög góður árangur hefur verið af þessari vinnu sl. ár fyrir norðan og stefnt er að því að rágjöfin verður fastur liður í starfsemi stöðvarinnar.

Annað nýtt verkefni var kynnt á nýyfirstöðnu Vísindaþingi íslenskra heimilislækna 8-9. okt. sl. Þar kynnti Kristján G. Guðmundsson heilsugæslulæknir verkefnið, Fjölskylduteymið í Glæsibæ. Markmiðið var að sinna á þverfaglegan hátt börnum sem áttu í við andlega vanlíðan eða erfiðleika að stríða, m.a. grunnskólunum í hverfinu. Gerður var samstarfssamningur við Velferðarsvið Reykjavíkur og BUGL. Kallaðir voru til sérkennarar og skólastjórnendur eftir því sem við átti og mál tekin upp í nemendaverndarráði. Meðalaldurinn var 11 ár þegar börnin komu í teymið og aðal ástæðurnar geðlægð, kvíði og hegðunarröskun. 70% foreldra reyndust síðan ánægðir eða mjög ánægðir með árangur teymisins strax eftir fyrsta veturinn (2009-2010) og töldu að börnin og fjölskyldurnar hefðu fengið góða hjálp við vandanum.

Á fræðadögum heilsugæslunnar í næsta mánuði munu sálfræðingar heilsugæslunnar kynna verkefni sín betur með öðru starfsfólki. Þjónustan er vonandi komin til að vera og þá á öllum heilsugæslustöðvum ásamt vonandi þjónustu félagsráðgjafa í samvinnu við félagsmálayfirvöld á hverjum stað. Heilsugæslulæknar ná þá vonandi aftur að vinna meira þverfaglega sem heimilislæknar og nálgast grasrótina í sjálfum sér.

Gleymum því ekki að yngsta kynslóðin fór verst út úr kreppunni í Finnlandi á áttunda áratug síðustu aldar sem kom best í ljós í geðröskunum hverskonar síðar. Kvíði, spenna og vöntun á hamingju á heimilum var stærsti áhættuþátturinn og vandamálið kom ekki augljóslega fram fyrr löngu eftir kreppuna þeirra og þá hjá heilli kynslóð ungs fólks. Fólksins sem átti að erfa landið og hefur stundum verið kölluð týnda kynslóðin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn