Sunnudagur 02.10.2011 - 11:27 - FB ummæli ()

D-vítamín í stað sólar

Blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur„. Sólin er grundvöllur lífs á jörðinni og okkar mesti lífsgjafi. En sólargeislunum er misskipt og sólin sést ekki alls staðar allt árið um hring. Á Íslandi sést hún lítið hálft árið og geislarnir oft ansi veikir og landinn því oft fölur. Framleiðsla D-vítamíns í líkamanum sem er okkur öllum svo mikilvæg er fyrir tilstuðlan sólargeislanna sem þurfa þá að skína á okkur og aðeins lítill hluti kemur úr fæðunni. En sem betur fer getum við líka tekið D-vítamínið inn í lyfjaformi til að hressa okkur og bæta.

Fyrr í vetur fjallaði ég um D-vítamínið og sterkar íslenskar konur. Upphaflega hugsanir sem kveiknuðu vegna hálkuslysanna og beinheilsu eldri kvenna á freðinni jörð. Einnig síðar undir fyrirsögninni “meðan fæturnir bera mig“ þar sem ungar konur hlupu hringinn í kringum landið til styrktar góðu málefni og til að minna á að heilsan er ekki alltaf sjálfgefin. Nú er veturinn hins vegar skammt undan og ég er enn sannfærðari en áður um nauðsyn D-vítamíns fyrir alla. Konur og karla, fóstur í móðurkviði og öll börn. Nauðsynlega þörf sem að mörgu leiti getur komið í stað sólargeislanna. Ekki síst á Íslandi sem annars hefur nóga orku til að hlýja okkur yfir veturinn. Vítamín sem snýr að flestum þáttum heilsunnar og sem eykur á alla vellíðan, ekki síst þá andlegu.

En lítum nú nánar á skuggahliðarnar og náttmyrkrið á norðrslóðum í beinunum. Lengi hefur verið vitað að íslenskar konur eru fremur kalkrýrar í beinum og þeim hætt við að styttast og brotna af minnst tilefni þegar þær eldast. Nýleg bresk rannsókn bendir til að meira en helmingur fullorðinna sé með of lágt D-vítamín og að 16% hafi alvarlegan skort yfir veturinn. Nýlegfinnsk rannsókn sýndi einnig að flest börn og unglingar þar í landi vantar D-vítamín í kroppinn. Faraldsfræðileg gögn hafa líka sýnt að D-vítamínskortur er einnig mjög algengur hjá öldruðum sem komnir eru með beinþynningu (osteophorosis) þar sem beinútlitið getur haldið sér þar til beinin brotna eða fá beinmeyru (osteomalacia) þar sem beinin aflagast. Fólk á öllum aldri getur hins vegar verið með skort. Þeir sem eru í mestri áhættu eru þeir sem eru allt of feitir, fólk af svörtum kynþætti en sem búa á norðlægum slóðum og sjúklingar með ýmsa meltingar- og efnaskiptasjúkdóma. Eins konur sem hafa átt mörg börn eða sem hafa haft börn lengi á brjósti.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað D-vítamínið er nauðsynlegt, líkamlega sem andlega. Ekkert síður fyrir vöðvana, taugakerfið og ónæmiskerfið en beinin sem mesta athyglin hefur beinst að hingað til. Skort sem auðvelt er að fyrirbyggja með reglubundinni inntöku. Jafnvel sjávarfangið okkar góða er ekki nóg og lýsið inniheldur aðeins takmarkað magn af D-vítamíni og sem nægir okkur í besta falli að hálfu leiti, þrátt fyrir allar góðu omega fitusýrurnar sem það inniheldur. Ekki heldur grænmetið og ávextirnir sem er hlaðið öðrum vítamínum og sem eru okkur líka lífsnauðsynleg.

Ekki er síst nauðsynlegt að passa upp á ungbörnin okkar, börnin og unglingana sem byggja þurfa upp og trygga góða heilsu fyrir framtíðina. Á tímum þegar jafnvel börnin okkar eru aftur farin að greinast með hörgulsjúkdóminn beinkröm (rickets)eins ogí gamla daga og þegar börn voru send í ljós. Ekki síður er þörfin hjá ófrískum konum sem eru að ala fóstrið sitt og reyndar hjá sjúklingum sem byggja þurfa upp það sem rifið hefur verið niður.

D-vítamínið virkar eins og fituleysanlegt hormón í líkamanum í forminu D3 (calcitriol) og D2 (calcidiol) og er nauðsynlegt fyrir eðlilegan kalkbúskap, upptöku á kalki úr meltingarveginum og til að bein geti kalkað eðlilega og beingerst. Það gerist eftir að það hefur verið virkað beturí lifur og síðar í nýrum (1-25-hydroxy-vítamin D3). Kalk leysist annars upp úr beinum okkar fyrir tilstuðlan klakhormóns (PTH) sem hækkar ef kalkið er lágt í blóði. Annar góður mælikvarði á ónógu D-vítamín er því hækkun á PTH. Kalkið er líkamanum líka mikilvægt í allskonar starfsemi og það því hirt hiklaust úr helsta forðabúrinu, beinunum okkar með tilstuðlan PTH.

File:Calcium regulation.pngUngar stúlkur eru í mestri áhættu á að líða fyrir D-vítamínskort síðar og að hlaða ekki nóg af kalki í beinin fyrir fullorðinsárin. Grunnur að beinheilsunni er lagður strax í barnæskunni og konur hafa í raun bara tímann til tvítugs að byggja upp megnið af sínum beinmassa og sem duga þarf þeim út lífið. Þær geta þó aðeins bætt í búið fram undir tíðarhvörf. Eftir það fer beinmassinn hins vegar hratt minnkandi og hættan á beinþynningu eykst með hverju árinu sem líður, jafnvel þótt kalkneyslan sé góð en síður ef D-vítamínneyslan er ónóg.

Algengasta sjúkdómsmyndin sem við sjáum dags daglega er beinúrkölkun hjá eldri konum sem kýtast saman, fá oft kryppu og brotna af litlu tilefni. En svo þarf ekki að vera. Verst er þegar konur liggja lágt í beinmassa strax við tíðarhvörfin og eins og áður segir og tapa síðan hratt kalki úr beinunum þegar kvenhormón (eostrógenið) vernda þær ekki lengur. Þegar greiningin liggur fyrir er þó oft reynt að gefa ákveðin lyf til að fyrirbyggja frekari beinþynningu en sem ná aldrei að bæta fyrir það sem tapast hefur. Konum í tíðarhvörfum er því ráðlagt að fara í beinþéttnimælingu (t.d Beinþéttnirannsóknarstofu LSH í Fossvogi) til að sjá hver beinmassi þeirra er. Ekki síst til að geta haft viðmið síðar og sjá hvort þær tilheyri þeim hópi kvenna sem missa hratt sinn beinmassa eftir tíðarhvörfin. Sú áhætta er mjög einstaklingsbundin og að hluta bundin í erfðir. Mjög feitar konur og eins grannar konur, sérstaklega þær sem reykja, eru almennt í meiri áhættu en aðrar.

Karlar eru ekki í eins mikill áhættu og hlaða meira upp af beini þegar þeir eru ungir enda þyngri, auk þess sem úrkölkunin gengur ekki eins hratt fyrir sig vegna verndunaráhrifa karlkynshormónsins fram eftir aldri. Dagleg D-vítamíninntaka er engu að síður nauðsynleg. Janfhliða D-vítamíninntöku er góð hreyfing nauðsynleg og kalkneysla sem samsvarar a.m.k. um 1200 mg á dag (tvö mjólkurglös).

Sl. vetur var mikið spurt um D-vítamínmælingar í blóði í kjölfar ágætis greinar í Læknablaðinu. Hver mæling á D-vítamíni í blóði kostar um 2.500 kr. Ef kona hefur ekki tekið inn D-vítamín yfir vetrarmánuðina að þá má fyrirfram gera ráð fyrir við að hún sé lág í D-vítamínmælingu. Niðurstaða mælingar er því oft fyrirséð og óþörf.  Annað gildir auðvitað ef verið er að leita skýringa á hinum ýmsu krankleikum sem rekja má e.t.v. til skortseinkenna. Ekki síst vöðvaslappleika, vöðvaþreytu og annarra sjúkdóma og ýmissa lyfjameðferða. En lítum nú aðeins nánar á ráðlagða skammtastærðir af D-vítamíni.

Í nýjum bandarísku leiðbeiningunum frá því í sumar er ráðlagt að D3-vítamín magn í blóði (25-hydroxy-vítamin D (25[OH]D)) haldist milli 40-60 ng/mL bæði hjá fullorðnum og börnum.  Samkvæmt tölum úr rannsókn sem birtist í Læknablaðinufyrir nokkrum árum er um þriðjungur fullorðinna Íslendinga undir 30 ng/mL en helmingi fleiri ef neikvæð fylgni við hækkun á PTH hormóni er notað sem viðmið yfir vetrarmánuðina sem samsvaraði engu að síður daglegri inntöku á D-vítamíni upp á 15-20 µg/dag (600-800 einingum). Ráðlagður dagskammtur af þorskalýsi fyrir fullorðna eru 10 ml. en sem innihalda aðeins 18,4 µg af D-vítamíni (735 einingar) og sem eru svipaðir skammtar og manneldisráð hefur hingað til ráðlagt og sem eru þá ekki nógu stórir.

Dagleg D3-vítamíninntaka þarf því að lágmarki að vera allt að helmingi hærri (um 2000 einingar) til að hægt sé að fyrirbyggja nokkuð örugglega skort og skortseinkenni. Síðan þyrfti að tvöfalda þá skammta (um 4000 einingar) við erfiðar aðstæður. Eins og t.d. þegar konur eru ófrískar og þegar sjúklingar þurfa að glíma við alvarleg veikindi enda lítil sem eingin hætta af ofskömtun á D-vítamíni þó skammtar séu hærri í skamman tíma. Alvarlegur D-vítamín skortur er hins vegar skilgreindur þegar 25[OH]D gildið fer undir 20 ng/mL og sem ætla hefur mátt að um 10% þjóðarinnar sé haldinn. Þá þarf mikið hærri skammta í byrjun til að hlaða líkamann upp af D3-vítamíni og bæta fyrir skortinn eins og greint var frá í greininni í Læknablaðinu í vetur. Ekki er hægt að ráðleggja of mikla inntöku af lýsi sem myndi þá innihalda allt of mikið af A-vítamíni og hættu á A-vítamíneiturun.

Hvernig væri nú að bæta sólargeislum við í lífið í vetur og taka inn D-vítamín daglega. Ekki veitir af á þessum verstu og erfiðustu tímum.

http://www.medscape.com/viewarticle/803417?nlid=31003_1048&src=wnl_edit_dail&uac=12227BT

Skortur á sólarljósi eykur hættuna á heilablóðfalli  Visir.is 10.2.2012

Hvað kemur í stað sólar? Samfélagið í nærmynd 11.10.2011 (viðtal)

Fréttir á Stöð 2, 16.10.2011

Síðdegisútvarpið á Rás 2, 20.10.2011

Kastljós 21.10.2011; viðtal við Dr. Michael Holick frá Boston University.

Þorskalifrin og hunang norðursins (23.10.2011)

Stóra „D“ málið (25.10.2011)

D-vítamín gegn veirusýkingum

http://www.laeknabladid.is/2004/1/fraedigreinar/nr/1515/

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/02/nr/4111

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/09/nr/4303

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2010/03/08/d_vitamin_mikilvaegara_en_talid_var/

Holick M. High Prevalence of Vitamin D Inadequacy and Implications for Health. Mayo Clin Proc 2006; 81: 353-73

Pearce S, Cheetham T. Diagnosis and management of vitamin D deficiency. BMJ 2010; 340: 142-7.

http://jcem.endojournals.org/content/early/2011/06/03/jc.2011-0385.abstract?rss=1

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn