Þriðjudagur 12.07.2011 - 22:52 - FB ummæli ()

Þríhyrningar

Um helgina gekk ég ásamt konunni minni og nokkrum göngufélögum úr gönguhópnum okkar til margra ára, á fjall norður í Hjaltadal í Skagafirði sem ber nafnið Þríhyrningar. Fjall sem stendur vel undir nafni eins og myndin hér ber með sér. Svo einkennilega vill til að sumir hlutir í náttúrunni minna aðeins á stærðfræðina, þótt flestir geri það sem betur fer ekki. Þegar ég segi „sem betur fer“ að þá er það ekki af því að ég sé á móti stærðfræðinni á nokkurn hátt, þvert á móti. Skýringin er einfaldlega sú, að náttúran sjálf brýtur oft öll viðmið og mörk í þekkingarheimi okkar mannanna. Og það að vera kantaður um of, ber oft með sér ákveðna stífni og þröngsýni. Fjallið góða ber nafnið sitt einstklega vel. Bæði eru hornin þrjú og fjallið er eins og risastór þríhyrningur séð fram Hjaltadalinn.

Sem ungur drengur í sveit á sumrin á landnámsbænum Hofi, var ég oft búinn að láta mig dreyma um að komast upp á toppinn á þessu fjalli sem blasti við. Eins við hliðana á Hólabyrðunni sem bærinn stendur beint undir. Þótt ekki væri nema á eitt af hornunum þremur. Sennilega ekki ósvipað og Hjalti Þórðarson landnámsmaður hefur hugsað forðum og síðari ábúendur. Horft á óteljandi mögulegar leiðir á björtum sumardögum, en sem var auðvitað aldrei farin, enda aðeins hluti af draumi ungs pillts. Sveitin var samt manni í blóð borin, en með öllum þeim skyldum, boðum og bönnum sem tilheyrðu í þá daga. Berjamórinn var oftast látinn nægja seint í sumarslætti eða farið á hestbaki. Hins vegar var oft farið í göngur upp í  hlíðirnar. Efir kindum og lömbum á haustin í göngunum, en miklu oftar eftir beljum og hrossum í móunum langa sumardaga. Stundir eins og gerst hefðu í gær.

Og þótt fjallið sé fallegt, var það gangan nú um helgina, tæpri hálfri öld síðar, sem hér skiptir máli og sem bauð upp á nýja sýn. Nú suður yfir hálendi landsins. Í norðri blasti hins vegar við góðkunnugleg sjón, eins og í endurminningunni, Skagafjörðurinn góði sem að lokum rann saman við himinblámann. Allt nema Tindastóll og Drangey handan sjóndeildarhringisins.

Að ganga á hátt fjall norður á Íslandi sem er gróið að miklu leiti lyngi og blómum er sérstakt. Djúpu, grænu og löngu dalirnir allt í kring hafa auðvitað sitt að segja og hljóta að gefa alla hlýjuna sem til þarf, ekki síst Hofsdalur langur og mjór en sem endar í jökli og mörgum hliðarsölum til suðurs. Svo auðvitað Hjaltadalurinn og góður bróðir hans Kolbeinsdalur lengra í austri. Jöklasóleyjar og burnirót upp í efstu hæðum, jafnvel sólskríkja hátt í björgunum í Tröllkonusæti, sem er eins og hún vilji bjóða okkur velkomin heim í sal fjallana og tilla okkur aðeins niður. Sennilega með þeim fyrstu þetta kalda og þurra sumar. Ef til vill er skýringin líka að þurkurinn þarna upp er ekki eins mikill og í móunum niðri í dalnum og því meira af skordýrum. Þar sem jafnvel fiðrildin liggja á snjónum eins og í dvala.

Það sem er samt ólýsanlegt með orðum er sjálf snertingin við landið. Öll þessi víðátta og fjöll af öllum gerðum sem birtast sífellt óvænt eftir því sem lengra er haldið. Hvert gil með sínu risavöxnu sniði, svo ólík en gráta öll gleðitárum nú um hásumarið og lækir fossa niður kinnar. Salir og veröld þar sem þú átt einn heima um stund. Tilfinning, að allt þetta sé bara fyrir þig og félaga þína að njóta, að því að þú nenntir að koma í heimsókn. Eins jöklarnir og hamrabeltin af öllum gerðum þar sem þú verður svo agnarsmár. Grjót í öllum litum og gerðum. Snjóhengjur og skriður til að takast á við, áður en á toppinn er kominn og ekki síður þegar niður er farið. Sléttur þegar upp er komið, eins og maður gæti ímyndað sér á fjarlægri reikistjörnu, yfir á Hagafjall í suðri. Þar sem þú jafnvel gengur eins og í bæjargöngu, ofan á sjálfu Íslandi í rúmlega 1100 metra hæð í blæjalogni. Hér eru þó hvergi nein hús en einstaka bæir á stangli niðri í djúpu dölunum í fjaska fjarlægð. Nú færðu allt aðra sýn og tækifæri til að njóta en þegar þú horfðir frá sömu bæjum upp til fjallanna fyrir óralöngu og lést þig dreyma, að einhvern tímann kæmist þú á toppinn.

En það leynast hættur undir lausum steinum, í skriðum og klettum eins og í lífinu sjálfu, sérstaklega þegar farið var á miðtoppin. Á fjalli sem þú getur líka hlaupið niður nokkuð hundruð metra í snjónum í Hyrningagili. Þar til þú ert síðan kominn í þrot og fæturnir búnir að fá nóg eftir 6 tíma göngu. Þegar þú átt ennþá eftir að ganga grösuga móa og mýrar og vaða Hjaltadalsá í norðlenskum sumarhita og sól.

Lífið sjálft er eitt langt ferðalag og margt sem kemur upp á. Nú eru margir bæir í sveitinni minni komnir í eyði og margt öðru vísi en áður var. Og því miður komust við ekki öll úr gönguhópnum með þetta árið og sumir veikir heima. En sumir fóru líka aðra leið um dalinn þennan dag enda markmiðin misjöfn og af nógu er að taka. En í lok dags er það engu að síður „þetta sameiginlega“ sem gerir útslagið og sem gerir það svo frábært að tilheyra góðum hópi félaga. Að geta síðan rifjað upp óteljandi ferðir hérlendis og jafnvel erlendis og gera sér góða veislu að kveldi, mitt á milli norðlensku fjallanna. Öll höfum við lært sitt lítið frá því við hittumst síðast. Og þótt við í hópnum séum aðeins farin að reskjast og sumra er sárt saknað, getum við hin ekki síður lagt ýmislegt til í sagnasarpinn til að miðla hvort öðru. Þar sem landið sameinar okkur öll, vonir og þrár. Líka frá löngu horfnum tíma sem ég þakka svo vel fyrir í sveitinni minni. Þar sem þú átt ekki landið, heldur landið á þig. Um leið og það býður okkur velkomin í næstu ferð.

Um fornar gönguleiðir úr Eyjafirði til forna, sjá https://timarit.is/page/1968216#page/n49/mode/2up

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn