Fimmtudagur 02.12.2010 - 23:15 - FB ummæli ()

Lekinn

Oft verður sannleikurinn kjurr að liggja þar sem hann er sennilega best geymdur. Í flestum tilvikum er sannleikurinn þó sagna bestur og best að hann komi sem fyrst fram í dagsljósið. Slúður og kjaftasögur, sem jafnvel eru sagðar í hita leiksins milli tveggja einstaklinga er dæmi um oft afskræmdan sannleika, en sem er nú oft festur með bókstöfum í netheimum og sem getur verið vafsamur sannleikur sem síðari tíma sagnaheimild. Þetta á ekki síst við þegar mikilvægi góðra samskipta á milli þjóða er í húfi og sem fyrir misskilning gæti leitt til mannskæðra styrjalda. WikiLeaks leyndarmálin verða í sumum tilvikum að túlkast sem slík leyndarmál. Svik og trúnaðarbrestur þess sem lekur upplýsingum er heldur aldrei hægt að réttlæta nema þær upplýsingar snerti almannaheill, líf og dauða og ekki síst heill þeirra sem okkur er öllum ætlað að gæta svo vel, baranna okkar.

Upplýsingar úr opinberri stjórnsýslu sem er ekki ætlað að koma fyrir almenningssjónir, verður samt að teljast í sumum tilvikum vera réttur almennings að sjá og vita samkvæmt upplýsingarlögum, ekki síst ef sjálf þjóðarbörnin eiga í hlut. Í mörgum tilvikum byggðum við hús okkar á sandi, hér heima og í alþjóðlegu samstarfi. Þetta á ekki síst við stuðning okkar sem viljugrar þjóðar við beinar hernaðaraðgerðir. Þátttaka sem í ljós hefur komið að forsendur voru í mörgum tilvikum falsaðar og upplýsingar um framvindu stríðsins síðan afbakaðar. Upplýsingar og leki úr fjármálaheiminum eru næstar á dagskrá WikiLeaks og virðist af nógu að taka af þeim 200.000 skjölum sem eftir á að birta. Sannleikanum sem ef til vill má ekki koma í ljós að því hann er svo svartur og ljótur? Hvað getur svo sem komið okkur Íslendingum meira á óvart úr heimi fjármálanna?

Af öllu sem við höfum lært af rannsóknarskýrslu Alþingis, er ekkert sem orkar tvímælis um að við hefðum ekki átt að bregðast fyrr við, ef við hefðum vitað um vandann. Þöggun og yfirhylmingar, jafnvel í þágu ríkishagsmuna sem þá voru taldir, stóðust ekki tímans tönn og leki á mikilvægum upplýsingum, meðal annars af minnisblöðum, hefði getað bjargað miklu. Því miður jókst bara vandinn meira og meira með hverju árinu sem leið eins og risastórt kýli sem að lokum sprakk með látum. Þakka má fyrir að sjúklingur fái ekki blóðeitrun og látist þegar þannig er staðið að málum. Auðvitað hefði átt að vera búið að skera í kýlið fyrir löngu til að hleypa út öllum greftinum, ekki síst þegar farið var að bera á daunillum leka úr því . Skyndilausnir og allskonar lyfjagjafir slógu í besta falli á verstu einkennin tímabundið en seinkaði um leið hinum eiginlega bata og lækningu.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn