Umræða um heilsu er ofarlega á baugi eins og vera ber, en oft á mismunandi forsendum þó. Heyrum við ekki það sem sagt er, eða hlustum við ekki á það sem fólki býr í brjósti? Oft litast umræðan nefnilega af allt öðru en að tryggja fólkinu sem í landinu búa bestu mögulegu heilsu sem völ er á og sem skilgreind er í lögum. Umræða sem litast oft af hagsmunum fárra og eins nýtilkominnar tortryggni almennings í garð þjónustu sem allir hafa talið sjálfsagða hingað til. Skyldi engan furða enda þjónustan oft tvíbent og mismunandi eftir hvar við búum eða jafnvel hvað við erum gömul. Það sem þykir sjálfsögð þjónusta á einum stað fæst jafnvel ekki á öðrum. Stjórnvöld hnykkja líka á vandanum og segja ekki skipta mál hvar þjónustan er veitt, af hverjum og enn síður á hvaða tíma sólarhringins.
Síðastliðin ár hefur ekki verið mikið rætt um mikilvægi heilsugæslunnar í íslenska heilbrigðiskerfinu né vaktþjónustunnar, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Umræðan hefur verið mest um nauðsyn þess að byggja nýtt hátæknisjúkrahús, á sama tíma og spítalarnir eru að tæmast af hæfasta starfsfólkinu. Mismunandi rekstrarform og einkavæðing hefur líka verið ofar í umræðunni en gæðin. Umræða um grunngildi góðrar heilusgæslu meðal þjóðar og hlutverk í heildarmyndinni virðist líka mörgum gleymd. Ef til vill vegna þess að við þóttumst hafa það svo gott og gátum sótt þjónustu þangað sem okkur hentaði hverju sinni, óháð kostnaði og langtímaafleiðingum fyrir þjóðfélagið.
Jafnvel upplýsingar um nauðsynlegar bólusetningar fyrir ungbörn í okkar litla landi er ábótavant og börnum og foreldrum er mismunað. Tortryggni eykst og í ungbarnaheilsuverndina eru komnir brestir enda starfsfólið ekki virkjað til upplýstrar umræðu og fræðslu. Þátttaka ungbarna í bólusetningum eins og gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR) er ábótavant og ekkert samráð var haft við starfsfólk heilsugæslunnar þegar ný bólusetning gegn pneumókokkum var ákveðin. Afleiðingarnar eru þekkingarleysi og síðan lélegra hjarðónæmi en efni standa til og sem stefnt getur heilsu ungbarna á Íslandi í hættu eins og kom fram í viðtali við sóttvarnarlækni í gærkveldi. Ekki síður þegar ekki eru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir samhliða til að nýta þann árangur sem má vænta af bólusetningum og skiptir miklu máli varðandi framahald á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi sýkingar barna í heilsugæslunni. Vantrú vissra einstaklinga og hópa gegn bólusetningum ungbarna hér á landi á reyndar líka rætur að rekja til skoðana öfgahópa erlendis. Orðið hafa til furðusögur og samsæriskenningar vegna hagnaðs lyfjafyrirtækja fengið byr undir vængi. Það er alvarlegt þegar auðtrúa einstaklingar og foreldrar grípa slíkar sögur á lofti og láta þær síðan ráða ferðinni fyrir sig og börnin sín. Þá gleymir fólk að líta til sögunnar, m.a. hér á landi og ég hef rætt áður í sambandi við mikilvægi bólusetninga og hrun meðal þjóðarinnar vegna smitsjúkdóma á öldum áður.
Helmingur af verkefnum Slysa- og bráðamóttöku á heima á heimilislæknavöktum, eins og úti á landi og í öllum öðrum löndum, ekki á hátæknisjúkrahúsi. Með því að heimilislæknirinn sinni þessum erindum „á heimavettvangi“ er oft hægt að fækka óþarfa innlögnum “Hátæknisjúkrahúsið í Reykjavík” sem og mörgum óþarfa afleiddum rannsóknum sem þar eru gerðar. Lengi hefur verið lögð allt of mikil áhersla á „hátæknina“ í stað “lágtæknina” þar sem áherslan er ekki síður lögð á samspil sálar og líkama. Styðja ætti við ódýrari “lágtæknisjúkrahús” eins og St. Jósefspítala í Hafnarfirði sem sinnt geta betur minna veiku fólki og gamla fólkinu sem ekki fær hvort sem er pláss á sjúkrahúsunum, allra síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu þar sem engin minni sveitasjúkrahús eru til staðar. Eins er auðvitað mikið mikilvægara að tryggja mannauðinn og traust starfsfólk í landinu en byggja stórar og kostnaðarsamar byggingar til notkunar í fjarlægri framtíð. Við höfum byggt nóg af slíkum byggingum úr steypu og gleri í bili.
Efla þarf heilsugæsluna með Grettistaki til að hún geti tekið við nýjum og krefjandi verkefnum á næstu árum. Verkefnin sem lengi hafa verið skilgreind hjá Félagi íslenskra heimilislækna (FÍH), meðal annars í stöðlum félagsins um starfshætti og aðstöðu og sem eru endurnýjaðir nýlega og voru gefnir út í bókaformi 2008 ásamt marklýsingu fyrir sérfræðinám í heimilislækningum á Íslandi. Í dag er hins vegar víða skortur á heimilislæknisþjónustu ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Sennilega vantar upp undir 50 lækna bara þar, og um 7 lækna þarf til starfa á ári, næstu árin til að halda í horfinu en upp undir helmingur heimilislækna sem starfa í dag munu láta af störfum vegna aldurs á komandi áratug.
Þörfin er því aldrei meiri en einmitt nú. Ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu fer samt því miður dvínandi og þjóðin fitnar sem aldrei fyrr. Nálgun tengt sjúkdómseinkennum og tilefnum hverju sinni hefur aldrei gefið heilsugæslunni jafn gott tækifæri til að sanna sig, ef eðlilega hefði verið að henni búið. M.a. til að vekja upp áhuga hjá einstaklingunum sjálfum á mikilvægi breyttra lífshátta. Á tímum sem flestir okkar sjúkdóma er af okkar eigin völdum. Rútínu skoðanir og blind skimun sem nú er svo vinsæl hjá fyrirtækjum út í bæ getur aldrei komið í stað einstaklingsmiðaðrar forvarna í heilsugælsunni. Þar sem vandi hvers um sig á heima og er metinn í þverfaglegu samhengi, af ýmsum tilefnum hjá einstaklingnum með sjúkasöguna og félagsstöðuna að leiðarljósi.
Umræða um rekstarform ræðst oft meira að fjárhagslegri hagræðingu til skamms tíma þegar ekki er til nóg af peningum en gæðum til lengri tíma. Jafnvel gróðrasjónarmið í atvinnuskapandi umhverfi eftir lögmálum framboðs og eftirspurnar er látið ráða ferðinni. Langtímasjónarmið hvað varðar heilsu þjóðarinnar verður útundan meðan alþingsmenn karpa um laun sín og kjör og endalausar fjárhagslegar lausnir á öllum vandamálum. Jafnvel þar sem lausnin er fyrst og fremst faglegs eðlis og sem getur sparað mikið þegar til lengri tíma er litið. Umræða sem samt má sín lítils.
Ferðatengd heilsuþjónusta og heilsuiðnaður er nú líka mikið til umræðu sem einhverskona bjargvættur fyrir heilbrigðiskerfið en sem á ekkert skilt við heilsumarkmið þjóðarinnar, enda sjúklingar aldrei hráefni. Enn síður á tímum sem íslenska heilbrigðiskerfinu blæðir og skortur er á hæfu starfsfólki til starfa. Í grunnheilsugæslunni, í sérfræðimóttöku sérfræðinga á stofum og á göngudeildum og í sjálfri spítalaþjónustunni. Kerfi sem eiga að vinna saman og vera fyrst og fremst á forsendum ríkisins með hag almennings að leiðarljósi, ekki einhverra annarra í bissness. Heilsan okkar er einfaldlega ekki markaðsvara sem genga á kaupum og sölu. Ekkert frekar en mannsal. Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar beið skipsbrot hér á landi eins og allir vita og þau gildi sem hún stóð fyrir hrundu eins og spil í spilaborg. Eftir sitja draugar fortíðar og viðskiptalíf sem því miður þrífst ennþá á þessari hugmyndafræði, þótt gildin sjálf séu löngu fallin. Þau verðgildi eiga að minnsta kosti ekki heima sem stærsta viðfang velferðarráðuneytisins.
Á annan og betri hátt höfum við skipulagt aðra nauðsynlega opinbera þjónustu sem allir telja nauðsynlega svo sem starfsemi lögreglunnar og dómskerfisins. Opinberir aðilar sem grípa inn í þegar illa fer í samskiptum okkar á milli. En af hverju ekki líka þegar um sjálf okkur er að ræða. Okkar helgasta vé, sjálfan líkamann, sálina og allt þar á milli. Á sama tíma og aðrir embættismenn sverja þess eið að þjóna fyrst og fremst hagsmunum almennings, ætti heilbrigðisstarfsfólk sem eingöngu sinnir nauðsynlegri þjónustu við veika og slasaða að vera umbunað af verðleikum, sem vörsluaðilar mannauðsins. Ekkert síður en vörsluaðilar fjársýslu ríkisins og ríkisbankanna eru vel launaðir. Aðilar sem bera mikla ábyrgð frá vöggu til grafar, gefa góð og holl ráð og reyna að tryggja að sem flestir eigi sem lengsta starfsævi, þjóðinni til mikillar hagsbótar.
Heilbrigðisyfirvöld verða að fara að skilja nýja hugsun og nýja nálgun á vandamálunum í íslenska kerfinu. Nýja heildarsýn á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar þar sem forgangsmál á að vera að tryggja mannauð í stað steinsteypu. Þau ættu að forðast gamlar hugsanaskekkjur, sem við ættum í ljósi atburða sl. ára að vera búin að átta okkur á fyrir löngu og sem hafa hentað afar illa okkar litla og viðkvæma þjóðfélagi. Ekki síst í heilbrigðiskerfinu þar sem kostnaður eykst umfram getu þjóðarinnar að standa undir með góðu móti og þar sem við þurfum umfram allt að styrkja grunnstoðirnar áður en verður byggt ofan á þær. Gleymum því ekki, því annars brotna þær.