Mánudagur 22.11.2010 - 20:37 - FB ummæli ()

Vegir liggja til allra átta

Mamma GógóListin eins lífið er sífelt að koma manni skemmtilega á óvart. Síðastliðið föstudagskvöld var farið á vídeóleiguna til að ná í barnaefni fyrir barnabörnin, en um leið tekinn diskur fyrir okkur eldra fólkið enda ekkert sérstakt í sjónvarpinu. Fyrir valinu varð, með semingi að minni hálfu, myndin Mamma Gógó eftir Friðrik Þór Friðriksson. Í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema af því ég sjálfur hafði verið spenntari fyrir einhverri hasarmynd, svona í tilefni á lokum hversdagslegrar vinnuviku. En viti menn…

Í stuttu máli man ég ekki í svipinn eftir að hafa séð betri kvikmynd og það fyrir mjög óvenjulegar sakir sem hitti beint í mark. Ég hafði búist við góðri, en jafnval átakanlegri sögu um Alzheimer sjúkling. Einmitt á þeim væntingum byggðist misskilningur minn og einfeldni eins og svo allt of oft hefur gerst áður. Myndin fjallaði nefnilega að mestu leiti um allt annað.

Á einstaklega áhrifamikinn og fallegan hátt um „gamla fólkið okkar“ í nútíð og þátíð, lífið þeirra og tengsl okkar við það í dag. Á áhrifaríkari hátt en ég hef nokkrum sinnum séð eða hugsað um áður. Hvernig Friðriki tekst að spinna söguþráðinn saman, er meistaraverk og einstakt að sjá hvernig gömul myndbrot úr 79 af stöðinni falla vel að endurminningunni, ekki síst í lokaatriði myndarinnar. Glamparnir í augu ungu konunnar og sömu konu 60 árum síðar, augnablikum tímans, væntinganna og vonanna. Að sjá svipbrigði þeirra Kristbjargar Kjeld og Gunnars Eyjólfssonar renna saman við eilífðina, svo sanna og trúa, er einstakur viðburður í heimi kvikmyndanna að mínu mati og sem eitt og sér nægir að lyfta kvikmyndinni til stjarnanna, jafnvel alla leið á himinhvolfið í sjálfri Hollywood. Betur verður ekki gert.

Sagan segir í eftirminnilegum myndbrotum mikla sögu. Eitt af áhrifamestu atriðunum í myndinni er jólastundin á elliheimilinu undir angurværu spili á trésög. Barnakór á bakvið syngjandi jólalög. Öll andlitin sem hvert segir sína sögu og allir virðast bara bíða þess óhjákvæmilega í hálfgerðri angist og tómarúmi. Á sama tíma erum við rækilega minnt á að við höfum ekki tíma fyrir gamla fólkið okkar en fáum elskulega nýbúanna, sem gjarnan þiggja lægstu launin, til að hlaupa í skarðið. Við höfum hins vegar svo lítinn tíma en bíðum líka óþreyjufull þess sem verða vill á allt annan hátt. Þegar síðan ævin er öll taka alltaf aðrir við og sagan hefst að nýju. Þannig er síðasta atriðið líka áhrifamikið þegar gömlu hjónin vitja heimilis síns að leiðarlokum. Það sorglegasta er að yngra fólkið sá ekki fegurðina í þessu öllu saman.

Kristbjörg Kjeld stendur upp úr í sínum leik og aðrir standa sig með prýði. Það er þó leikstjórnin og handritið sem skapa myndinni algjöra sérstöðu. Það er afar sérstakt að geta blandað saman tveimur ólíkum kvikmyndum, tveimur ólíkum sögum og tímaskeiðum í nýja sanna sögu, á jafn áhrifaríkan og sannan hátt. Sögu um ástin, væntingarnar og lífslokin. Ástarsagan í 79 af stöðinni átti sér óvæntan endi og allt annan þegar allt kom til alls. Þannig er lífið sjálft. Vegir okkar liggja líka til allra átta.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn