Mánudagur 14.02.2011 - 12:34 - FB ummæli ()

Verðleikar læknismenntunar á Íslandi

DoctorinmaskTil umræðu hefur verið mikið vinnuálag lækna sem farið er að segja til sín með andlegri vanlíðan, kvíða og þunglyndi. Þetta kemur meðal annars fram í rannsókn sem gerð var á andlegri líðan lækna og vinnuumhverfi þeirra sem nýlega var kynnt. Nú er svo komið, sem lengi hefur verið spáð, að ekki fást lengur læknar til starfa á deildum þar sem vinnuálagið hefur verið hvað mest undanfarið vegna niðurskurðar. Nýfallinn félagsdómur staðfestir ennfremur afnám fyrrum réttindi unglækna til námsleyfis til að afla sér sérþekkingar og viðhaldsmenntunar erlendis og er síst til þess fallinn að styrkja stöðu lækna á Íslandi.

Umræðan hefur líka lengi litast af miklum misskilningi og sögusögnum um ofurlaun lækna. Sem betur fer er umræða um ofurlaun sjómanna liðin tíð, enda skilur almenningur  vel hvaða vinna liggur þar að baki og að langar fjarverur frá fjölskyldu og ástvinum tekur sinn toll. Eins og gengur eru launin samt mismunandi og sjálfsagt einhverjir sem teljast launaháir. Bak við slík laun liggur þá gríðarlega vinna, dag og nótt. Þeir eru nefnilega líka sjómenn sem sigla í lífsins ólgusjó.

Umræðan hefur sérstaklega litast af  miklu vinnuálagi á bráðamóttökum (sjá líka bloggið  „Vígvellirnir á Íslandi„) og undirmönnun lækna í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Bent hefur verið á að helmingur starfandi heimilislækna í dag muni hætta störfum fyrir aldurs sakir á næstu tíu árum. Atgerfisflótti er reyndar þegar brostinn á og áætlað er að um 10% lækna hafi hætt störfum hér á landi á síðustu 2 árum á sama tíma og læknar erlendis koma síður heim. Málið snýst einfaldlega um að léleg kjör, mikið vinnuálag og mikil ábyrgð fer illa saman og gengur ekki upp til lengdar. Nýlega var haft eftir formanni Lækanfélags Íslands, Birnu Jónsdóttur að læknaskorturinn væri stærsta vandamál heilbrigðiskerfisins í dag og að verulega bæri að hafa áhyggjur af atgerfisflótta íslenskra lækna, enda nóga vinnu fyrir þá að fá erlendis þar sem launin eru helmingi hærri. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands, Gunnar Ármannson benti fyrir tveimur árum síðan á þessa hættu og sem því miður er nú orðin raunin.

Mikið vinnuálag unglækna sem hafa reynt að setja fjölskyldugildin ofar launakjörum eru eftirtektarverð, ekki síst fyrir eldri lækna sem alla tíð hafa unnið meira en góðu hófi gegnir. En við hverju var að búast þegar menn komu seint inn á vinnumarkaðinn, jafnvel á miðjum aldri, með andvirði allt að hálfrar húseignar á bakinu í námslánum en eignalausir. Það er samt ekki hægt að reikna með að menn og konur með 12 ára háskólanám að baki séu tilbúnin að vinna ábyrgðarmikið starf þar sem mannlífin eru jafnvel í húfi, fyrir 2000 kr á tímann  í yfirvinnu eftir skatta, á kvöldin, um helgar og á nóttunni. Ekki heldur fulla dagvinnu fyrir rúmlega 300.000 króna mánaðarlaun eins og byrjunalaun unglækna eru í dag. Ábyrgðin og álagið er einfaldlega of mikið til að það sé þess virði og sennilega skárra að gera eitthvað allt annað. Það eina sem kemur í veg fyrir þá ákvörðun er áhuginn á starfinu, ef hann er þá ekki þegar kulnaður, og sem gefur allt annað í aðra hönd en laun. Til að átta sig betur á launum lækna bendi ég á pistil minn um daginn, „Beyglan mín og 2000 slasaðir“ þar sem grínlaust er fjallað um yfirvinnulaun sérfræðilæknis með 30 ára starfsreynslu.

Brýnt er einnig að laga vaktakerfi unglækna af fjölskyldusjónarmiðum eins og hjá öðrum launþegum landsins og eins og þeir hafa barist fyrir að fá. Lámarkið er að vinnuálagið stangist ekki á við alþjóðleg vinnuverndarsjónarmið. Á tímum sem ekki má ræða neinar launahækkanir mætti huga að öðrum sanngjörnum kjarabótum eins og námslánaafslætti, enda greiða unglæknar oft hundruð þúsunda króna af launum sínum til baka í afborganir af lánunum á hverju ári. Ekki síður að tryggja áður áunnin kjararéttindi þeirra til námsleyfis og viðhaldsmenntunar eins og var í kjarasamningi þeirra til 2008 þegar leyfið, einhverja hluta vegna, var skilyrt við vísindarannsóknir og áhugasvið atvinnurekandans. Eins vinnuaðstöðu unglækna og reyndar lækna almennt sem víða er ekki upp á marga fiska. Sem dæmi þurfa þeir oft að sæta lagi við að komast í tölvur til að ganga frá skráningu á vinnu sinni, jafnvel eftir að vinnutíma þeirra eða vöktum er lokið, ólaunað.

Löngu er tímabært að landsmenn og ekki síst höfuðborgarbúar spyrji sig hvaða læknaþjónustu þeir vilja í framtíðinni og hvort þeir séu tilbúnir að hlúa að þeirri þjónustu sem þegar hefur verið byggð upp? Áður hef ég gert grein fyrir sameiginlegri ábyrgð heilbrigðisstétta, ekki síst á viðkvæmum tímum, og að þær þurfi að standa saman og styðja hvor aðra í stað þess að líta á ástandið sem sérstakt sóknartækifæri fyrir sig og sína. Stjórnvöld verða að tryggja unglæknum bestu kjör sem völ er á í stað þess að ganga endalaust á velvild þeirra og tryggja þannig að þeir vilji starfa hérlendis. Málið sem almenningur verður að gera sér grein fyrir er hvernig heilbrigðisþjónustu við ætlumst til að fá þegar mest á reynir. Grunnheilsugæslu og bráðaþjónustu þar á meðal. Stjórnvöld hljóta nú að þurfa að spyrja sig hvort læknisþjónustan eigi að vera áfram partur af velferðarþjónustunni hér á landi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn