Þjóðfélagið endurspeglar vel þá einstaklinga sem það byggja. Þroski og uppeldi er mikilvægast í fari hvers manns og skapar þá eiginleika að gera einstaklinginn að góðri félagsveru í samfélaginu. Að mörgu leiti höfum við Íslendingar gert hlutina öðruvísi en aðrar þjóðir og þroski okkar sem þjóðar hefur verið mjög hraður, kannski allt of hraður. Við höfum oft hlaupið út undan okkur eins og kálfar að vori og að mörgu leiti erum við sem óþroskaður unglingur sem er að hlaupa af sér hornin. Að einhverju leiti þroskaðri nú en fyrir nokkrum árum síðan og sárri reynslu ríkari en eigum samt langt í land. Sem betur fer er vel búið að okkur sem ungri og kraftmikilli þjóð sem margar aðrar þjóðir líta upp til með eftirvæntingu í huga. En nú er kominn sá tími að við verðum að endurskoða uppeldisreglurnar svo unglingurinn í okkur fái að blómstra og hann sýni hvað í honum býr.
Hóað var til fjölskyldufundar nýlega og haft var samráð við alla aðila málsins. Niðurstöður fundarins voru einfaldar og skýrar en nú er komið að því að útfæra samskiptareglurnar nánar, ákveða með útivistartíma og vasapening og þau mörk sem unglingi er svo mikilvægt að vita hvar liggja. Skapa góðan ramma til að halda sér innan svo ekki komi til óþarfa árekstra við umhverfið og til að reyna að tryggja góða og örugga vegferð inn í framtíðina.
Hverjum treystum við svo best til að semja þann ramma sem þarf? Gamli ramminn dugði ekki og miklir brestir voru komnir í samskiptin þar sem reglurnar voru engan veginn nógu skýrar. Allir vita hvað auðvelt er að notfær sér glufur í regluverkinu svo það er eins gott að girða fyrir þær þegar kemur að því að semja nýjar reglur. Til verksins hafa boðið sig fram yfir 500 manns alls staðar að úr þjóðfélaginu. Flest örugglega ágætis fólk sem hefur margt fram að færa. Í mínum huga ætla ég að velja til verksins þá aðila sem ég treysti best, er réttsýnt og sanngjarnt að mínu mati en um leið stefnufast og agað. Við þurfum á duglegu fólki að halda sem byggir skoðanir sínar á yfirsýn á vandamálunum, þroska og kunnáttu til að útfæra. Sanngjarnt fólk sem tekur mið af öllum þeim grunngildum sem þjóðfundurinn okkar boðaði um daginn og ekki síst manneskjum sem auðvelt er að vinna með.
Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. En í dag verðum við að vera dálítið hátíðleg enda mikið í húfi. Stóru hugtökin um réttlæti og bræðralag fá á sig hversdaglegan blæ þessa örfáu daga sem eru fram að helginni. Hugtök sem voru á hvers manns vörum fyrir ekki svo mörgum áratugum síðan og eru sum staðar í heiminum brennandi á vörum fólks alla daga.
Í mínum huga er brýnast að tryggja lýðræðið okkar og aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafavalds á öllum stigum stjórnsýslunnar. Hvergi er það jafn mikilvægt og hjá lítilli þjóð þar sem allir þekkja alla. Landið þarf þannig líka að vera eitt kjördæmi þannig að klíku- og þrýstihópar eigi ekki beina leið inn á sjálft alþingið. Hreppapólitíkin á að halda sig í sveitinni þar sem hún á alltaf best heima.
Tryggja á að náttúruauðlindirnar séu eign almennings undantekningarlaust. Fiskurinn, fjöllin okkar og vatnið á að vera okkar allra. Hreint land og fagurt er það dýrmætasta af öllu sem við verðum að varðveita. Við erum vörsluaðilar að landinu okkar fyrir allan heiminn og sem skapar Íslendingum í dag mikla sérstöðu á tímum þar sem mikill skortur er að verða á óspilltri náttúru og hreinu vatni víðast hvar.
Sú var tíðin að kirkjan var skjól fyrir yfirvaldinu. Nú er öldin önnur og kirkjan sjálf orðin valdastofnun sem þarf að lúta eftirliti ríkisins. Fullkomna á því aðskilnað ríkis og kirkju sem fyrst og leggja þjóðkirkjuna niður sem stofnun. Eignir þjóðkirkjunnar á að gera upptækar og afhenda kirkjurnar þjóðinni og sveitunum aftur til ráðstöfunar. Gera á öllum trúarhópum jafnt undir höfði og alls ekki að þröngva trúarbrögðum að neinum, allra síst börnunum okkar. Stefna á að Íslandi verði umburðarlynt fjölmenningarríki í sem mestum tengslum við umheiminn því aðeins þannig vinnum við á mölbúahættinum og vinnum upp það forskot sem margar siðmenningar þjóðir hafa haft á okkur. Aðeins þannig getum við treyst á góða alþjóðlega menntun barnanna okkar.
Að lokum vil ég vara fólk við að velja frambjóðendur með reiknivélum þar sem margir góðir frambjóðendur eru ekki með í grunnunum sem valmöguleikarnir byggja á. Ekki eru heldur reiknaðir inn þeir mannkostir sem þarf til verksins og greint var frá hér að ofan. Látið málefnin ráða og kjósið síðan ykkar mann eða konu með hjartanu einu að vopni. Leitum þannig að birtunni nú í mesta skammdeginu.