Miðvikudagur 16.02.2011 - 08:05 - FB ummæli ()

Arðvænlegar vísindarannsóknir!

Fyrir rúmlega 10 árum síðan sótti ég og félagar mínir um styrk í Rannsóknarsjóð Íslands (RANNÍS) (áður Rannsóknarráð Íslands-Vísindasjóður) og sem sætti sjálfur rannsókn nýlega sem stofnun vegna gruns um hlutdrægni í úthlutunum. Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við úthlutanir á styrkjunum og mælist nú til þess að sjóðurinn fái erlenda aðila til að sitja í fagráðum sem ákveða hvert styrkirnir fara í framtíðinni, fyrst og fremst til að koma í veg fyrir hlutdrægni. Ríkisendurskoðun telur samt ekki tilefni til að gera stjórnsýsluúttekt á Rannsóknasjóði af þessu tilefni (þessi síðasta setning er viðbót við fyrri færslu vegna athugsemda hér að neðan).

Sjálfur undraðist ég á sínum tíma að fá ekki styrk þar sem umsóknin sjálf fékk hæstu einkunn og eins vegna þess að ég og félagar mínir höfðum sótt um styrk áður fyrir sama verkefni og sem var komið vel á veg. Það sem réð úrslitum var að niðurstöðurnar voru ekki líklegar til að sýna fram á arðsemi, eða svo mátti skilja á innihaldi bréfsins sem mér var sent þegar ákvörðunin var kynnt. Þannig virtust að minnsta kosti mörg önnur verkefni vera arðvænlegri en okkar á þeim tíma. Og ekki þýddi að deila við dómarann í þá daga. Ég efaðist þó aldrei um arðsemina af okkar verkefni, sérstaklega þegar til lengri tíma yrði litið. Maður spurði sig samt um mælikvarðann sem að baki lá og gerir enn. Hvort vísindin eigi að vera skilgreind á mælikvarða arðseminnar og eins hvaða hagsmuni og hverja er þá verið að gæta?

Á síðasta stigi rannsóknar minnar og félaga sóttum við ekki í sjóðinn vegna brostinna forsenda í úthlutunarreglum. Og stjórnvöld sáu heldur ekki ástæðu til að styrkja rannsóknina. Það gerðu hins vegar félagar okkar og vísindasjóður Félags íslenskra heimilislækna auk síðar Rannsóknasjóður Landspítala og Vísindasjóður Háskóla Íslands. En hver var þá þessi rannsókn sem RANNÍS og stjórnvöld sáu ekki ástæðu til að styrkja. Jú, rannsóknin var á vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu meinvalda að sýkingum barna á Íslandi og notkun sýklalyfja í þjóðfélaginu. Rannsókn sem náði til um 2.400 barna á 4-5 stöðum á landinu í þremur áföngum á árunum 1992-2003 og sýklalyfjasölu apótekanna á sama tíma. Rannsókn sem síðar varð undirstaða doktorsverkefnis míns og fjölda greina í erlend læknatímarit. Rannsóknir sem mikið er vitnað til erlendis frá m.a. til að reyna að ná tökum á heilbrigðisógn sem Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur skilgreint sem eina af mestu heilbrigðisógnum framtíðar. Vandamál sem er verra og nærtækara hér á landi en í nágranalöndunum. Vandamál sem snertir heilsu barna og reyndar allra á Íslandi í dag. Vandamál sem eykur gríðarlega heilbrigðiskostnað í þjóðfélaginu ef ekki verður brugðist betur við en gert hefur verið á síðustu árum. Vandamál sem kallar eftir útbreiddri bólusetningarherferð meðal ungbarna gegn miðeyrnabólgu, sem viðleitni í að höndla vandamálið betur og sem rannsóknaniðurstöður gæðaþróunarverkefnis heilsugæslunnar benda til að þurfi að gera á næstu árum.

Rannsóknir í faraldsfræði ýmissa vandamála í heilsugæslunni er nefnilega oft liður í gæðaþróun, m.a. til skynsamlegri notkunar á úrræðum í heilbrigðiskerfinu og til bættrar lýðheilsu. Þetta á ekki síst við um notkun lyfja og sýklalyf gefa ákjósanlegt tækifæri á að mæla orsakir og afleiðingar óskynsamlegrar notkunar lyfja. Þær hafa því miður samt ekki verið settar á sama „stall“ og ýmsar aðrar rannsóknir í lífvísindum sem sigra áttu heiminn, meðal annars að gefa af sér ný og fullkomin lyf. Hagsmunahóparnir eru þarna líka ólíkir, almenningur annars vegar og atvinnufyrirtækin hins vegar. Stundum fer þetta ágætlega saman, ekki alltaf. Ef til vill er von að erlendir aðilar komi okkur nú til hjálpar og bendi stjórnvöldum á Íslandi á mikilvægustu rannsóknirnar. Oft er gleggra gestsaugað. Því áliti erlendra fagaðila fagna ég fyrst okkur er ekki treystandi að sjá um þessi mál sjálf. Því horfi ég með bjartari augum til rannsókna, m.a. í heilsugæslunni í framtíðinni og hver veit nema einhver í stjórnsýslunni hvetji til og kosti rannsóknir sem hafa sýnt sig vera þjóðhagslegar arðvænlegar!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn