Uppi á heiði var frosin jörð, aldrei þessu vant. Réttara sagt, rétt yfirborðið enda sökk maður stundum niður í drulluna sem undir lá. Ýmislegt minnir þó á að vorið ætti að vera á næsta leiti. Dagurinn er orðinn lengri og bjartari og eftirvæntingin að heyra fuglasöng og kvak vaknar. Ég er jafnvel farinn að sakna mávsins. Varginum þeim arna sem stóð vaktpóstana sína á nípunum og vaktaði svæði mófuglanna eins og sá sem valdið hafði. Einhvern efa sækir þó að manni að vorið komi eins og alltaf áður. Af hverju skildi maður annars vera farinn að hugsa um vorið með angurværð í brjósti í byrjun febrúar? Og eftir vetur sem hefur verið með eindæmum mildur og góður, veðurfarslega.
Veturinn er engu að síður búinn að vera með eindæmum harður í mannheimum. Reyndar stórviðrasamur og miklar hamfarir. Fjölskyldur komnar á hálfgerðan vergang og fólksflótti frá landinu sem fer að minna á fólksflutningana miklu eftir móðuharðindin forðum. Nú halda menn reyndar austur en ekki vestur með von um betri tíð og græna haga. Velferðarþjóðfélagið riðar til falls og fyrirséð með tvöfalt kerfi í framtíðinni. Þeir efnameiri geti þá keypt sig fram fyrir röðina. Skipulagsleysi og stjórnleysi er gefinn laus taumurinn, ekki síst í bæjarpólitíkinni sem nú er farið að púa á. Ábendingum um hagræðingu ekki tekið frá grasrótinni en skammtímasparnaður látinn ráða ferð þótt það kosti langtímaaukakostnað.
Heilbrigðismálin eru að molna og hvert þjónustustigið brotið niður á fætur öðru án þess að styrkja um leið grunnþjónustuna. Sjálfsagt má spara einhverjar krónur í ár með því móti. En vandinn hleðst þá upp og ef forvarnirnar vantar verða langtímaafleiðingarnar alvarlegri. Nærþjónusta eins virtasta sjúkrahús landsins var lagt niður í dag í Hafnarfirði, starfsemi St. Jósefsspítala sem þjónað hefur íbúunum í rúm áttatíu ár, betur en nokkur önnur stofnun í bænum. Ef það telst lúxus að geta lagst inn á sjúkrahús í nokkrar daga án þess að vera upp á aðstandendur kominn, að þá hafa Hafnfirðingar búið við meiri þægindi en aðrir. Lúxus sem samt ræður oft lífi frá dauða. Magaspeglunardeild á heimsmælikvarða sem þjónað hefur öllu höfuðborgarsvæðinu heyrir þá líka sögunni til.
Þjónustusamningur Læknavaktarinnar er í upplausn og öllum starfsmönnum hennar var sagt upp störfum frá og með deginum í dag. Það beið mín ábyrðarsending í pósthúsinu eftir vinnu sem ég vonaði eitt augnablik að væri síðkomin jólagjöf en sem var auðvitað tilkynning til mín um þessi tíðindi. Vakt sem tók við lögbundnum skyldum vaktþjónustu heilsugæslunnar eins og á landinu öllu er nú sett stóllinn fyrir dyrnar og sem gæti þurft að keppa á hinum frjálsa heilbrigðismarkað í tvöföldu heilbrigðiskerfi. Sem betur fer held ég vinnunni minni í heilsugæslunni enn um sinn. Og ennþá get ég tekið vaktir þar sem þeir sárþjáðustu koma, á Slysa- og bráðamóttöku Landspítalans. Þangað sem allir koma sem ekki eiga í nein önnur heilsuskjól að sækja. En hversu lengi veit maður ekki og á meðan bíð ég eftir næsta ábyrgðarpósti. Ef til vill ætti maður að fara að líta til austurhiminsins, þangað sem allir hinir horfa þessa daganna. Á meðan ekki er hlustað og ákvarðanir teknar af þeim sem ekki vita best verður vorið að bíða. Vorið sem annars er tákn vonarinnar og tákn um að bráðum komi betri tíð með blóm í haga. Eða kannski að vorið komi yfir höfuð ekki í ár og að sólin fari að rísa í vestri eins og sagði í skáldsögu Grétu Sigfúsdóttur um árið.