Í gamla daga var það hluti af sveitamenningunni að fá kaffimjólk með sykri og ekki var verra að fá kringlu til að dýfa ofan í. Kaffiuppáhellingin var eitt af skyldustörfunum heima í húsi sem maður gekk undir með glöðu geði. Alltaf man ég eftir kaffirótinni, þeirri lúxus vöru sem ég þá taldi að kaffibætirinn væri, í rauðu fallegu hólkunum sem angaði svo vel. Ómissandi í allar uppáhellingar, hálf til ein tafla í hverja könnu ef ég man rétt.
Baunirnar dýrmætu brenndi maður og malaði á rigningardögunum. Sóló olíueldavélinn var auðvitað órjúfanlegur hlutur af þessari endurminningu. Vél sem gekk allan sólarhringinn til að halda yl í húsinu kaffinu heitu í könnunni, stundum innan um ullarleppa og annað sem fékk að hanga yfir henni til þerris ef maður hafði blotnað. Hlutir sem krydduðu um leið kaffitjörublandaðann ilminn.
Einhvernveginn fær myndin á sig nýjan blæ í dag þegar kaffirótin er orðuð við fátækt og að hún hafi einungis verið notuð til að drýgja dýrt kaffið. Þvílík vonbrigði. Kaffibætir var allavega betra nafn og gott heiti á vöru til að njóta. Þessi minning skaut upp hjá mér nú þegar ég hugðist kaupa kaffikönnu fyrir „baunakaffi“ fyrir tugþúsundir króna. Eins þar sem mér var boðið að vera í rándýrri mánaðarlegri áskrift hjá erlendu kaffiframleiðslufyrirtæki og fá þá afslátt af vélinni. Kaffið hins vegar hressir, bætir og kætir. Þannig var það að minnsta kosti í gamla daga.