Það er einkennilegt að vera staddur í uppáhalds stórborginni minni, New York á þessum degi. Borg sem ég hef oft heimsótt áður og sem hefur að mörgu leiti verið tákngervingur hins vestræna heims og alþjóðlegri en flestar aðrar, að minnsta kosti í mínum huga. Þar sem þú getur gengið á milli ólíkra menningarheima og flestir finna eitthvað við sitt hæfi. Stóra eplið með alla sína grænu hliðar, en sem hvergi er að finna meira af stáli og steinsteypu. Borg sem er að sumu leiti eins og mauraþúfa þar sem milljónir ganga um strætin og bílaumferðin er hvergi meiri en gengur samt eins og ein vel smurð vél. Öll á iði, en samt svo regluföst og skipulögð. Stórborg sem aldrei þagnar og aldrei sefur. Borg sem hefur sinn sérstaka ilm sem samanstendur af öllu þessu, stóra eplið.
Fyrir ekki svo voðalega löngu síðan naut ég útsýnis úr öðrum tvíburaturnanna í World Trade Center og sem var meðal helstu kennileita borgarinnar. Í turni sem ásamt í bróður sínum þúsundir saklausra manna voru síðar drepnir í, í einni andrá fyrir 10 arum og sem voru bara að sinna sínum daglegu störfum, eins og þú og ég. Á degi sem við flest munum líka nákvæmlega hvað við sjálf vorum að gera og gátum sídan fylgst með í sjónvarpinu, eins og límd við skjáinn. Þegar tíminn fraus og heimurinn varð agnar smár. Þegar tvær af hæstu byggingum veraldar voru rústaðar í loft upp af yfirborði jarðar, með farþegaþotur að vopni.
Á sama stað, nú 10 árum síðar, er búið að reisa gosbrunna þar sem turnarnir stóðu og safn fyrir komandi kynslóðir að minnast. En ég hafði líka komið að rústunum nokkrum árum eftir árásirnar, kolsvörtu holunni sem þar var og sem turnarnir höfðu staðið áður. Byggingar sem voru taldar eitt af stórvikjum mannsins og minnisvarðar nútíma viðskiptalífs. Úr þeim efnum sem við töldum þau sterkustu, stáli og steypu. Tímabundinn minnisvarði hvað mannvonskan getur verið öflugt afl en ósanngjörn, ef hún fær tækifæri til að þrífast. En nú löngu síðar, líka sem breytst í jákvæðan minnisvarða um að önnur gildi eru sterkari og sem verða ekki auðveldlega sigruð. Hvað samstaðan er mikilvæg og að samkennd okkar mannanna er öflugast aflið þrátt fyrir allt. En það þarf engan minnisvarða úr stáli eða sterkari efnum fyrir eldri kynslóðirnar í dag í New York. Þeir minnast fyrst og fremst dagsins eins og hann var og hvernig hann getur orðið á morgun.
Aftur og aftur erum við hin minnt á í sögunni hvað er mikilvægast, en hvað fórnarkostnaðurinn getur verið mikill. Hrun á allskonar heimsmyndum og þegar við töldum okkur hafa verið í skjóli sem ekki var til. Eitthvað sem á eftir að gerast aftur og aftur í síbreytilegri mynd um leið og við þroskumst vonandi örlítið. Og vonum að heimurinn verði aðeins betri en hann var í gær.
Það var þungbúið í New York í dag og skýin dimm yfir höfuðborginni. Það rigndi og það mátti sjá tár á vöngum. New York breyttist fyrir 10 árum, líka til góðs. Fólkið er kurteisara og skilningsríkara hvort við annað. Meira eins og þar sem gamall góður þorpsandi ríkir. En það kostaði samt sára reynslu. En á morgun fer sólin aftur að skína, í borginni sem aldrei sefur, en grætur gærdaginn meira en flestar aðrar borgir gera í dag.