Barátta árstíðanna stendur nú yfir og í gær lá vorið í loftinu, og andvarinn bæði kaldur og hlýr í senn. Klakaböndin slitnuðu í móunum á heiðinni minni og margir lækir urðu til, þar þeir undir öðrum kringumstæðum áttu alls ekki heima. Drulluslettur komu á buxnaskálmarnar sem eru kunnuglegar frá því gamla daga, þegar maður var lítill drengur og kunni að leika sér. Þegar maður kunni best við lyktina af sjálfri móður jörðu, moldinni.
Loftið var rakamettað og í sterkri kvöldsólinni, rétt fyrir kvöldmat, urðu til margir og fjölbreyttir sólstafir sem lýstu upp hin ýmsu hverfi í höfuðborginni í vestri og sundin blá. Úlfarsfellið hefur sjaldan verið tignarlegra, eins og alvöru fjall á Vestfjörðum sem er að losna úr jöklaböndum. Allt merki breytinga og horfinna tíma þegar aðrir réðu ríkjum í borginni og í landsmálunum. Þrettán hrafnar sveimuðu yfir og finna mátti að sérstakir straumar láu í loftinu. Stemmning sem var samt eins og allsherjar vítamínsprauta fyrir mig eftir erfiðan vinnudag og ég endurnærðist eftir aðeins hálftíma göngu. Skynjaði hlutina aðeins örðu vísi en áður og þá var tilganginum náð. Ganga mín var allt sem til þurfti og hlaupin, sundið eða ég tala ekki um hjólreiðarnar gátu vel beðið betri tíma.
Umræðan sl. daga, vikur, mánuði og ár hafa einkennst af brestum sem í byrjun maður vonaði að væri aðeins yfirborðsbrestir og að ólgan undir myndi hjaðna með upplýstrari umræðu. Eða brestir eins og við sjáum nú þegar klakaböndin losna og springa. Samt erum við á sama tíma minnt rækilega á hvað móðir náttúra getur verið grimm þegar hún brestur og þá tekur eins og hún gefur og sem sýndi sig best þegar jarðskjálftinn mikli varð í Japan og flóðbylgjan ógurlega skall yfir landið í kjölfarið. Þegar jörðin brást íbúunum og blikur eru á lofti að eitt mesta iðnveldi heims geti hrunið eins og spilaborg. Ekki síst ef kjarnorkan, mannanna verk sem átti að skáka við sjálfri náttúrunni, leysist óbeisluð úr læðingi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hrikanlegar hamfarir sem sýna best hvað skammt er á milli hláturs og gráturs í nútíma samfélagi og í samfélagi meðal samfélaganna.
En við getum líka litið sjálfum okkur nær þar sem okkar eigið efnahagskerfi og undur stendur á brauðfótum, enda á mörgum sviðum byggt á sandi. Þar eru ekki minni leysingar þessa daganna og óánægja og pirringur litar alla umræðu. Óþolinmæði að sjá ekki allar sprungur hverfa af yfirborði jarðar og allt verða sem áður. Þegar fjölmiðlamenn mata okkur af því sem þeim finnst henta hverju sinni og glápa á smásprungur dagsins en sjá ekki heildarmyndina. Enn síður að þeir velti fyrir sér hvað sé að gerast undir niðri eins og góðum rannsóknafréttamönnum sæmir, óháðum og frjálsum.
Það má því með sanni segja að við lifum á tímum hamfara, ekki bara hvað náttúruna snertir heldur líka í mannheimum. Þetta sjáum við öll sjálf og þarf ekki fréttamenn til. Við hljótum að þurfa að fara að hugsa dæmið upp á nýtt. Endalausar skyndilausnir duga skammt og jafnvel gagnrýni Lilju Mósesdóttur á Bylgjunni í morgun á ekki við þar sem hún gagnrýnir að við beitum bara smáskammtalækningum, þar sem við þvert á móti stundum allt of miklar stórskammtalækningar, eins og allar tölur bera með sér. Þar kannski liggur hundurinn grafinn. En það er von, og dagur eins og hann var í gær og hrafnarnir 13 á hrafnaþinginu gefi fyrirheit um breytingar sem vonandi eru ekki bara slæmar.