Laugardagur 23.04.2011 - 17:34 - FB ummæli ()

Stórir Íslendingar

Eftir allan bölmóðinn sl. vikur er kominn tími til að líta upp á við. Rifja upp staðreyndir sem við Íslendingar getum að minnsta kosti verið stoltir af, hvað sem síðar verður. Stærilæti hefur reyndar verið okkar veikasti hlekkur hingað til og örlítið meira lítillæti það sem mest hefur á vantað. Reyndar erum við hníptir í dag, en höfum vonandi lært okkar leksíu. Nokkuð sem gerir okkur betur í stakk búin að takast á við framtíðina. Það er líka alltaf gott að vera ekki það stór að maður sjái ekki niður á tærnar á sér og hrasi jafnvel við minnstu misfellu. En í stórbrotnu landi verða alltaf til stórbrotnir einstaklingar, á því er enginn vafi.

Í vikunni var viðtal við stærsta Íslendinginn, Pétur Karl Guðmundsson körfuboltakappa í morgunútvarpi Rásar 2. Maður sem skóp sér frægð og frama í Bandaríkjunum á níunda áratugnum þegar hann spilaði með einu besta körfuboltaliði veraldar og var síðan valin leikmaður aldarinnar á Íslandi. Hann sagði frá veru sinni erlendis og hvernig hann hefur hjálpað stórum strákum að nýta hæð sína sem best í körfuboltanum. Mikilvæg kennsla til að stórir strákar kæmust lengra í íþrótt sinni og hvað hægt væri að gera til að fyrirbyggja óþarfa meiðsl í löngum líkama. Stórhuga maður sem meðal annars ætlar að koma heim til Frónar á næstunni og kenna okkar stóru strákum listina góðu, að líta upp á við og spila góðan körfubolta.

Íslenska þjóðin er samt afskaplega lítil þjóð, reyndar örþjóð og sem algjör dvergur í samanburði við flestar aðrar þjóðir. En stærð þjóðarinnar skiptir ekki öllu máli heldur stærð einstaklinganna sem hana skapar. Eða ættum við ekki frekar að segja stærð þeirra í andanum. Að minnsta kosti höfum við Íslendingar alltaf getað unnið okkur ýmislegt til frægðar, jafnvel verið fréttaefni heimsfjölmiðla dögum saman. Bæði slæmar fréttir og góðar.

En það voru þó til enn stærri Íslendingar, sönn tröll sem flæmdu ábúendur úr dalnum sínum eins og segir í sögu Lofts Guðmundssonar, Síðasta bænum í dalnum (1950) og Óskar Gíslason leikstýrði. Ein fyrsta kvikmyndin sem ég sá í Tjarnarbíói rúmum áratug eftir frumsýninguna. Ein fyrsta íslenska kvikmyndin með sérsamdri kvikmyndatónlist fyrir söguna þar sem höfundurinn var Jórunn Viðar, tónskáld. Tónlist sem þá spilaði miklu stærra hlutverk í kvikmyndum en hún gerir í dag, ekki síst í þessari mynd fyrir ungan dreng með lítið hjarta og sem trúði á tröll.

Mynd annars um baráttu við ágengustu öflin í þjóðsögunum okkar, þar sem stærðin skipti ekki mestu máli þegar upp var staðið heldur hjartalagið hjá okkur mönnunum. Og hvort sem við trúum á íslensk tröll eða önnur tröll í víðari skilningi eða bara spilum körfuboltaleik á heimsmælikvarða, að þá er það hugafarið sem skiptir líka miklu máli. Að vera nógu stórhuga. Bara samt að vissu marki svo við verðum ekki sjáf að tröllum. Gleðilega páska.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn