Miðvikudagur 08.06.2011 - 11:15 - FB ummæli ()

Þögnin köld, en síðan kvak og tíst

Kyrrðin getur verið algjör, oftast friðsæl en stundum þrúgandi. Á veturna í froststillum, einstök, þegar norðurljósin leika sinn dans en tunglið situr á bak við, þögult og brúnaþungt. Þar sem þögnin á heima.

Nema þegar vindurinn blæs og það hvín í hríslunum í kirkjugarðinum á heiðinni. Öðruvísi þögn og angurvær. Þegar við viljum hlusta en heyrum samt ekki neitt. Fátt að gerast nema þegar íslenski fáninn blaktir við hún á hátíðisdögum og öðrum dögum í lífi okkar allra. Svo tígurlegur, sterkur og útbreiddur. Kaldur en hlýr í senn. Svo fastur og öruggur, ekki síst þegar smellur í honum eins og þöndu segli á skútu í miklu hafróti.

Í dag, þrátt fyrir nepju, norðan vind og nýfallin snjó í Esjunni er það fyrst og fremst sólin sem samt ræður ferð, enda mitt sumar. Jafnvel ískaldur hafsflöturinn, hvítfryssandi í órafjarlægð fær yfir sig allt annan blæ í allri birtunni og blikinu. Þegar himininn er sjaldan tærari og viðáttan sjaldan meiri. Þegar ég lít til allra átta og sé lítinn fána liggjandi á jörðinni við hliðina á leiði óþekkts manns í kirkjugarðinum. Á leið minni framhjá eins og alla aðra daga. Hann hafði greinilega fokið niður í öllu rokinu í nótt. Og auðvitað gekk ég inn fyrir, rétti hann við og kinkað kolli, afsakandi.

Í morgun var það samt tístið og kvakið sem vakti mig upp af morgunhöfganum eftir erfiða vakt í gærkvöldi og fram á nótt og sem ennþá situr í manni. En það er komið há sumar. Allir mófuglarnir í sínum darraðardans og baráttu lífsins og þakka sjálfsagt fyrri hverja hitagráðuna ofan við frostmark enda var nóttin köld og finna mátti að sumstaðar hafði frosið í jörðu. Svo ólíkir, en sem eru flestir að segja örugglega það sama og sem skiptir þá mestu máli. Tjaldurinn spígsporandi, svartur í hvítu, hvellur og ör. Lóan settleg og varvær. Spóinn virðulegur og sem fær mann alltaf til að undrast. Mávurinn og hrafninn komnir í slag, hátt í háloftunum, hvernig á annað að vera. Miklu meira að gerast en maður getur ímyndað sér, allt í kring.

Mál málanna síðastliðinn vetur voru mál kirkjunnar. Þöggun um áraraðir þar sem ríkt hefur kuldi. Þar sem var pískrað í hornum þar til upp úr sauð. Kerfi sem vildi verja sig út fyrir líf og dauða. Mál sem verður aftur mikið rætt um næstu daga undir hásumarsólinni og í norðannepjunni. Þar verður líka mikill darraðardans eftir erfiða, þögula, langa og kalda nótt. Svona er Ísland í dag. En fuglarnir okkar kunna ennþá að syngja og kvaka.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn