Þriðjudagur 01.02.2011 - 10:12 - FB ummæli ()

Hvað má heilsan kosta?

Þessa vikuna stendur Lýðheilsustöð í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og barnatannlækna fyrir tannverndarviku. Tilefnið er ærið enda tannheilsa barna hvergi verri á Norðurlöndunum. Tannglerungsskemmdir barna eru taldar miklar hér á landi meðal annars af mikilli neyslu kolsýrðra  og sætra drykkja. Rétt er að benda á frábært veggspjald til að átta sig á óhollustu drykkja sem við bjóðum börnum okkar.

Það virðist sama hvar komið er niður að þrátt fyrir hærri útgjöld til heilbrigðismála og mikinn lyfjakostnað að þá batnar heilsa almennings ekki, heldur á margan hátt versnar. Ofáti og of lítilli hreyfingu er m.a. um að kenna og offitan er orðin stórt heilbrigðisvandamál hér á landi eins og mikið hefur verið í fréttum í vetur. Afleiðingarnar sjáum við meira á næstu árum. Önnur ofneysla, mikil sýklalyfjanotkun barna á Íslandi hefur þegar alið af sér mikið sýklalyfjaónæmi og tíðari sýkingar í eyrum barna en þekkist á hinum Norðurlöndunum. Verkfræðikunnátta okkar Íslendinga og hyggjuvit virðist þannig að litlu gagni koma þegar byrgja þarf brunninn. Það hefur heldur ekki mátt kosta of mikla  peninga að klára uppbyggingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sinna á góðum forvörnum og ennþá síður til að tryggja góða vaktþjónustu hennar sem bjargar þó því sem bjargað verður. Það má hins vegar byggja minnisvarða hámenningar landsins sem á að vera stolt okkar allra um ókomnar aldir og auka hróður þjóðarinnar á erlendri grundu.

Meðan glerhjúpur Hörpinnar skín við sundin blá, óskabarn þjóðarinnar á krepputímum, skín ekki eins vel á tannglerung barnanna okkar. Karíus og Baktus byggja nefnilega sín hús með niðurrifi og skemmdum. En það þarf ekki mikla peninga til að koma hlutunum í lag, aðeins smá ögun, skipulag og tíma fyrir foreldra að vera með börnunum sínum. Meira af hreinu íslensku vatni og minna af kolsýru og sykri. Tannburstun kvölds og morgna. Tannheilsan er okkur öllum mikilvæg og leggur oft grunninn að almennt góðri heilsu, hvert sem litið er.

Það er löngu kominn tími til að við forgangsröðum forvörnum og heilbrigðisþjónustu barnanna okkar framar á óskalista þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn