Sunnudagur 21.11.2010 - 23:45 - FB ummæli ()

Fálm í myrkri

Hver kannast ekki við það að þurfa að ganga einstaka sinnum í myrkri? Oftast er það heima við þar sem við þekkjum vel aðstæður og ekkert kemur á óvart. En stundum erum við á ókunnum slóðum og verðum að treysta á önnur skilningarvit en sjónina og þá fálmum við fram fyrir okkur í þeirri von að við rekumst ekki á neitt óvænt. Við reynum þó að vera skynsöm og finnum okkur einhver kennileiti eða eitthvað til að ganga eftir. Með tímanum hef ég t.d. vanist að ganga úti í náttúrunni í myrkri en á vegaslóðum þar sem ég þekki nánast hvert fótmál. Þar læt ég fæturnar ráða mestu svo ég detti ekki óvænt um sjálfan mig eða einhverja holu eða skurðskorning. Reynsla og góð þekking er allt sem til þarf og svolítið sjálfsöryggi.

Enn einu sinni er verið að ræða hagræðingu í heilbrigðiskerfinu og að styrkja þurfi spítalaþjónustuna úti á landi, m.a. kragasjúkrahúsin. Enn einu sinni er verið að ræða að sleppa að nýta Heilsuverndarstöðina fyrir heilbrigðisstarfsemi, sjálfa vöggu heilsugæslunnar í landinu eins og við þekkjum hana í dag. Umræðan fer í hringi og alltaf eru rök á móti sem dregin eru fram gegn að því er maður telur skynsamlega ráðstöfun í þeirri erfiðu stöðu sem við erum nú í. Og það verður skorið niður svo spurningin er aðeins hvar?

Eins og ég hef gert grein fyrir svo oft áður að þá er heilsugæslan mikið frábrugðin því sem hún var áður þegar menn til sveita urðu að bjarga sér og sínum út fyrir mörk lífs og dauða. Þegar mikið liggur við að þá eru góð ráð ódýr og þannig var það langt fram á síðustu öld. Undanafarna áratugi hefur landsbyggðin, ekki síst í nágreni höfuðborgarinnar alltaf treyst fyrst og fremst á Landspítalann þegar alvarleg slys eða sjúkdóma ber að höndum. Framfarir í heilbrigðisöryggi víða á landsbyggðinni hefur fyrst og fremst náð til öflugra sjúkraflutninga, bæði með sjúkrabílum og bættum samgöngum á landi svo og til sjúkraflugsins, ekki síst með þyrlum Landhelgisgæslunnar þegar mikið liggur við.

Læknishjálp í héraði nær þannig fyrst og fremst til fyrstu hjálpar og grunnheilsugæslu. Því er mikilvægast af öllu að treysta með öllum ráðum góða sjúkraflutninga ásamt því að viðhalda góðri heilsugæsluþjónustu í héruðunum ásamt þjónustu í sjúkraskýlunum og dvalarstofnunum fyrir aldraða. Heilsugæslan er fullfær að annast þá þjónustu sem með þarf. Öðru máli gildir á stöðum eins og Ísafirði og á Akureyri þar sem aðstaða verður einnig að vera fyrir hendi til skurðaðgerða og fullkomnari sjúkrahúsþjónustu eins og verið hefur, ekki síst með fæðingarhjálp í huga. Sérstaklega á þetta allt við ef við stöndum frammi fyrir þeim erfiða valkost að láta annars Landspítalann blæða meira. Um þessi atriði höfum við verið rækilega minnt á í dag og kvöld þar sem sem mörg umferðaróhöpp hafa verið á vegum landsins og sjúkraflutningar margir til höfuðborgarinnar á landi sem og með flugi.

Landbyggðarfólkið verður líka að skilja að víða er grunnheilsugæslan í betri farvegi hjá þeim en hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki síst þeirri slöku uppbyggingu að kenna að sífellt hefur verið bent á annað val um góðar úrlausnir svo sem frjálst val til sérfræðinga og aðgerðir út um borg og bæ. Þegar á reynir eins og nú gerir og samningar eru í upplausn við sérfræðinga ræður heilsugæslan engan veginn við vandann enda mikið undirmönuð. Hver heilsugæslulæknir getur þannig þurft að sinna um 4000 manns í dag eða allt að þrefalt fleirum en þykir gott úti á landi. Landsbyggðin er þannig að mörgu leiti betur í sveit sett með grunnþjónustu við bráðveika og getur betur tryggt að koma sjúklingum á heilbrigðisstofnanir þar sem þeir fá annars og þriðja stigs þjónustu en höfuðborgarbúar sem verða á leita á yfirfullar læknavaktir og bráðavaktir sjúkrahúsanna.

Þeir sem hafa unnið í grasrótinni áratugum saman á vígstöðvunum þekkja þessi mál öll mjög vel og miklu betur heldur en reiknifræðingarnir sem setjast nú niður og reikna út frá allskonar forsendum sem eiga oft rætur í hagsmunum sérhagsmunahópa. Það er hins vegar aðeins til ein læknisfræði, ekki síst þegar kemur að því að bjarga mannlífum og sinna stórslösuðum og sjúkum. Það þekkjum við læknar best, en með árunum hafa komið upp þvílíkur hafsjór millistjórnenda og hagræðingarsinna að skoðanir læknanna sjálfra skiptir minnstu hvað skipulag heilbrigðisþjónustunnar varðar. Við höfum svo sem alltaf haft nóg með að sinna þeim sjúku og farnast þau störf best af öllum. Heilbrigðiskerfið er reyndar flókið og mjög dýrt. Það er þó ekki síst dýrt vegna óhagræðis í stjórnsýslunni sjálfri og gríðarmiklu stjórnunarbatteríi.

Sérfræðingarnir sem vinna og skipuleggja grunnvinnuna eru því miður eins og hverjir aðrir heilbrigðisverkamenn. Afköstin fjara hins vegar smá saman út í flóknu regluverki og höftum meðan stjórnunarkerfið þenst út og verður sífellt dýrara og dýrara. Umræða sl. misseri um heilbrigðismál endurspegla þessa staðreyndir og margir af þeim fáu læknum sem mest vita um hagræðinguna kjósa frekar að þegja en segja þar sem þeir eru fyrir löngu orðnir þreyttir á að þeirra skoðanir eru virtar að vettugi. Eins til að þóknast öllum stjórnendunum enda ekki gott að hafa allan valdapýramídann ofan á sér alla daga. Á meðan fálmum við öll í myrkrinu og erum eins og á ókunnugum stað þótt sum okkar þekki leiðina vel og gætum í raun farið hana blindandi.

Nú brá svo við í kvöld að það var fullt tungl og hrím á jörðu. Himininn var ljósgrár í skýjahulunni og jörðin silfruð og ægifögur. Það var auðvelt að ganga út á heiði og mér varð hugsað til upphafs sögu minnar hvað allt væri nú auðvelt ef við gætum bara kveikt á perunni. Hvað allt lægi ljóst fyrir, ekki síst sjálfur raunveruleikinn. Hvað það væri annars vitlaust að reyna að fálma alltaf útí myrkrið endalaust.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn