Mánudagur 13.06.2011 - 17:19 - FB ummæli ()

Annar heimur

Oft hef ég hugsað um veröld fuglanna sem fljúga rétt yfir höfuð okkar eins og ekkert sé. Önnur lögmál og aðrar hættur. Þar sem fuglarnir eru oft sjálfum sér hvað verstir innbyrðis eins og við mannfólkið oft á tíðum erum hvert öðru. Í gær í blíðunni var þó annað hljóð í fuglunum úti í móa en í sumarkuldanum undanfarna daga. Í fyrsta skipti heyrði ég líka í hrossagauk þar sem hann steypti sér niður og framkallaði það hljóð sem hámarkar sumarstemmninguna í mínum huga, með stélinu sínu einu saman. Ljóð sem á sér enga samlíkingu og lag sem er mýkra og meira víbrandi en maður heyrir úr nokkru hljóðfæri.

Þessa mynd fékk ég að láni úr myndaalbúmi Sigmunds Ásgeirssonar sem tekið hefur góðar myndir af mófuglunum okkar. Ekki spillir fyrir þessari mynd að sjá eitt af þjóðarblómunum okkar, harðgerðu fíflunum sem því miður margir hafa ofnæmi fyrir. Blómin ásamt sóleyjunum sem lita heiminn gulan á Íslandi þegar sólin lætur ekki sjá sig. Frá því fyrst á vorin og langt fram á sumar. Jafnvel strax í mars út undir húsveggjum. Áður en aspirnar og fræblar annarra trjátegunda springa út og löngu áður en punturinn og starrgrösin springa út og við förum að slá garðana okkar. Þegar gróðurofnæmið nær hámarki, og mörgum klæjar í augun, stíflast í nefi og hnerra endalaust. Sjúkdómur sem um 10% þjóðarinnar þjáist af á einn eða annan hátt og dregið getur úr sumarstemmningunni. Ekkert er algott og alltaf skal vera önnur hlið á málunum, líka sumrinu okkar. En hver veit nema við finnum fjögra blaða smára í sumar og getum þá óskað okkur eitthvað einstakt, að minnsta kosti ósk sem ég sjálfur lagði trúnað á þegar ég var ungur og trúði á betri heim.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn