Halldór Fannar (f. 28.apríl 1948), tannlæknir og kennari við tannlæknadeild Háskóla Íslands til marga ára varð bráðkvaddur 15. febrúar síðastliðinn, aðeins 63 ára að aldri. Hann verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju á morgun.
Halldór var mikill mannvinur og gleðigjafi sem var nátengdur fjölskyldu minni og tannlæknir margra ættingja sinna og vina. Það kólnaði snögglega í hjartarótunum þann morgun sem fréttirnar bárust af fráfalli hans. Sársaukinn var nístingskaldur. Sorgin var líka mikil hjá yngra fólkinu og hann hafði annast svo vel, þegar það fékk loks fréttirnar. Af góðum frænda og tannlækni sem skyndilega var horfinn af jarðneskri braut. Það er ekki sjálfsagt að geta sameinað þetta tvennt eins vel og Halldór gerði. Þegar tengslin reyna á alla þætti mannlegra samskipta, faglegra jafnt sem fjölskyldulegra. Frásögurnar í mínum huga eru líka ófáar gegnum tíðina, alveg eins og faglegu handtökin í mínum munni, þegar maður sat í stólnum og var algerlega á hans bandi.
Á laugardaginn fórum við hjónin með gönguhópnum okkar í langa göngu á fjallið okkar, Esjuna. Í töluverðu frosti en yndislegu veðri. Halldór var stöðugt í huga mínum í göngunni, þótt hann tilheyrði aldrei þessum ákveðna hóp og gönguleiðin væri ný og framandi. Gamlar endurminningar streymdu fram, en með öðrum blæ en síðustu dagana á undan. Meðal annars þegar ég og konan mín gengum með honum einum fyrir mörgum árum, á hlýjum sumardegi um Stórurð undir Dyrfjöllum, upp af landi Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá . Nú var frost og kuldi í nýjum heimi upp af Eilífsdal. Þar sem fönn lá yfir fjöllunum og dalnum. Fannir upp í efstu kletta og nafnið Fannar fékk á sig skýra og lifandi mynd.
Fegurð náttúrunnar er stundum slík að það er eins og hún sé okkur mannfólkinu einu ætluð, á hvað árstíma sem er og hvar sem er. Rætur Halldórs lágu að mörgu leiti austur á Héraði, þar sem margar góðar sögur hafa orðið til. Halldór var enda mikill útivistarmaður og veiðimaður, sem unni landinu sínu og því sem það gaf af sér. Meðal annars á gæsaveiðum í frændgarðinum á Sandbrekku. Þar sem nýlega er fallin frá góður vinur hans og frændi, Geirmundur Þorsteinsson, bóndi, bróðir tengdamóður minnar Jóhönnu, og sem alltaf var svo gott heim að sækja.
Á ættarmótum var Halldór hrókur alls fagnaðar, með gítarinn sinn í hönd. Listamaður sem kom öllum í kringum sig í gott skap um leið og hann tók lagið með hárri rausn. Hæfileikar á því svið leyndu sér ekki enda var hann einn af stofnendum Río Tríó sem glatt hefur alla þjóð síðan, þótt sjálfur hafi hann orðið að hætta snemma í hljómsveitinni vegna anna og náms. Tóninn leyndi sér þó aldrei hjá Halldóri og hann hélt ávalt tryggðarböndum við gömlu félagana sína. Stutt er hins vegar síðan hann kvaddi þar æskufélaga frá því í Kópavogi í gamla daga, Ólaf Þórðarson, tónlistarmann. Sennilega gat Halldór ekki grunað hvað stutt væri á vinafund við áðurnefnda tvo góðvini sína, handan móðunnar miklu og sem hann hafði kvatt svo vel í vetur.
Okkar sameiginlga æviganga hefur staðið yfir í tæpa fjóra áratugi. Þótt tennurnar sem hann annaðist vel séu ennþá hvítar, og tanngarðarnir minni stundum á skörðótt og tindótt fjöll í mínum munni, eru tennur ekki það sem maður hugsar mest um á tímum sem þessum. Á gönguferð um fjöllin. Sá samanburður skaut þó engu að síður upp kollinum þegar kulið kom á vangann í þetta sinn. Fjallgangan á laugardaginn var engu að síður einstök. Nýtt útsýni á eins og gamalkunnum slóðum. Í vetraríki fjallanna á Íslandi. Þegar maður lét sig líka dreyma um hlýju og græna litinn að vori, um leið og meðan maður naut klakabrynjunnar og allra svellbungnanna. Snjódrífunnar og allra fannanna um stundarsakir, enda ekkert annað í boði. Sem minnir okkur á úr hverju við erum gerð, þrátt fyrir allt og að veturinn er jafn sjálfsagður og sumarið. Bestu kveðjur vinur og innilegar samúðarkveðjur til barnanna þinna, móður og allra þinna nánustu ættingja og vina.