Í upphafi skyldi endinn skoða er máltæki sem á vel við í dag á degi mottumarsins. Tilefnið að pistli mínum nú er samt annar af gefnu tilefni og snýr að öðrum endum í heilbrigðiskerfinu.
Upplýsingar koma fram um mikla lyfjanotkun meðal gamla fólksins á hjúkrunarheimilunum í grein Önnu Birnu Jónsdóttur í Fréttablaðinu í dag sem rétt er að velta fyrir sér nánar. Hvergi koma þó beinar afleiðingar mikillar lyfjanotkunar í þjóðfélaginu á lýðheilsuna betur í ljós og í mikilli sýklalyfjanotkun barna sem ég hef oft fjallað um áður og sagt er frá í nýjasta hefti Neytendablaðsins. Vandamál á hinum enda lífsins, upphafinu. Lýðheilsumál sem hefur mikil áhrif á framtíð okkar allra og líka gamla fólksins.
Gamla fólkið með öll sín lyf, lifir því miður oft í skugga sorgar og umkomuleysis eins og kemur vel fram í greininni hjá Önnu. Álag á aðstandendur er líka oft á tíðum mjög mikið. Ástand sem því miður er allt of oft leyst með lyfjum í stað umhyggju og betri aðbúnaði. Geðlyf eru oft notuð sem „gleðipillur“ og með þeim er hægt að halda gamla fólkinu sofandi á nóttunni og rólegu á daginn. Þannig er líka hægt að halda fjölda starfsfólks í umönnunarstörfum í lágmarki sem auk þess hefur ekki legið á lausu hingað til, vegna lítillar starfsvirðingar hjá því opinbera og lakra kjara. Þörf á raunverulegri lífsfyllingu í lok lífsins er því miður ekki leyst en gripið til skyndiúrræða. Og hverjum er um að kenna? Auðvitað okkur öllum og ekki síður lyfjaiðnaðinum sem gengur á lagið og gert sitt ýtrasta til að markaðssetja lyfin sín fyrir sem flesta.
Ábyrgðin er þó ekki síst stjórnvalda sem leggja eiga línurnar í heilbrigðiskerfinu. Þar getum við reyndar haft áhrif á í næstu kosningum, en því miður ekki söguna meir. Öllum er hollt að líta til nágranalandanna og sjá hvaða áherslu þau leggja á. Þau vilja fyrst og fremst styðja við mannlega reisn með samhjálp í huga fyrir alla aldurshópa, öryrkja og gamla fólkið. Lyfin sem lausn við vandamálum sem aðeins er gripið til þegar mannlegar lausnir duga ekki til. Og það er reyndar sama hvar borið er niður í neyslu í hinum ýmsu lyfjaflokkum, við berum við höfuð og herðar yfir grannþjóðir okkar. Staðreyndir sem vekja upp áleitnar spurningar.
Hvernig væri nú að grennslast fyrir um rót vandans í alvöru í stað þess að yppa alltaf öxlum eins og við höfum gert sl. áratugi. Ég sting upp á að í upphafi skyldi hinn endann skoða þ.e. á byrjuninni í skipulagi á heilsugæslu veikra barna. Ótrúlega mörg svör finnast þar sem endurspegla grunnfeila í hugsun á skipulagi heilbrigðismála auk sambandsleysis heilbrigðisyfirvalda við grasrótina, þ.e. sjálfa heilsugæsluna.