Fimmtudagur 11.11.2010 - 13:34 - FB ummæli ()

Það sem við viljum ekki vita, sjá eða heyra

Sé ekki, heyri ekki, veit ekki eru, skulum við segja, athafnir sem því miður oft eru notaðar í heilbrigðisvísindum og stjórnun, sennilega ekkert síður en örðum vísindagreinum og stjórnsýslufræðum. Þótt læknir vilji yfirleitt alltaf gera allt það besta fyrir sjúklinginn getur greiðinn verið á misskilningi byggður eða þá að læknirinn taki ekki nógu mikla samfélagslega ábyrgð eða afstöðu með gjörðum sínum. Skipulag heilbrigðisþjónustunnar, sérstaklega þar sem alið er á fljótafgreiðslum á skyndimóttökum, elur einmitt á þessum vanda, ekki síst þegar valkostir á úrlausnum eru of margir. Lyfjanotkun landans endurspeglar hluta af þessum vanda því það gefur auga leið að ef tíminn er lítill fyrir flóknar útskýringar á því að lyfjameðferð sé t.d. ekki nauðsynleg, jafnvel þótt hún komi hugsanlega að gagni í einhverjum tilvikum, að þá sé samt auðveldasta leiðin að baktryggja sig bara með ávísun á lyf. Gamanið gránar hins vegar ef aukaverkanir eru meiri og alvarlegri en æskileg verkun á meinsemdina eða þá að lyfjanotkunin hafi alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið allt eins og t.d. á sér stað þegar sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda er orðið mikið eða þá að kostnaður vegna lyfja og úrræðanna verður þjóðfélaginu ofviða.

Að mörgu þarf að hyggja þegar þarf að byggja. Það hefur ekki verið nógu vel gert í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar hér á landi þótt að mörgu leiti heilsugæsluþjónustan sé til fyrir myndar víða úti á landi og spítalaþjónustan góð svo langt sem hún nær. Heilsugæslan sat eftir hér á höfuðborgarsvæðinu og flestum bráðari erindum hefur þurft að sinna á bráðavöktum heilsugæslustöðvanna, Læknavaktinni, Barnalæknavaktinni eða Bráðamóttöku LSH. Allt að fjórðungur allra koma til þjónustu tengdri heilsugæslunni er einmitt vegna loftvegasýkinga og eyrnabólgu barna. Alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar hvetja hins vegar til að að slíkum erindum sé sinnt á heilsugæslustöðvum þar sem hægt er að bjóða upp á  eftirlit og fræðslu, frekar en sýkalyf af minnsta tilefni.

Ofnotkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmið hér á landi endurspeglar vel þann vanda sem við höfum þurft að búa við sl. áratugi. Notkunin er t.d. allt að því helmingi meiri hér á höfuðborgarsvæðinu en á Akureyri. Rannsóknir okkar sl. áratugi sýnir líka skýrt fram á þessi tengsl. Auðveldara er að sjá tengsl ofnotkunar og afleiðinga þegar sýklalyf eru skoðuð sérstaklega vegna þróunar sýklalyfjaónæmis í þjóðfélaginu en þegar um önnur ólík lyf er að ræða. Auðvitað ættum við samt að taka mark á þessum tengslum, líka þegar við skoðum aðrar úrlausnir í heilbrigðiskerfinu. Kerfisbundnar orsakir má nefnilega oft lagfæra. Orsakir sem ekki hefur verið litið nógu mikið til og menn þess í stað horft undan eða vandanum einfaldlega sópað undir teppið. Eða könnumst við ekki við þessi vinnubrögð annars staðar í þjóðfélaginu á sl. árum? Og hver er staða okkar í dag á þeim vettvangi?

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn