Þriðjudagur 28.12.2010 - 09:48 - FB ummæli ()

Nýi tíminn og sá gamli

skirtukraginnÁramót eru alltaf sérstök. Þá renna saman minningar af atburðum sem allir verða að horfast í augun við öðru hvoru, áföllum og sorgum. Ár sem hlýtur að hafa verið okkur öllum eftirminnilegt á einhvern hátt, og sem vekur upp væntingar þess sem koma skal og söknuð þess sem aldrei getur komið aftur. Áramótin er líka tími loforða um að gera betur. Tímamót uppgjörs og fyrirgefningar í ljósi eða skugga ástar og vonar. Það bólar þannig alltaf á vissri angurværð á nýársdeginum, jafnvel örvæntingu, að okkur takist ekki ætlunarverkið eins og mörg árin á undan.

Heimurinn hrundi líka einn góðan veðurdag eftir ný áramót sem voru árið 2008. Þrátt fyrir allar ræðurnar og góð fyrirheit sem þá voru gefin. Hrun væntinga sem náðu til skýja en stóðust auðvitað ekki áætlunina út árið um bjartari framtíð með blóm í haga og forsætisráðherrann varð að biðja Guð að blessa Ísland. Uppgjör sem síðan enn er óuppgert hjá þjóðinni og varðar hag flestra fjölskyldna í landinu. Tímamót sem kippti fótunum undan traustri velmegun og gildi góðrar menntunar þar sem sjálft háskólasamfélagið bar mestu ábyrgðina ásamt æðstu embættismönnum landsins. En við erum samt reynslunni ríkari og tökum nú þess vegna nýársloforðum stjórnmálamannanna með varúð.

Í hópíþróttum skiptast leikmenn alltaf í  lið sem síðan keppa sín á milli. Um leik er að ræða þar sem farið er eftir ákveðnum leikreglum. Ef reglur eru brotnar eru menn ávítaðir eða reknir útaf. Flestir fá fyrst áminningu nema brotið sé mjög alvarlegt. Flestir fá þannig að vera með í næsta leik og sem byggir á jafnræðisreglunni og hvað við erum fljót að fyrirgefa hvort öðru. Sumir skammast sín þó stundum fyrir frammistöðu sinna liðsmanna eða hátterni en sem breytist eins og hendi sé veifað í ofsafengið stolt í næsta leik. Ekki síst gilda þessar reglur þegar þjóðir heims keppa sín á milli. Þá er þjóðarstoltið að veði og heimatilbúnar leikreglur mega sín lítils. Að geta verið með sem þjóð meðal þjóða.

En er lífið sjálft er ekki alltaf leikur og allra síst kappleikur. Góður félagsskapur byggir á góðum og gildum liðsanda þar sem jafnræðið ríkir. Klíkuskapurinn og smákóngaveldið er það versta í okkar litla þjóðfélagi sem alið hefur á fyrirgreiðslupólitík þar sem leikreglurnar eru vísvitandi brotnar. Stjórnmálaflokkarnir hafa spilað á liðheildina undir formerkjum sem henta þeim hverju sinni. Treystum við nú aftur þessu sama fólki til að leiða pólitíkina í landinu? Landsbyggðarpólitíkina og stjórnmálamanna sem fyrst og fremst hafa unnið undir þrýstingi þrýstihópa sem vilja fá sínu framgengt og að dómarinn blási ekki í flautuna eða ætlast til að hann líti undan. Atvinnurekendur og eigendur stórfyrirtækja rísa enda upp frá dauðum sem aldrei fyrr eftir afnám einokunarverslunarinnar á Íslandi, frá bankahruni sem þeir sjálfir áttu stærstan þátt í að skapa. Stefnir ásýnd nýja lýðveldisins á Íslandi í að verða eins og í ævintýrinu um nýju föt keisarans forðum? Við hljótum því að fagna nýjum stjórnmálaflokki sem skerpir línurnar milli þess gamla og nýja, þess mögulega og ómögulega.

Kirkjan hefur líka alið á spillingu innan sinna eigin raða. Fordómar ríkja jafnvel milli trúfélaga, sem þó snertir það heilagasta meðal okkar flestra. Og undanfarið ár hafa verið spurðar margar áleitnar spurninga um siðferðisþrek þjóðkirkjunnar, kirkju sem þjóðin var tilbúin að fyrirgefa ef rétt hefði verið brugðist við í byrjun. Ljótum málum hafði verið stungið undir stól í áranna rás en fórnarlömbin þorðu að lokum að stíga fram á árinu og knýja fram réttlæti og hálfan sigur hjá þjóðinni. Hátt í 4000 einstaklingar hafa þess vegna flúið kirkjuna sína á síðasta ári. Kirkju sem brást illilega trausti sóknarbarna sinna. Framundan er mikið uppgjör sem leiðir hugsanlegan til aðskilnaðar ríkis og kirkju, þar sem þjóðkirkjan sjálf á ekki síðasta orðið, heldur þjóðin.

Hvað heilbrigðismálin varðar ber hæst fyrir utan dapurlegan niðurskurð til heilbrigðismála, stefnumörkun sem styrkja á heilsugæsluna í landinu. Heilsugæslu sem var vanrækt á höfuðborgarsæðinu og hefur orðið sumum öðrum heilbrigðisstéttum en læknum tilefni til sóknartækifæra á kostnað læknisþjónustunnar. Málefni öryrkja hefur líka verið til mikillar umræðu á árinu. Á tímum eins og við nú lifum þar sem hópuppsagnir fyrirtækja er daglegt brauð er sérstaklega mikilvægt að að vera á verði þannig að ekki sé verið að rugla saman félagslegum rétttindum vegna atvinnumissi og endurhæfingar- og örorkumati vegna heilsubrests til vinnu sem getur verið af ólíkum toga, ekki síst sálfræðilegum. Megin takmark læknisaðstoðar er lækningin sjálf og stuðningur en ekki endalaus vottorðaskrif fyrir þriðja aðila. Alls ekki má ekki sjúkdómsvæða félagsleg úræði þótt málaflokkurinn í heild heyri nú undir sameinað ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála. Heilsugæslan hefur mikið meira en nóg með sitt og þarf að styrkjast mikið ef hún á að geta tekið við auknum verkefnum. Fjölga þarf strax félagsráðgjöfum og sálfræðingum. Í sumum tilvikum verður að vera hægt að leita strax lögbundins réttar sjúklings á bótum sem ekki getur unnið. Það telst til mannréttinda að slíkur ferill gangi sem fljótast fyrir sig og sé ekki auðmýkjandi fyrir skjólstæðinginn.

Á næsta ári á síðan að hefja bólusetningar fyrir börn sem getur skipt heilsu barna meira máli en nokkuð annað sem við höfum upp á að bjóða í dag. Ef hægt væri að draga verulega úr tíðni alvarlegrar eyrnabólgu sem er algengasta bakteríusýking meðal barna og sem skýrir yfir helming af allri sýklalyfjanotkun þeirra væri miklum áfanga náð. Um leið og ef við förum að nota sýklalyfin af meiri skynsemi eins og alþjóðlegar leiðbeiningar gera ráð fyrir, gefst vonandi tækifæri að draga verulega úr þeirri ógn sem stafar af þróun sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvaldanna í þjóðfélaginu og sem er ein mesta heilbrigðisógnin í dag og þegar ekki tekst að meðhöndla alvarlegar sýkingar á öruggan hátt.

Eitt ár í lífi hvers manns er alltaf dýrmætt. Stjórnmálamennirnir reyna að mjaka málum áfram fyrir þjóðina þar sem hvert ár er dýrmætara en árið á undan og mikil eftirvænting ríkir um árangurinn. Hið raunverulega lýðræði hefur nú styrkst og allur málatilbúnaður gegnsærri. Gagnrýni sem hefði aldrei verið umborin fyrir hrun er nú hlustað á. Sumar breytingar til góðs hefðu aldrei átt sér stað í okkar þjóðfélagi ef ekki væri fyrir alla uppstokkunina. En það þurfti hrun til. Réttlætið hefur samt sigrað í bili, þó svo að það hafi verið dýru verði keypt.

E.t.v. ættum við þannig að skilgreina betur leik og alvöru í okkar þjóðfélagi. Höldum okkur við gömlu liðsskipanina í fótboltanum og öðrum íþróttagreinum og leikreglurnar sem þar eru við lýði en búum til nýtt þjóðfélag þar sem við stöndum öll saman í sama liðinu, hjálpum hvort öðru og nýtum hæfileika hvors annars sem best má vera. Við þurfum á því að halda. Þjóðfundir voru haldnir á árinu og búið er að skipa Stjórnlagaþing. Við fundum grunngildin og þjóðarsálin er smá saman að vakna betur til lífsins. Nú fyrst erum við e.t.v. tilbúin að búa til fyrirmyndar fjölmenningarlegt þekkingarþjóðfélag. Nú höfum við e.t.v. forskot á allar aðrar þjóðir vegna aðstæðna okkar og hreinsunareldsins sem hefur brunnið og brennur vonandi að lokum upp til agna. Minnumst þess elds á áramótabrennunni í ár. Síðan geta ný ævintýr orðið til.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn