Sunnudagur 05.06.2011 - 13:23 - FB ummæli ()

Vöntun á heildrænni sýn

Um daginn var ég beðinn að koma í viðtal og ræða heildræna nálgun algengustu vandamála læknisfræðinnar sem snýr að heimilislækningum. Mikil umræða hefur verið um lyfjaávísanir og lyfjanotkun landans að undanförnu. Á flestum sviðum læknisfræðinnar höfum við Íslendingar talið okkur standa fremst meðal þjóða, læknismenntunin góð, boðið er upp á hátæknilækningar á flestum sviðum, töluvert um vísindalegar rannsóknir og síðast en ekki síst höfum við mikinn metnað til að byggja nýtt og öflugt hátæknisjúkrahús í Reykjavík. Þetta er svo sem allt gott og blessað ef ekki væru efasemdir um ágæti margra þessara þátta og forgangsröðunar á verkefnum. Ekki síst ef við lítum á afleiðingar skipulagsleysi í heilbrigðisþjónustunni svo sem hvar á að veita hvaða þjónustu, mikla notkun lyfja í flestum lyfjaflokkum og um nauðsyn byggingar hátæknisjúkrahús á sama tíma og við höfum ekki einu sinni efni á að halda í sérþjálfað starfsfólk og borga samkeppnisfær laun við erlendan vinnumarkað og mikill starfsmannaflótti blasir við í heilbrigðiskerfinu. Ofnotkun lyfja er auk þess mikið heilbrigðisvandamál út af fyrir sig og heilsuspillandi, röng notkun þjónustunar sjúkdómsvæðandi og nýbyggingar bara steypa og gler, ef mannauðinn vantar. Því er ekki vanþörf á að ræða þess mál betur, ef til vill með nýrri nálgun.

Að mörgu þarf því að hyggja þegar þarf að byggja og vissulega býr Landspítalinn við erfiðan húsakost. Vandamálin þar er þó eins og hljóm eitt miðað við æpandi þörf á lagfæringum í heilbrigðiskerfinu hingað og þangað. Heilsugæslan í höfuðborginni t.d. sveltur og það vantar um 50 heimilislækna bara á höfuðborgarsvæðið og sem fer ört fækkandi. Meirihluti erinda sjúklinga er enda orðið sinnt utan venjulegs dagtíma á vöktum hverskonar þar sem þjónustustigið er allt annað en hjá heilsugæslu eins og alþjóðlegir staðlar gera ráð fyrir að séu til staðar og sem býður upp á fræðslu og eftirfylgd með tilliti til sjúkrasögu sjúklings. Eins er erindunum oft sinnt hjá sérfræðingum úti í bæ, en þaðan sem læknabréf berast oft seint og illa. Sjúkraskrárkerfin er auk þess ekki samtengd, né heldur lyfjaskrárnar og „lyfjagátt“ apótekanna.  Allt sem býður hættunni heim og veldur miklum rugling, hvað aðrir eru búnir að gera og hugsa, milliverkunum á milli lyfja frá ólíkum læknum, ofnotkun lyfja sem oft er besta skyndiúrræðið, jafnvel misnotkun lyfja og fölsun lyfseðla sem síðan leiðir til lögleysu og glæpamennsku úti í bæ. Og það sem verst er, sjúklingurinn á hvergi heima í kerfinu og eru oft sem villuráfandi og skilyrtur á áframhaldandi skyndilausnir þar sem hana er að finna hverju sinni. Mikil vaktþjónustan ber þessu best vitni sem er allt að áttföld miðað við hjá nágranaþjóðunum. En hver skyldi hugsunin vera að baki þessu skipulagi hjá heilbrigðisyfirvöldum sem telur stundum minnstu skipta hvar þjónusta er veitt og hver skyldi framtíðarsýn stjórnvalda vera í þessum efnum í dag?

Óvinir læknisfræðinnar og okkar allra eru auðvitað sjúkdómarnir sem við viljum öll sigrast á, í það minnsta ná sáttum við eða læra að lifa með, því auðvitað vinnum við ekki alltaf  fullnaðar sigur. Þetta eru allir sammál um. Vísindin hafa skapað okkur líka ýmiss verkfæri til að svo megi verða og eru lyf stór hluti af vopnabúrinu. Bólusetningar og rannsóknir á orsökum sjúkdóma og fyrirbyggjandi ráðstafanir ekkert síður sem og tækniframfarir í gjörgæslu og skurðlækningum. Samfélagslækningar og samvinna með öðrum heilbrigðisstéttum í félagslegu tilliti og sálarlegu er ekki síst mikilvægt í flóknum samtímanum á tækniöld, enda er líkaminn aldrei eyland. Vopnin þurfa hins vegar að vera vel varðveitt og vel skilgreint hvenær á að nota þau til að þau missi ekki mátt og hætti að bíta. Mörg lyf eru í dag afskaplega mikils virði á réttum forsendum, en geta líka verið hættuleg ef þau eru ofnotuð eða misnotuð. Trúverðugleiki á notkun þeirra verður að vera fyrir hendi og annarra ráða sem jafnvel skipta meira máli í baráttu við sjúkdóma til lengri tíma litið reynd, áður en gripið er til þeirra. Skilningur á venjulegum sjúkdómsgangi sjúkdóma og mikilvægi almenns heilbrigðis er þarna ekki síst mikilvægur.

Í samskiptum læknis og sjúklings ríkir sem betur fer oftast fullur trúnaður. Læknirinn vill gera sitt besta en verður að miða við aðstæður og tíma sem samskiptunum er ætlað. Dýrasta verkfæri hans er reynsla og þekking. Huglægt mat og ráðgjöf en ekki ein lausn. Heildræn nálgun verður hins vegar því miður oft að víkja og „gæðatrygging“, að ganga sem lengst í úrræðum er oft nærtækust þegar tíminn er lítill sem enginn. Það er t.d. fljótlegra að gefa kvíða- eða þunglyndislyf við kvíða og þunglyndi en beita samtalsmeðferð eða hugrænni atferlismeðferð sem er samt miklu líklegri til að skila betri árangri til lengri tíma litið. Skipulag þjónustu sem miðar við þjónustustig skyndiúrlausna leiðir þannig alltaf til meiri lyfjanotkun en efni standa til. Jafnvel stundum með alvarlegum afleiðingum fyrir allt þjóðfélagið. Þegar síðan báðir aðilar una glaðir við sitt er lítil pressa að breyta vinnuferlunum. Þannig er viðhaldið óbreyttu ástandi allt of lengi, ekki síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu, í stað þess að gíra þjónustuna nú niður á þann stað sem hún í raun á fyrst og fremst heima.  Dagþjónustu heilsugæslunnar þar sem tilefnunum er gefinn sá tími sem þau þurfa. En á meðan slitna vopnin, úreldast og verða reyndar smá sama óvirk, aukaverkanir algengari og hliðverkanir dýrari. Heildarkostnaður heilbrigðisþjónustunnar eykst og heilsa þjóðarinnar versnar. Í stað heildrænnar nálgunar og að fólk beri meira ábyrgð á sjálfu sér. Og í  stað þess að alast upp við sjúkdómahræðslu og að við öllu séu til skjótvirkar skyndilausnir á að beita fræðslu.

Við læknar verðum að vera í fararbroddi, lýsa og varða þann veg í heilbrigðisþjónustunni sem við viljum að sjúklingarnir okkar gangi. Marka leiðirnar í heilbrigðisþjónustunni með öðru heilbrigðisstarfsfólki sem byggir á trúverðugleika á læknisfræðinnar. Það geta stjórnmálamennirnir aldrei gert og við verðum að passa upp á þegar þeir vilja leggja steina í götu okkar vegna markaðslögmálanna.

Viðtal við mig um efnið er í þættinum Heilshugar á Rás 1 22.07.2011

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn