Sunnudagur 28.08.2011 - 11:50 - FB ummæli ()

Eitt glas á dag getur komið heilanum í lag

Áfengisneysla á sér margar hliðar. Margir kunna sér ekki hóf og sumir eru viðkvæmir að ánetjast vímugjafanum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að áfengi, sérstaklega léttvín og bjór hefur tengst neysluvenjum flestra þjóða og menningu um aldir, oft meira en hjá okkar litlu víkingaþjóð sem lærði seint með áfengi að fara eins og svo margt annað.

Áfengisneysla Íslendinga hefur hins vegar aukist mikið á seinni árum á sama tíma og tíðni lifrarbólgu tengt áfengisneyslu og reyndar lifrarbólgu C hefur stóraukist. Vaxandi bjórdrykkja og neysla léttvína á síðustu árum er því verulegt áhyggjuefni, þótt ennþá getum við ekki talist meðal mestu víndrykkjuþjóða veraldar. Og vissulega ber að fagna að vissu leiti breyttu drykkjumynstri landans þar sem slysum og ofbeldisverkum tengt ölvun hefur ekki fjölgað í takt við aukna neyslu sem nálgast að vera að meðaltali um 8 alkóhóllítrar á ári. En tölurnar tala sínu máli og í dag hafa þegar um 7% fullorðinna þurft að leggjast inn á meðferðarheimilið Vog til áfengis- og vímuefnameðferðar.

Nýlegar rannsóknir sýna engu að síður að hófleg áfengisneysla getur dregið úr tíðni ýmissa sjúkdóma sem við viljum gjarnan vera laus við, ekki síst þegar aldurinn færist yfir og hætta á að fá sjúkdómana eykst. Þannig er vitað um hagstæð tengsl hóflegrar alkóhólneyslu gegn áhrifum hækkaðs kólesteróls (LDL),  þ.e. það hækkar góða kólesterólið (HDL) sem dregur úr hættu á kransæðasjúkdómum. En jafnvel lítil neysla áfengis hefur líka sýnt sig verið tengt aukinni tíðni ákveðinna krabbameina, sérstaklega í brjóstum kvenna svo það eru greinilega bæði plúsar og mínusar í þessu dæmi. Í síðustu viku birtust hins vegar athyglisverðar niðurstöðurað um jákvæð áhrif áfengis gegn heilabilun sem vert er að skoða betur.

Alzheimer´s sjúkdómurinn og heilabilun (dementia) eru alvarlegir sjúkdómar sem valda því að fólk hættir að geta séð um sig sjálft og þar sem tíðnin eykst eftir því sem meðalaldur þjóðfélaganna hækkar. Þessir sjúkdómar kalla á mikla umönnun og þjónustu og valda því heilbrigðisyfirvöldum um allan heim miklum áhyggjum. Í dag eru um 20% einstaklinga á aldrinum 65-74 ára með einkenni heilabilunar, langflestir með Alzheimers sjúkdóminn og yfir helmingur 85 ára og eldri.

Lítil en dagleg drykkja áfengis virðist hins vegar minnka líkur á heilabilun og skerðingu á vitrænni getu ef marka má greinina sem birtist í nýjasta hefti Neuropsychiatric Disease and Treatment. Rannsóknin náði til niðurstaðna 143 fyrri rannsókna sem gerðar höfðu verið á áhrifum áfengis á heilann og sem samsvarað neyslu undir 2 glösum á dag (< 20 gr. af hreinum vínanada) hjá körlum og einu glasi á dag (<10 gr.) hjá konum. Þessar nýju niðurstöður sýndu minnkaðaðar líkur á að fá Alzheimers sjúkdóminn og aðrar heilabilanir um 23%. Fjallað er ítarlega um greinina á Medscape.com og m.a. rætt við íslenskan geðlækni í Bandaríkjunum, Anton Pétur Þorsteinsson af því tilefni.

Kenning rannsakenda sem höfðu áður gert rannsóknir á rottum sem virtust þola álag eiturefna á heilann betur ef þær höfðu áður verið fengið vínada í litlu mæli daglega, var að hugsanlega gæti áfengi í takmörkuðu magni undirbúið taugafrumur betur með „passlegu áreyti“ gegn áhrifum álags á heilann síðar, javel áhrifum efna sem kynnu að geta skaðað taugafrumur. Þetta vildu þeir því skoða betur í ljósi fyrri rannsóka sem gerðar höfðu verið á mönnum.

Því má ef til vill segja að flest sé gott í hófi, að minnsta kosti hvað áfengi og heilann varðar. Ekki má þó gleyma því sem e.t.v. mestu máli skiptir og sem er eðlileg örvun á heilann, góð samskipti, gott mataræði ásamt góðri hreyfingu. En e.t.v. má spara eitthvað rándýr lyf gegn heilabilun í framtíðinni og fá sér í staðinn einn eða tvo.

http://www.medscape.com/viewarticle/748617?sssdmh=dm1.713439&src=nldne

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/09/02/erfidara-ad-sanna-thad-goda-en-slaema/

http://www.ruv.is/frett/dagleg-hofdrykkja-betri-en-bindindi

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn