Fimmtudagur 08.09.2011 - 21:09 - FB ummæli ()

Hugleiðingar um byggingaráformin við Hringbraut

Heilbrigðisþjónustuna hefur tekið langan tíma að byggja upp á Íslandi, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu með sjálfan Landspítalann í fararbroddi og þangað sem flestra leiðir liggja einhvern tímann á ævinni. Fátt er okkur mikilvægara í mestri neyð lífsins en gott sjúkrahús með góðri bráðaþjónustu, en líka góðri heilsugæslu og dvalarstofnunum fyrir aldraða um allt land auk nauðsynlegrar sérgreinalæknisþjónustu. Um þessi atriði eru allir landsmenn sammála, en bara ekki skipulagi þjónustunnar og forgangsröðun verkefna sem fyrir liggja. Allra sýst þegar við höfum nú ekki efni á að reka sjúkratryggingakerfið okkar eins og lög gera ráð fyrir og þar sem vísir er þegar orðinn að tvöföldu sjúkratryggingakerfi á Íslandi. Að þeir efnameiri geti notið þjónustu sem þeir efnaminnstu geta ekki enda gjaldskrá ýmissa sérfræðinga óháð hámarksgreiðslu Sjúkratrygginga í sjúkrakostnaðinum í dag. Sérgreinalækna sem leggja tuga prósenta kostnað ofan á greiðslur sem þeir fá frá Sjúkratryggingum Íslands á sjúklinginn sjálfan, enda enginn nýr samningur í gildi.

Leikskólinn sem ég dvaldist á sem smákrakki hét Grænaborg og var staðsettur á Landspítalalóðinni, rétt hjá hringtorginu við gatnamót Hringbrautar og Snorrabrautar. Þar sem áður hafði staðið bær með sama nafni, löngu áður en Landspítalinn var reistur. Sennilega vegna þess hve svæðið var grænt, fallegt og opið. Leikskólinn minn var hinsvegar smíðaður 1931 og er nú löngu búið að rífa, enda var hann alltaf hálfgerður bárujárnshjallur. Þótt hann reyndi að bera nafn sitt vel og var alltaf málaður af því tilefni grænn. Í sandkassanum þar voru fyrstu skóflustungurnar mínar teknar og ég byggði mér draumahallir. Þegar framtíðin var óráðin og löngu áður en maður átti eftir að vitskast, eða svo átti það að heita. Nú þekki ég mikið betur til staðarins þar sem leiksólinn minn stóð áður enda starfað á spítalanum stóran hluta af lífi mínu. Draumaspítala síns tíma sem varð að veruleika. En hins vegar ekki draumahöllin sem nú á að byggja, á sama stað og ég byggði forðum.

Nú hefur engu að síður verið nánast ákveðið að byggja nýjan sameinaðan spítala á höfuðborgarsvæðinu sem á að vera hátæknisjúkrahús og háskólasjúkrahús í senn samkvæmt fyrirliggjandi byggingartillögum á þessum stað, Landspítalalóðinni við Hringbraut. Fyrsti áfangi hljóðar upp á rúmlega 40 milljarða króna og byggingarnar eiga að flæða um allt þar í kring. Mér finnst reyndar leiðinlegt að geta vera ekki verið sammál mörgum ágætum kollegum mínum á Landspítla um þessi áform, en í veikri von malda ég nú í móinn. Áður en allt verður um seinan og vona ég að ennþá megi koma í veg fyrir stórkostlegt skipulagsslys sem er í raun hluti að afkróuðum vesturbæ Reykjavíkur, Miðbænum svo og Þingholtunum. Sem á eftir að valda miklu óhagræði í aðgengi sjúklinga og starfsmanna að mikilvægasta sjúkrahúsi landsins ef tillögurnar ná fram að ganga.

Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrverandi Landlæknir og félagi minn skrifaði ágætis grein í Fréttablaðið sl. haust um milvægi tengingar hátæknisjúkrahúsins við háskólasamfélagið og er ég honum þar hjartanlega sammála í veigamiklum atriðum. Sérstakalega er varðar menntun, vísindi og kennslu í teymisvinnu í stað einyrkjavinnu, eiginlega öllu nema því sem mikilvægast er í dag að taka ákvörðun um og varðar  staðarvalið á sjúkrahúsinu og að endilega þurfi að byrja á framkvæmdum strax í dag eins og málum er nú háttað í efnahagslífinu. Sérstaklega finnst mér vanta í grein Sigurðar að fjallað sé um það sem þó brýtur mest á heilbrigðsiþjónustunni í dag. Að halda mannauðnum í landinu og styrkja grunnþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Hvar mætti frekar leggja áherslu á að bæta og laga sem er líka atvinnuskapandi, í stað þess að byggja bara nýtt úr steynsteypu, stáli og gleri.

Sagan um nýjan hátæknispítala nær frá því fyrir síðustu aldarmót með sameiningaráformum Sjúkrahúss Reykjavíkur (gamla Borgarspítalans), Landakots og Landspítalans. Áform sem m.a. var til að hagræða á rekstri og sem var mjög skiljanleg þar sem sjúkrahúsin voru þrjú á Reykjavíkursvæðinu og eins að betri tengingu vantaði við Háskóla Íslands. Byggingaráform um stækkun Landspítals nær hins vegar miklu lengra aftur í tímann og lóðir hafa verið teknar frá í það verkefni neðan Hringbrautar. Reyndar var byggt þar hús sem kallað hefur verið Tanngarður og sem átti fyrst og fremst að hýsa tannlæknadeildina, en þar sem læknadeildinni var einnig síðar komið fyrir við illan leik og húsið þá kallað Læknagarður. Hús mistaka sem fyrir löngu er komið með spangir þótt það sé í raun aðeins hálfbyggt og farið að kalla á mikið viðhald.

Það grátlega er þó, að frá sameiningu hefur maður aðallega séð yfirbygginguna í rekstri spítalans stækka, jafnhliða miklum niðurskurði á starfliðinu á gólfinu og auknu vinnuálagi þeirra sem eftir eru. Þjónustu sem er komin að þolmörkum þess ásættanlega. Þrátt fyrir marga samninga við Háskólann og nafni spítalans sem var breytt í Háskólasjúkrahús Landspítali. Jafnvel löngu fyrir hrun og þar sem góðærið kom aldrei. Þar sem brostinn er nú á mikill atgerfisflótti, enda býðst hæfasta starfsfólkinu margfalt betri kjör í öðrum löndum. Starfsfólk sem er á sínum besta starfsaldri og með mestu þekkinguna, jafnvel 6-12 ára sérnám að baki en því miður líka andvirði íbúðar í skuldahala í námslánum og húseignalausir. Þar sem tómt mál er að tala um að eignast hús, þaðan af síður að reisa nýtt.

Mér vitanlega viðhefst starfsemi „sameinaðs“ Landspítala ágætlega í núverandi húsnæði þótt starfsemin sé sannarlega dreift víða um borgina. Aðstaða starfsfólk er líka víða bágborin og oft verða sáttir þröngt að sitja. Sárast vantar hins vegar hjúkrunarrýmin, sérstaklega fyrir eldri borgarana og mikið hefur verið í fréttum. Nýta mætti sjúkrastofnanir í nálægð við höfuðborgarsvæðið mikið betur en gert er í dag. Til dæmis á Vífilstaðaspítlala og St. Jósefsspítla í Hafnarfirði sem var lokað sl. haust. Gömlu byggingarnar eru flestar fallegar byggingar sem eiga sína sögu eins og t.d. líka Heilsuverndarstöðin gamla og sem nú hefur gengið í endurnýjun lífdaga, vegna sálar sinnar og fegurðar. Eins má í dag nýta nýjar og hátæknilegar skurðstofur sem standa tómar, eins og t.d. í St. Jósefsspítala og hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Það hefur verið allt of algengur ósiður hjá okkur Íslendingum, að rífa niður það sem gamalt er, til þess eins að byggja flottari hús. Jafnvel hlaupa frá hálfkláruðum húsum og verkefnum. Venjan ætti jú að vera að eiga fyrir því sem manni langar í. Draumahöllin er auðvitað bara tálsýn í augum fátæklinganna. Það ætti síðasti áratugur að hafa kennt okkur. Gömul hús þurfa einfaldega endurnýjun og í þeim felast mikil menningarverðmæti eins og áður sagði. Í það minnsta er þörfin miklu meiri nú að tryggja mannauðinn og góða menntun í landinu en byggja. Nýr draumaspítali gerir líka lítið gagn ef hann stendur síðan bara tómur og hæft starfsfólk vantar. Jafnvel þegar kreppunni loks lýkur. Húsin eiga alltaf að aðlagast aðstæðum þegar þau eru byggð en ekki öfugt. Sem kallast að sníða sér stekk eftir vexti. Tugmilljarða tvísýn byggingaráform í dag eru því glapræði.

Mín skoðun er að lóðin við gamla Borgarspítalann í Fossvogi sé miklu betur til þess fallin að byggja upp nútímalegan og stóran sameinaðan Landspítala í framtíðinni, þegar við höfum efni á. Sú skoðun fyrst og fremst af praktískum ástæðum en ekki tilfinngarlegum fyrir gömlu góðu Grænuborginni. Landsvæðið í Elliðaárdalnum er opið og staðsett miklu miðlægara í höfuðborginni, og með miklu betri aðkomumöguleikum í framtíðinni, ekki síst fyrir bráðveika á bráðamóttöku, með sjúkrabílum og í sjúkraflugi með þyrlum. Umferðaröngþveiti mun hins vegar skapast í „miðbænum“ á nýjum vinnustað fyrir þúsundir á komandi áratugum á gömlu Landspítalalóðinni. Á sama tíma og Háskólinn á allur eftir að stækka auk mikils vaxtar vonandi annarrar atvinnustarfsemi en heilbrigðisþjónustu, ekki síst ferðatengdri þjónustu. Jafnvel stækkun flugvallarins út í Skerjaförð og þéttari byggðar þar í kring. Þegar í dag eru allar helstu umferðarstofnbrautirnar til og frá miðbænum ofhlaðnar umferð á álagstímum? Flestir vita líka að margar lágar byggingar, jafnvel aðeins upp á 3-4 hæðir nýtast líka illa fyrir bráðasjúkrahús, kosta meira í viðhaldi og valda miklum töfum í ferðum á milli deilda, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólkið.

Eitt það vitlausasta í byggingartillögunum sem nú liggja fyrir að mínu mati er samt að þar er gert ráð fyrir þyrlupalli á 3 eða 4 hæð rétt hjá gjörgæslunni og skurðstofunum sem er kjarni svæðisins og viðkvæmastur þannig fyrir stórum skakkaföllum. Það vita allir Reykvíkingar að ímyndin um þyrlupalla á húsþökum í Þingholtunum á ekki við, þar sem allra veðra er von á veturna. Slysahættan er allt of mikil og getur jafnvel stefnt allri starfsemi spítalans og byggðinni þar í kring í stórhættu. Þyrlur þurfa langa aðbraut fyrir lendingu og flugtak sem eru hættulegustu tímabilin í fluginu og því nauðsyn á opnu svæði fyrir nauðlendingar í kringum lendingarstaðinn. Góð aðstaða er hins vegar þegar fyrir þyrlur að athafna sig yfir Fossvoginum og síðan Fossvogsdalnum. Í framtíðinni þarf frekar að gera ráð fyrir fleiri lendingarstöðum enda má gera ráð fyrir mikið auknu sjúkraflugi með þyrlum.

Fyrir þremur árum voru lagðar lagðir yfir 200 milljónir króna í endurnýjun og breytingar á Slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi og er aðstaðan þar nú til mikillar fyrirmyndar, þrátt fyrir mikið álag á starfsfólk vegna undirmönnunnar. Álag sem að miklu leiti er líka til komið vegna þess hve heilsugæslan hefur verið svelt á höfuðborgarsvæðinu og uppbygging sem hófst fyrir tæpri hálfri öld langt í frá að vera lokið. Þvert á móti, sem nú eru komnir í miklir og stórir brestir í. Í höfuðborginni Reykjavík og nágreni þar sem flestar lækningar fara fram orðið utan dagvinnu, á læknavöktum og bráðamóttökum. Bráðamóttakan á Landspítalanum við Hringbraut þar sem meðal annars er staðsett bráðamóttaka hjartadeildar, Hjartagáttin, er einnig nýleg og fullkomin og þar sem aðeins vantar meiri peninga og starfsfólk til að geta verið starfrækt allan sólarhringinn, öllum hjartveikum til mikils gagns. Eins hafa bráðamóttökur geðdeildar og bráðamóttöka barna á nýja Barnaspítala LSH verið endurnýjaðar nýlega og stækkaðar. Starfsemi sem stendur ágætlega að vígi fyrir nánustu framtíð. Starfsemi sem með tíð og tíma gæti síðan flutt í nýjan sameinaðan spítala í Fossvogi ef draumsýn mín rættist, en sem nú er útlit fyrir að verði eins og martröð ellinnar. Eða að minnsta kosti eins og slæmur draumur í dós.  (FÆRSLA UPPFÆRÐ 6.5.2012)

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn