Nokkur umræða hefur verið um hættuástand á Slysa- og bráðamóttöku LSH vegna of mikils vinnuálags á starfsfólk og álagið stundum skilgreint „rautt“ sem er hættuástand eða „svart“ sem er glundroðastigið og ætti helst ekki að geta orðið nema hugsanlega við alvarlegar hamfarir.
Ábendingar hafa að sama tilefni borist frá talsmanni ungra lækna um óeðlilega mikið vinnuálag á unglækna á öðrum deildum spítalans í sumar þar sem þeir telja sig ekki geta sinnt sjúklingum sem skyldi. Læknaráð Landspítalans íhugar nú alvarlega að óska eftir því við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra, að hann láti gera úttekt á starfsemi spítalans, m.a. með tilliti til mönnunar og álags. Mikið álag er reyndar í takt við mikla og vaxandi vaktþjónustu almennt á höfuðborgarsvæðinu þar sem fleiri erindum er orðið sinnt á kvöldin, nóttunni og um helgar en yfir daginn á virkum dögum í heilsugæslunni eins og ég hef oft bent á áður.
Ástandið skýrist þannig öðru fremur af mikilli undirmönnun í heilsugæslunni, en faglega séð skiptir miklu máli hvar og hvernig heilbrigðisþjónustan er veitt, á öllum stigum. Flest erindi eru alls ekki bráðaerindi og ættu því öðrum fremur heima í heilsugæslunni á daginn. Því má segja að mikið álag á vaktþjónustuna nú endurspegli rangt skipulag í heilbrigðisþjónustunni hér á höfuðborgarsvæðinu um árabil og að sú umræða sé þannig eins og umræðan um ofnotkun lyfja, aðeins toppinn á ísjakanum. Vandamálin liggi miklu dýpra, ásamt vandamálum í sálarlífi Íslendinga sjálfra sem vilja fara oft fram úr sjálfum sér. Allt útlit er samt fyrir að ástandið bara versni á næstu árum enda eldist starfsstétt heimilislækna hratt með tilheyrandi vaxandi álagi á vaktþjónustuna og undirmannaðar spítaladeildir. Vonandi geri nú fleiri sér grein fyrir vandanum sem Íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir, áður en allt verður um seinan. Ekki veitir af liðsinni almennings og fjölmiðla því langan tíma getur tekið að byggja upp aftur þjónustu sem hefur verið rifin niður og tók marga áratugi að byggja upp.
Undirmönnun á Slysa- og bráðamóttöku, ekki síst meðal ungra lækna, gerir það að verkum að álagið er eins og áður segir oft um og yfir hættumörkum og sem margir þekkja sem til deildarinnar hafa leitað síðastliðið ár. Unglæknarnir taka gjarnan margar aukavaktir, en sökum niðurskurðar og fækkun í föstu starfsliði unglækna hafa eldri læknar líka þurft að hlaupa í skarðið. Launin í peningum talið eru hins vegar skammarlega lág og oft virðist það vera meira heiðurinn að fá að þjóna góðri deild í samfélaginu sem skiptir máli en beinhörðu krónurnar sem maður fær að lokum í vasann. Um kjör sérfræðilæknis sem vinnur á aukavöktum á deildinni vil ég vísa á færslu frá því snemma í vor, Beyglan mín og 2000 slasaðir. Sama má auðvitað segja um aðrar starfstéttir, ekki síst hjúkrunarfræðingana sem starfa í fremstu víglínunni ásamt læknunum. Fagstéttir sem vinna með manneskjuna, veikleika hennar og beiskleika í öllum myndum, en sem þjóðfélagið er ekki tilbúið að meta í launum í samræmi við ábyrgð. Þjónustuna sem samt allir treysta á þegar mest á reynir í lífinu.
Sumir kalla deildina líka „deildina sem aldrei sefur“ og sem tók nýlega líka við næturvöktum heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu þegar vitjanaþjónusta þeirra var lögð einhliða niður af heilbrigðisyfirvöldum. Á deild þar sem allir hafa hingað til verið jafnir með tilliti til þjónustu og þar sem oft bregður fyrir brosi í andlitum þeirra sem fá hjálp í martröðum lífs síns. Öllum nema þeim sem koma útúrdópaðir eða eru ofurölvi, þar sem ofbeldið tók völdin. Ógnanir gangvart starfsmönnum og slagsmál á biðstofum eru enda algengar uppákomur á bráðamóttökunni, ekki síst á kvöldin um helgar og á nóttunni. Þar sem aðstæður geta breyst eins og hendi sé veifað í blóðugan vígvöll. Jafnvel árásir á starfsfólk með smitað blóð að vopni og hráka. Hvað er það annað en stríðsástand, ekki síst þegar starfsmennirnir þurfa síðan að hlaupa milli þeirra mest slösuðu og bráðveikustu?
Forgangsraða þarf stöðugt upp á nýtt erindum eftir alvarleika áverka og sjúkdómseinkenna, sem geta breyst fyrirvaralaust. Miklar geðhræringar og spenna blandast gjarnan andrúmsloftinu og oft er loftið rafmagnað. Sjúklingar geta þurft að bíða óþreyjufullir eftir þjónustu á sama tíma og starfsfólkið bíður eftir sjúkraþyrlum eða sjúkrabílum með stórslasaða. Ekki síst reynir á starfsreynsluna þegar róa þarf aðstandendur eftir alvarlegustu slysin sem verða úti í þjóðfélaginu. Fólk sem bíður milli vonar og ótta í bókstaflegum skilningi og þegar ekkert annað í heiminum skiptir meira máli. Það á ekki síst við þegar búið er að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að reyna að bjarga þeim slasaða eða sá slasaði er kominn í sérhæfðar hendur lækna og starfsfólks gjörgæsludeildar. Aðstæður geta þannig verið ólýsanlega sárar og dapurlegar.
Spurningar um uppeldisgildin hljóta líka að koma upp í hugann þegar gleði, samstaða og skilningur víkur fyrir hörku og ruddaskap á samkomum og í umferðinni. Vettvangur víglínanna, eins einkennilegt og það kann að hljóma, er því miður oft þar sem fólkið kemur saman í þeim tilgangi einum að skemmta sér en hlutirnir fara síðan úr böndunum eða þar sem fólk leiðir saman stálhestöflin sín. En svona er Ísland meðal annars í dag, því miður. Nauðganir, slagsmál, grófar líkamsárásir og ekki síst stórhættulegur glannaskapur í umferðinni bera þessu glöggt vitni og þar sem vín og fíkniefni koma allt of oft við sögu. Síðan geta afleiðingarnar og ofbeldið sjálft þegar mál eru óuppgerð, færst inn á gólf slysadeildarinnar. Þar sem lögregluvakt þarf til að tryggja starfsfriðinn. Þetta er hinn ískaldi íslenski veruleiki sem heilbrigðiskerfið þarf að takast á við hvort sem okkur líkar betur eð verr, ofan á allt annað.
Oft er ég spurður af hverju ég sé að útsetja mig fyrir að fara á þennan “vígvöll” sjálfviljugur. Sennilega felst svarið fyrst og fremst í löngun að geta tekið þátt í óvæntri atburðarrás þar sem maður getur komið að góðu gagni og uppsker meira þakklæti en annars staðar í þjóðfélaginu. Sennilega er heldur hvergi hægt að sjá umbirtingu þjóðfélagsins betur frá öllum köntum. En það er löngu tímabært að við stöldrum öll við, lítum í þjóðarspegilinn og hugsum okkar gang.
Svartur eða rauður, velferðarráðuneytið á greinilega næsta leik. Byrja verður að styrkja grunnin, mannauðinn. Áður en farið er að byggja meira úr steinsteypu, stáli og gleri. Bæta verður kjörin og tryggja góða mönnun á bráðmóttökunni, það er bráðamál. Svo halda megi í það minnsta bráðaþjónustunni áfram á grænu ljósi, eða gulu í versta falli.