Mánudagur 10.10.2011 - 21:49 - FB ummæli ()

Sagan öll

Það er ekki á hverjum degi sem við fáum að heyra sögunna alla, leyndustu leyndarmál sem því miður fá allt of oft að liggja niðri. Þegar fólk er hreinlega efins að sannleikurinn þoli dagsljósið. Ein slík saga sem sögð var í gærkvöldi skiptir þó mig og þúsundir annarra Íslendinga afskaplega miklu máli. Ekki síst þar sem hún er samofin örlögum okkar á margan hátt og kallar á uppgjör sem því miður verður ekki umflúið.

Það sem er mér efst í huga eftir viðtalið við gömlu skólasystur mína, hana Guðrúnu Ebbu, er djúpstæð sorg hvernig fyrir henni var komið en líka okkur á þessu litla landi. Um leið aðdáun á hugrekki hennar og þroska. Þó ekkert síður að sjá hvernig stofnun sem átt að halda að okkur hlýju þegar mest á reyndi í lífinu og kuldinn var mestur, brást. Ekkert síður í lífi barns með brotna sál eða sorgmætra syrgjenda sem þurftu á hvað mestri huggun að halda, en sem löngu síðar sýndi sig byggjast á fölskum tónum og forsendubrestum. Embættisverkum prestsins okkar margra, sáluhuggara, læriföðurs og loks biskups. Ekkert síður í endurminningunum þegar við samglöddust með okkar nánustu á merkum tímamótunum í lífi okkar eða barnanna okkar. Þegar við viljum geta litið um öxl og leitað eftir gleði eða huggun.

Séra Ólafur Skúlason var presturinn minn og faðir skóasystur minnar. Stúlku sem ég öfundaði á margan hátt að eiga svona lánssamann og glæsilegan pabba. Sem tók á móti okkur í sunnudagsskólanum og sagði svo skemmtilegar sögur af Jesús, eins og Guðrún sagði svo vel frá í gær. Sögur sem voru mér mikils virði í þá daga. Hluti af annarri sögu sem er ekki til frásagnar nú.

Síðan kennari í skólanum okkar og lærifaðir í fermingarundirbúningnum. Prestur sem lagði mér lífsreglur í heilan vetur, kenndi mér fagnaðarerindið og fermdi mig loks. Presturinn minn sem síðan gifti mig og skírði börnin mín. Allt þar til fyrir nokkrum árum að áleitnar spurningar fóru að vakna um góðu minningarnar. Ein af annarri, svo að lokum var ekki hægt að líta undan. Að því er virtist fyrir flesta nema yfirstjórn þjóðkirkjunnar, núverandi biskup og kirkjuráð. Sem neituðu að trúa með hjartanu og viðurkenna sannleikann. Allt til dagsins í dag og þrátt fyrir heila sannleiksnefnd á þeirra vegum, efast þeir enn í orðum. Sem neita að horfast í augu á gömlum sóknarbörnum séra Ólafs og gangast við trúnaðarbrestunum gagnvart þeim. Sóknarbörnum sem sjá hlutina í dag í allt örðu ljósi en áður. Þúsundir sem höfðu lagt allt sitt traust á herðar þeirra fulltrúa. Gagnvart heiðarleikanum og sannleikanum.

Guðrún Ebba er aðal sögupersónan í sögunni sinni sem hún sagði í gær. Hver mesti áhrifavaldurinn var í hennar lífi og sem lagði það nánast í rúst. Hvernig ömurlegustu hvatir í mannlegu eðli getur farið með börnin sín en hvernig sannleikurinn getur líka sigrað það versta að lokum. Með mölbrotið hjarta til þess eins að hjálpa öðrum sem komnir eru með brestina. Í þeirri von að fyrirbyggja megi aðra harmleiki á heimilunum og að fórnarlömbin fari ekki bara sína leið í gröfina, með brotna sál og brotinn líkama. Líka til að kirkjan standi að minnsta kosti í veginum að svo verði. Að kirkjan vinni að heilindum sóknarbarna sinna, fyrst og síðast. Að kirkjan sjálf læri að iðrast og starfsmenn hennar taki nú höndum saman til að byggja upp traust allra sóknarbarna sina. Sem byggir fyrst og fremst á góðum mannlegum tilfinningum og trausti. Svo við öll getum sagt söguna okkar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn