Í vikunni var greint á mbl.is frá fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur til velferðarráðherra, Guðbjartar Hannessonar, um hvað margir heimilislæknar starfi á landinu, í hversu mörgum stöðugildum og hvað vanti marga lækna til að fylla í stöðugildin? Fyrirspurnin var ágæt og svaraði hann því þannig til að miðað við laus stöðugildi vanti 26 heimilislækna. En ef til vill hefði mátt spyrja hversu marga heimilislækna vantar á sjálft höfuðborgarsvæðið miðað við norræna staðla. Þá hefði svarið verið væntanlega allt annað.
Svarið er samt fljótreiknað miðað við að einn læknir ætti ekki að þurfa að sinna fleiri en 1400-1500 einstaklingum eins og t.d. í Noregi og Danmörku. Fjörtíuogfimm heimilislækna vantar þá á höfuðborgarsvæðið eitt og sér. Á næstu 10 árum er síðan reiknað með að um helmingur nústarfandi heimilislækna, sem í dag eru 90, hætti störfum vegna aldurs. Ástandið er þannig mjög alvarlegt á höfuðborgarsvæðinu og spurning hvernig grunnheilsugæslan þar muni þróast í náinni framtíð. Í dag eru þegar 8 laus stöðugildi sem ekki fæst ráðið í vegna skorts á sérmenntuðum heimilislæknum.
Á landinu öllu starfa um 220 heimilislæknar og 27 stöðugildi eru laus eins og kom fram í svari ráðherrans. Miðað við áðurnefnd viðmið um 1400-1500 einstaklinga á hvern heimilislækni er skorturinn ekki eins áþreyfanlegur á landsvísu. Höfuðborgarsvæðið blæðir hins vegar og gríðarlegt álag á vaktþjónustuna er skiljanlegt. Hún reynir þó að brúa bilið þar til klárað verður að byggja upp heilsugæsluþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og við getum farið að vinna að greiningu og meðferð algengustu sjúkdómanna, hjá börnum og fullorðnum, eins og alþjóðlegir staðlar og klínískar leiðbeiningar gera ráð fyrir.