Þriðjudagur 07.12.2010 - 14:02 - FB ummæli ()

Eyðibýlin

Í upphafi jólaföstu þegar barnshjartað er farið að slá aðeins fastar og kveikt hefur verið á öllum jólaljósunum er ömurlegt að þurfa að fyllast svartsýni yfir málefnum þjóðarinnar. Á sama tíma og botninum er að verða náð eftir Hrunið mikla skuli vera yfirvofandi annað hrun sem að sama skapi er einnig okkur sjálfum að kenna.

Landsflótti menntafólks vegna ósanngjarna úrlausna í skuldamálum, lágra launa og hárra skatta sem kemur harðast niður á þeim sem mest leggja að mörkum í þjóðfélaginu. Einmitt á tímum sem byggja ætti upp öfluga framtíðarsýn og blása í herlúðra til hvatningar fyrir unga fólkið, til að mennta sig og til að það geti tekið við búinu okkar að náminu loknu, eru örlagaþræðir lagðir af stjórnvöldum til framandi heima og langt út fyrir landsteinanna.

Heimilin eru öllum heilög og það að geta unnið fyrir sér og sínum er það mikilvægasta í lífinu. Margir leggja mikið á sig til að ná þessum markmiðum. Flestir vilja vera fyrrimynd barnanna sinna, því vinnan er sögð göfga manninn. Sumir leggja á sig langa og dýrmæta skólagöngu, komast seint út á vinnumarkaðinn en sem nýtist síðan þjóðfélaginu ómælt vel. Aðrir fara fljótar að sérhæfa sig á ýmsum sviðum og skapa sér og þjóðfélaginu fljótt tekna. Þannig gagnast menntun á öllum sviðum einstaklingunum sem landið búa, heimilunum og þjóðfélaginu öllu. Fáir vilja vera upp á sveitina komnir sem ómagar en þeim fer því miður fjölgandi enda oft neyðugur sá einn kostur með lömuðu atvinnulífi.

Sennilega sjá fáir heildarmyndina betur hvað heimilin varðar og hvar kreppir mest að í fjölskylduheilbrigðinu en einmitt heimilislæknar. Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) mótaði fjölskyldustefnu FÍH á ári fjölskyldunnar árið 1994, fyrst heilbrigðisfagfélaga á Íslandi. Þar var lögð áhersla á þá þætti sem skipta höfuðmáli fyrir þarfir fjölskyldunnar svo hún dafni vel, svo sem varðandi atvinnumál, húsnæðismál og menntamál. Þótt margt hafi breyst á þeim 16 árum sem liðin eru frá því stefnan var sett fram, eru megingildin enn fullu gildi og sem reynir nú meir á en nokkru sinnum frá því hún var sett fram enda flest heimili undir, aðallega vegna ofutskuldsetningar og yfirvofandi gjaldþrota.

Skuldavandi heimilanna í landinu er gríðarlegur eftir hrun og lætur nærri að fjórða hvert heimili sé tæknilega gjaldþrota, þ.e. skuldir meiri en eignir. Úrlausnir sem ríkistjórnin hefur nú ákveðið til að koma á móts við nær aðeins til þeirra sem skulduðu mest og voru við það að tapa eignum sínum hvort sem er til bankanna. Jafnvel tugir milljóna á nú að afskrifa af skuldum einstaklinga og hjóna sem skulda hlutfallselga mest svo fólkið geti búið áfram í húsunum sínum. Ráðstöfun sem er óháð stærð eigna og sem fyrirséð var að voru tapaðar eignir vegna yfirveðsetningar. Eigendanna er nú að njóta sem skulda eftir sem áður meira en nóg en verða samt að þakka að aðeins eitt pennastrik skildi á milli þeirra og hinna.

Aðrir sem skulduðu örlítið minna auk meginþorra fólks í landinu fær nú ekkert nema sáralitlar tilslakanir í formi tímabundinna vaxtarbóta. Háskólalaun eins og önnur laun hafa samt rýrnað um helming sl. ár og nægja varla fyrir afborgunum að viðbættum ofursköttum ef reyna á að bæta björg í bú með mikilli yfirvinnu. Þetta þekkja læknar vel í dag og margir aðrir háskólamenntaðir sem nánast lifa undir fátæktarmörkum. Slík staða hlýtur að vera grafalvarleg pattstaða fyrir þjóðfélagið og skýrir vaxandi atgerfisflótta frá landinu.

Þeir sem eru á seinni hluta síns starfsferils og höfðu hlutfallslega greitt mest af sínum skuldum til baka fyrir hrun sjá nú eftirstandandi skuldirnar sínar aftur snarhækka mega eiga það sem úti frýs nú á aðventunni. Jafnvel heilu kynslóðirnar sem áður misstu eignir sínar vegna fyrri óstjórnar í landinu og sem voru aðeins farnar að anda léttar. Miðaldra millistéttin sem á nú oft lítið í eignum sínum þrátt fyrir allt og lnga starfsævi. Stétt sem er nú hin raunverulega lágstétt sem á sér enga framtíð nema hjá lífeyrissjóðunum sínum sem heldur um það eina sem getur kallast sparfé. Sjóðir sem eru engu að síður eru tilbúnir að leggja eitthvað af mörkum við endurreisn landsins. Kynslóðin sem skilar jafnvel engu í arð til niðja sinna en sem lífeyrissjóðir þeirra geta kanski gert.

Ójöfnuður í niðurfellingu lána birtist ekki síst í mismun á því hvort fólk var að mennta sig eða byggja yfir sig. Námsmenn sem koma nú heim eftir langt nám erlendis eru jafnvel með tugir milljóna króna í námslán sem hafa hækkað tvöfalt vegna stöðu sem var tekin gegn krónunni og sem þeir verða að lokum að greiða hvern einasta eyri af til baka. Námsmenn eins og unglæknar eftir 6-7 ára almennt læknanám sem við núverandi aðstæður byrja á launum nálægt 320.000 á mánuði, eignarlausir og oft með nýstofnaða fjölskyldu. Þeir eru í dag hámenntaðir öreigar sem eiga litla von, öreigar landsins sem samt framtíðin ætti m.a. að byggjast á. Þeir verða að borga ofurleigu á húsnæði á sama tíma og þeir verða að borga fastar afborganir af námslánunum sínum auk tekjutengingar sem verða eins og millusteinar um hálsinn á þeim um ókomna tíð ásamt hátekjuskattinum. Engar vaxtarbætur á þeim bænum né önnur fyrirgreiðsla frá hinu opinbera. Jafnaldrinn sem keypti hins vegar dýru íbúðina sína úr steini á sama tíma og námsmaðurinn sem fór í langtímanámið, fær nú jafnvel tugmilljarða niðurfellingu á sínum verðtryggðu skuldum. Væri þá ekki a.m.k. jöfnuður í því að bjóða námsfólkinu að það gæti selt þjóðinni hluta af sálu sinni og fengið niðurfellingu á yfirveðsettu námslánum sínum í staðin. Skólakostnaður hér heima er hvort sem er tapað fé fyrir land og þjóð ef námsfólkið verður að lokum að flýja land.

Gömul hús standa víða auð og yfirgefin úti á landi og sem segja aðra sögu en nýju húsin í dag. Tóm hús sem hafa fengið menn til að staldra við á ferðalaginu. Ekki síst steinhúsin sem blasa við á túnhólunum eins og hauskúpur með tómu augntóftirnar sínar. Hús sem segja oft meiri sögu um fólkið sem þar bjó en en allt annað sem er skrifað. Ekki síst um dugnaðinn á þeim tíma sem þau voru byggð og áræðnina að komast yfir nýtt byggingarefni, sementið sem hræra mátti með steinum og sandi í svita síns erfiðis til að búa til nútímalegt byggingarefni sem stæðist tímans tönn. Til þess eins að skapa fjölskyldunni betra líf. Tilfinningar sem vakna þegar hugsað er um uppeldi barnanna í húsunum, væntingar um gott og hamingjusamt líf, gleði og sorgir síðar á lífsleiðinni. En allt í einu breyttust forsendurnar vegna mannlegra áhrifa, banna og hafta. Nú standa önnur og glæsilegri hús tóm sem einnig eru byggð úr steini. Einnig þau sálarlausu húsin sem bankarnir tóku og hálfkláruðu húsin sem standa eins og hræ á gömlum vígvöllum sem á eftir að taka til á og moka yfir. En lífið snýst um meira en húsaskjól þótt við búum í harðbýlu landi og kuldaboli getur sannarlega bitið í. Forsendur fyrir búsetunni þurfa einnig að vera fyrir hendi.

Stóreignabændur og höfðingjar hér áður fyrr sem áttu jafnvel heilu sveitirnar, tryggðu ábúendunum þó viðverurétt á jörðunum að ýmsum skilyrðum uppfylltum. Ölmusur og önnur örbyrgð tengdist kotbúskap þar sem menn og konur gátu sig ekki hreyft. Það fólk reisti sér aldrei steinhús og gerði sér aldrei neinar væntingar um sparnað til efri áranna. Það einfaldlega dó drotni sínum þegar þeirra tími var liðinn. Samfylking öreiganna var þá heldur ekki komin til sem stjórnmálaafl í landinu. Allra síst hefði það sprottið upp sem sem afl sem vinnur gegn sjálfum markmiðum og óskum vinnandi fólks sem hafði enþá einhverja von í hjarta um réttlátara þjóðfélag og bjartari framtíð. Allra síst að sú hreyfing væri sem leppur til að styrkja höfðingjaveldið enn frekar og flæma fólkið burt af jörðum sínum. Eftir stæðu þá grænar tóftir og fylkingar af tómum húsum til minningar um seinna hrunið.

Blikur eru á lofti vegna aðgerða stjórnvalda í svokallaðri endurreisn landsins. Verklagsreglur og ný lög sem nú voru sett fram um helgina gagnvart skuldsettustu heimilunum vekur upp áleitar spurningar um leiðir sem gætu bjargað heimilinum. Leiðin sem var valin lítur algjörlega framhjá möguleika á lágmarks framfærslu þeirra sem í svita síns erfiðis reyna nú að halda þjóðfélaginu gangandi. Aðferð sem hugsanlega gat hafa átt sér hugmyndalegar rætur í gömlu ráðstjórnunarríkjunum þar sem stöðnun einkenndi ástandið í heila öld og sem flestir flýðu sem gátu. Stjórnmálaafla sem vilja kenna sig við samstöðu, hreint land og fagurt.

Við höfum marga fjöruna sopið Íslendingar og marga hildina háð. Náttúruhamfarir, drepsóttir og landflutningar til vesturheima. Mannanna voðaverk eru þó sárust af þessu öllu. Allra síst þolum við ójöfnuð, manngreinarálit og þegar engu er að treysta. Þá fyrst fær fólk nóg og yfirgefur landið í stórum stíl um leið og íslensku heimilin tærast upp. Fyrir marga gætu jafnvel jólin í ár verið þau síðustu hér heima.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn