Laugardagur 13.11.2010 - 18:31 - FB ummæli ()

Vatnsflöskuvísitalan

Fátækt er afstætt hugtak, að minnsta kosti ef við hugsum um fátækt hér á landi miðað við fátækt eins og hún gerist verst úti í hinum stóra heimi. Fátækt er engu síður alltaf sár hvernig svo sem við skilgreinum hana og hlýtur alltaf að miðast við þær grunnþarfir sem við sjálf skilgreinum í þjóðfélaginu. Það er þó alltaf huggun í harmi að geta lítið á málið í aðeins stærra samhengi og borið okkur saman við aðrar þjóðir hvað auðlegð lands og miða snertir, þar sem við stöndum vel að vígi. Hinar raunverulegu eignir okkar sem nýtast okkur betur og betur í framtíðinni ef rétt er staðið að málum og auðlindirnar ekki seldar frá okkur. Þá má eflaust skilgreina okkur meðal ríkustu þjóða heims og sá tími nálgast óðfluga að kostir landsins okkar verða meðal þeirra eftirsóttustu á jörðinni.

En samt er mikið rætt um fátækt á Íslandi þessa daganna og víst er að allt að fjórðungur heimila er tæknilega gjaldþrota. Á sama tíma stefnir í að atvinnuleysi nálgist tveggja stafa tölu og að örorkuþegar nálgist 20.000. Lítill munur er á lægstu launum, atvinnuleysisbótum og örorku svo hvatinn til að vinna er oft á tíðum lítill. Hvati til vinnu verður að vera ótvíræður eins og ég hef áður fjallað nýlega um hér á blogginu mínu og mikilvægt að fátæktarhjálpin og örorkubætur fari til réttu aðilanna og að þeir sem geti unnið, vinni.

Nýlega hlustaði ég sem oftar á BBC world í útvarpinu og heyrði þar þátt um fátækt í Bangladesh (http://www.bbc.co.uk/programmes/p0084t5x). Þar voru meðaltekjur verkamanns um 2 bandaríkjadalir á dag og vatn í flöskum svo dýrt að það fékkst ekki einu sinni í matvöruverslunum á fátækustu svæðunum. Þar sem verðmæti vatns í flöskum hefur af sumum verið lagt til grundvallar fátæktarvísitölunni (poverty index). Vatn sem venjulegt fólk hefur ekki efni á að kaupa. Samt hefur Bangladesh sem ríki sýnt miklar framfarir á ýmsum sviðum á sl. áratug og verið litið upp til í ýmsum skilningi. Fjármálastjórnun miðar að því að bæta efnahag þeirra sem minnst mega sín en af þessum 2 dollurum þarf að meðaltali að borga um 15% í ýmiskonar lánakostnað þar sem tekjurnar eru meðaltalstekjur og oft þarf að brúa bilið á milli með láni fram að næstu útborgun, eins og t.d. fyrir óvæntum kostnaði svo sem læknishjálp.

Hamborgaravísitalan er hins vegar oft vitnað til í hinum vestræna heimi. Þar stöndum við reyndar illa að vígi þessa daganna og jafnvel McDonaldsveldið er búið að segja skilið við okkur. Flótti sem var einn af tákngerfingum hrunsins hér á landi. Því væri nær að við miðuðum okkur nú við vatnsflöskuvísitöluna frægu í dag, þar sem engin þjóð standur betur að vígi. Þá yrðum við kannski ánægðari með okkur.

Okkur er að minnsta kosti hollt að fylgjast betur með gangi mála í hinum stóra heimi.  Alvarlegur kólerufaraldur er nú brostin á á Haíti, nokkuð sem margir óttuðust allt frá hamförunum fyrr á árinu. Í þeirri umræðu var m.a. bent á mikilvægi hreins vatns til að viðhalda heilsu og að við gætum lagt þar mikið að mörkum. En síðan sofnuðum við á verðinum eins og reyndar margar aðrar þjóðir.

Við Íslendingar erum óskaplega miklir smáborgarar í alþjóðlegum skilningi. Jafnvel þótt við ætluðum að sigra allan heiminn á nokkrum árum og varð nokkuð ágengt í byrjun. Þær ráðagerðir einar sér, segja reyndar meira um okkur og okkar hugsanir en nokkuð annað. Við erum að eðlisfari í raun afskaplega jarðbundið fólk. Okkur farnast því best að halda okkur á jörðinni. Þar þrífumst við vel og gerum góða hluti. Þar höfum við líka mikið upp á að bjóða, jafnvel úti í hinum stóra heimi.

Vatnið okkar er aðeins lítill hluti af þeim auðlindum sem við njótum og getum boðið  öðrum með okkur, auðlind sem getur skapað meiri og betri heilsu en flest annað sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Ofan á allt annað höfum við líka nógan jarðvarma til að hita vatnið okkar. Hvað er hægt að hugsa sér það betra. Lítum nú á heiminn í aðeins stærra samhengi, því enginn er eyland.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn