Í yfir 80 ár hafa Reykvíkingar eins og aðrir getað treyst á heimavitjun læknis þegar mikið liggur við vegna veikinda. Nú bregður hins vegar svo við að ákveðið hefur verið að leggja þessa þjónustu niður á nóttunni, frá og með næstu mánaðarmótum. Ekki er lengur vilji stjórnvalda að semja við Læknavaktina ehf. um þessa þjónustu og sem sinnt hefur móttöku- og vitjanaþjónustu heimilislækna á kvöldin og um helgar í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði sl. áratugi. Þjónustan verður þannig skörinni lægri á mest öllu höfuðborgarsvæðinu miðað við landsbyggðina sem áfram tryggir aðgengi að grunnþjónustu heimilislækna eins og annarri öryggisþjónustu allan sólarhringinn.
Mikill sparnaður hefur verið fyrir ríkið á undanförnum árum af samningi sínum við Læknavaktina sem sinnir hátt í hundrað þúsundum erindum sjúklinga sem leitað hafa eftir læknisþjónustu á kvöldin, á nóttunni og um helgar og sem leyst hefur getað úr vandamálunum án tilvísunar á hátæknisjúkrahús í lang flestum tilvikum. Samsvarandi fyrirkomulagi og er úti á landi, hefði annars hver heilsugæslustöð í Reykjavík og nágrenni þurft að sinna sinni eigin vakt með ærnum tilkostnaði allan sólarhringinn. Því var mikil hagræðing að semja um vaktþjónustuna við heimilislæknana sjálfa.
Maður spyr sig auðvitað í dag um sameiginlega ábyrgð stjórnsýslunnar og hvort kerfin tali virkilega ekki saman, heilbrigðisyfirvöld og bæjaryfirvöld í Reykjavík og nágranasveitafélögunum. Ekki síður lögregluyfirvöld sem hingað til hafa treyst á góða samvinnu við heilbrigðiskerfið. Það getur nefnilega haft afdrifaríkar afleiðingar að klippa á hlekk í öryggiskeðjunni og verst þegar lögreglan sjálf á þar hlut að máli.
Nýlegt og afdrífaríkt dæmi er fyrir rúmlega ári síðan þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sniðgekk eldri verklagsreglur og samninga við heimilislækna um læknisvottorð, blóðprufutökur og hæfnismats vegna gruns um áfengis- og fíkniefnaneyslu við akstur eða í öðrum sakamálum og kaus þess í staðinn að semja við einkafyrirtæki úti í bæ. Þjónustu sem heimilislæknar Læknavaktarinnar ehf. í opinberri þjónustu höfðu sinnt vel um áraraðir eins og allir aðrir heimilis- og héraðslæknar í sveitum landsins. Einn liður í öryggiskeðjunni og m.a. grundvöllur að geta haldið úti vaktbíl með bílstjóra á nóttunni í Reykjavík, ekki síst um helgar.
Vaktþjónustan verður með öllu aflögð á nóttunni frá og með næstu mánaðarmótum og sjúklingum þá bent á að leita beint á Slysa- og bráðamóttöku Landsspítla eftir hjálp. Þjónustu sem halda hefði mátt saman þar sem hún á heima og semja um eins og aðra þjónustu Læknavaktarinnar hingað til. Það er pínlegt þegar heilbrigðisyfirvöld sjá ekki heildarmyndina og að grunnheilsugæsla á við allan sólarhringinn, ekki bara 2/3 hluta hans. Símsvörun hjúkrunarfræðings á nóttunni leysir ekki vandann.
Má maður biðja um örlítið meira innsæi og visku. Það verður nefnilega ekki bæði sleppt og haldið, nokkuð sem stjórnvöld sem bera ábyrgð á velferðar- og öryggismálum verða að átta sig á. Þar sem kerfin eiga ekki eingöngu að tala saman, heldur líka að vinna saman og hlúa að öryggi íbúanna á öllum sviðum. Á meðan er vaktlækninum sleppt heim á kvöldin til að sofa vært yfir nóttina í henni Reykjavík.