Miðvikudagur 17.11.2010 - 14:24 - FB ummæli ()

Kaffibætirinn

Í gamla daga var það hluti af sveitamenningunni að fá kaffimjólk með sykri og ekki var verra að fá kringlu til að dýfa ofan í. Kaffiuppáhellingin var eitt af skyldustörfunum heima í húsi sem maður gekk undir með glöðu geði. Alltaf man ég eftir kaffirótinni, þeirri lúxus vöru sem ég þá taldi að kaffibætirinn væri, í rauðu fallegu hólkunum sem angaði svo vel. Ómissandi í allar uppáhellingar, hálf til ein tafla í hverja könnu ef ég man rétt.

Baunirnar dýrmætu brenndi maður og malaði á rigningardögunum. Sóló olíueldavélinn var auðvitað órjúfanlegur hlutur af þessari endurminningu. Vél sem gekk allan sólarhringinn til að halda yl í húsinu kaffinu heitu í könnunni, stundum innan um ullarleppa og annað sem fékk að hanga yfir henni til þerris ef maður hafði blotnað. Hlutir sem krydduðu um leið kaffitjörublandaðann ilminn.

Einhvernveginn fær myndin á sig nýjan blæ í dag þegar kaffirótin er orðuð við fátækt og að hún hafi einungis verið notuð til að drýgja dýrt kaffið. Þvílík vonbrigði. Kaffibætir var allavega betra nafn og gott heiti á vöru til að njóta. Þessi minning skaut upp hjá mér nú þegar ég hugðist kaupa kaffikönnu fyrir „baunakaffi“  fyrir tugþúsundir króna. Eins þar sem mér var boðið að vera í rándýrri mánaðarlegri áskrift hjá erlendu kaffiframleiðslufyrirtæki og fá þá afslátt af vélinni. Kaffið hins vegar hressir, bætir og kætir. Þannig var það að minnsta kosti í gamla daga.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn