Föstudagur 26.11.2010 - 09:40 - FB ummæli ()

Glugginn okkar

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, eða ættum við ekki heldur að segja litla. Oft hef ég nefnilega velt fyrir mér hvað við höfum litla heildarsýn á málunum og viljum leita langt yfir skammt. Það ræðst sennilega af því, að því lengra sem er í myndefnið og því stærri sem sjónmyndin er, því fallegri verður heildarsýnin eins og þegar við lítum til fjallanna. Eins sjáum við líka upp í himingeiminn á stjörnubjörtum nóttum út um gluggana okkar heima. Á öðrum tímum er útsýnið takmarkað við þröngt sjónarhorn. Þá sjáum við oft bara í næsta hús eða glugga. En það er alltaf þægilegt að vera inni í hlýjunni og láta fara vel um sig.

Heildarmyndin í lífinu er líka oft ansi lítil og afstaða okkar til málanna einskorðast stundum eins og að við horfum alltaf út um sama gluggann. Dægurþrasið um það hver hefur það best í þjóðfélaginu og hver gerði hvað. Jafnvel innan sjálfrar stjórnsýslunnar og milli æðstu embættismanna Lýðveldisins Íslands horfa menn oft út um þrönga og litla glugga niður við Arnarhól. Og við erum oftar en ekki, ekki sammála um hlutina. Hvert okkar þrífst í skálkaskjólum hverskonar og við viljum passa upp á okkur og það sem okkur tilheyrir. En hvað ef við værum geimverur eins og sumir segjast vera og gætum þá séð jörðina ofan frá? Þá værum við hin reyndar ósýnileg og höfuðborg eins og Reykjavík aðeins eins og litlar glitrandi gular ljóstýrur á nóttunni. Við myndum samt furða okkur á, þegar betur væri að gáð og við komin niður á jörðina, að jarðarbúar eru furðuleg fyrirbæri.

Nærumhverfið er nefnilega það sem skiptir okkur mestu máli dags daglega. Þar verðum við að átta okkur betur á samhengi hlutanna. Nánasta nærumhverfið sjáum við reyndar ekki með berum augum, bakteríuflóruna í okkur og á sem skiptir okkur meira máli en allar stjörnur himingeimsins, jafnvel þótt við viljum sem minnst af henni vita. Í báðum tilvikum koma þó vísindin að miklu gagni. Allt lútir ákveðnum lögmálum og tengist á einn eða annan hátt, á jörðinni og í himingeimnum. Sjálfur fór ég að rannsaka samband sýklalyfjanotkunar barna og dreifingar sýklalyfjaónæmra baktería í nefkoki þeirra fyrir tveimur áratugum ásamt félögum mínum til þess eins að sjá sambandið á milli ávísanavenja lækna, starfsumhverfis og áhrif á heilsu barna til lengri tíma litið. Hönnun rannsóknarinnar á seinni stigum var eins og við hönnun reiknimódels til að við gætum séð og lært um orsakir og afleiðingar frekar en að líta á einstakar tölur á líðandi stundu. En við vorum heilbrigðissóðar og tókum niðurstöðunum ekki mjög alvarlega. Því erum við stödd þar sem við erum í dag…

Í raun ganga öll vísindi mest út á að finna orsakir og samband á milli hluta til að við getum lært af niðurstöðunum og þróað okkar samfélag betur. Þannig er líka hægt að rannsaka allskonar tengsl milli athafna okkar mannanna og annarra breytinga í náttúrunni og nú er minnt á og þátt okkar í hlýnun jarðar með listaverki Bjargeyjar Ólafsdóttur á Langjökli. Listaverki sem verður best séð ofan úr geimnum. Fjármálaaustrið og útrásin fræga fyrir hrun var auðvitað aðeins lítill hluti af heildarmyndinni sem við sáum, mynd sem við sáum aðeins út um ákveðna glugga þegar við vildum á góðviðrisdögum en vitum nú að var fjármálasóðaskapur af verstu gerð. Aðra daga var glugginn lokaður og dregið fyrir og enn í dag er ekki búið að draga frá öllum gluggum. Ennþá lítið tekið mark á vísindunum þar. Sennilega væri því ekki vitlaust að hugsa nú eins og geimvera þegar við kjósum til stjórnlagaþingsins til að reyna að sjá betur heildarmyndina.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn