Síðastliðna mánuði hefur umræðan fyrir utan stjórnmálakreppur og landsdóm vegna hrunsins þar sem allir virðast jafn saklausir, snúist m.a. um ógnvænlegar staðreyndir um heilsuleysi þúsunda kvenna sem eru með misleka brjóstapúða. Sem þjóðfélagið hefur í raun ekki getu eða burði til að meðtaka ofan á allar aðrar hörmungar og þess sem misfarist hefur í okkar þjóðfélagi sl. áratugi. Hundruð kvenna með varanlegt heilsutjón og jafnvel örkumlun vegna brjóstaíhlutana á vitlausum forsendum. Þar sem gengisáhættan var talin í örfáum prósentum á líftíma púðanna og sem áttu jafnvel að endast út lífið, en sem byrjuðu að leka í tugprósenta tilfella á innan við áratug. Sem síðan eitra út frá sér í umhverfið með bólgum og stífla kirtla og sogæðakerfið. Með allskonar óljósum einkennum og verkjum, enda virðist bæði skel og innihald tærast upp að stórum hluta og safnast upp annars staðar. Eitt er víst, eins og komið hefur í ljós í svo mörgu öðru, að vandinn gufar ekki bara upp og hverfur.
„Guð“ einn ætti sennilega að vita best hver vandinn er mestur í þjóðfélaginu og hvar allt sílikonið liggur, en við sjálf lokum augunum eða bítum á jaxlinn. Hin saklausa, unga og hrausta víkingaþjóð. Sama, hvað á gengur og þannig hefur það alltaf verið. Sjálflæg þjóð en svo fyllilega sjálfstæð. Þar sem að því er virðist æviráðinn forseti dásamar þjóð sína við öll tækifæri. Hvað við séum frábær og góð. Líka heilbrigðiskerfið á sama tíma og heimilislækningarnar eru látnar þynnast út á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þó um daglegar áhættur eins og með vinsælu brjóstapúðaígræðslurnar og sem aldrei væru teknar ef um aðrar læknismeðferðir væri að ræða og þaðan af síður ef litið er til öryggis lyfjameðferða almennt talað. Til dæmis eins og við höfum verið að ræða, þar til nýlega, tengt p-pillunotkun ungra en ekki alltaf svo saklausra íslenskra stúlkna og sem horfa stutt fram á veginn. Með hinu tilbúna dagatali þar sem við seinkum eða flýtum nútímanum að vild og tryggjum þeim sem mest öryggi, ef vel er staðið að málum. Líka hjá tugþúsundum ungra kvenna á ári hverju, og þannig hefur það lengi verið.
En vitleysan hefur aldrei verið meiri, vegna óupplýstar umræðu á landinu góða. Ekki síst eins og sést í brjóstapúðamálinu öllu og sem með sama áframhaldi stefnir í að snerta líka tugþúsundir kvenna og óbeint börn þeirra og okkar allra auðvitað í framtíðinni. Nú einnig á allt annan hátt tengt ungri kynímynd, með ómarkvissari en auknu aðgengi að getnaðarvarnarhormónum og þá ólíkum og nýjum aukaverkunum ef nýtt frumvarp velferðarráðherra verður að veruleika. Þar sem ganga á fram hjá bestu þekkingunni á lyfjaávísununum, hvað tilheyrir best hverjum líkama og sem tilheyrir fyrst og fremst læknisfræðinni. Með hugsanlega þá minni notkun á smokknum og hugsanlega aukningu á allskonar kynsjúkdómum. Eitthvað sem heilbrigðiskerfið allt situr uppi með að lokum og við öll borgum fyrir. Fyrir rest eins og alltaf þegar kemur að skuldadögunum og við höfum séð svo oft áður að undanförn. Jafnvel í þróun sýklalyfjaónæmis sem ég hef mest rannsakað með félögum mínum. Mest þar sem heilsugæslan er mest svelt og útþynnt, síðan í öllu þjóðfélaginu.
Akkúrat í dag snýst málið hins vegar mest um ungu íslensku stúlkurnar sem margar vilja „hugsanlega“ byrja að stunda fyrr kynlíf en við sem eldri erum teljum æskilegt. Jafnvel án vitundar foreldranna og sem geta jafnvel óskað eftir getnaðarvarnahormónum hjá skólahjúkrunarfræðingunum í grunnskólunum eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu. Lyfjameðferð sem getur haft mikil áhrif á allt þeirra líf og afar mikilvægt er að standa eins vel að málum og kostur er í byrjun. Jafnvel lífshættulegar aukaverkanir og sem ég læt alltaf vita um þótt sjaldgæfar séu. Nú líka um óskir ungra kvenna að fá brjóstapúða, ekki síst eftir fyrsta barn og svo rækilega er búið að kynna fyrir þeim í fjölmiðlunum sl. misseri. Sem við öll höfum samþykkt með þögninni. Hvað er eiginlega að þjóðfélagi sem þarf mest á þessum umræðum að halda? Af illri nauðsyn, vanþekkingu og ef til vill sakleysis þjóðarinnar.