Mánudagur 26.03.2012 - 14:09 - FB ummæli ()

Flugþjónar í flugstjórnarklefann?

Myndlíkingar geta verið góðar í umræðu sem er á villigötum, til að almenningur og stjórnvöld skilji málin betur. Í gær flaug ég heim frá útlöndum. Mér var hugsað til samferðamannanna á leiðinni, eins og oft áður í slíkum ferðum og þegar tíminn er allt í einu nógur. Vélin var full af fólki sem segja má að hafi verið einskonar þverskurður af þjóðfélaginu í þessari sögu. Fólk á öllum aldri. Þjónustan um borð var ágæt og allt gekk nokkuð vel fyrir sig. Flugstjórinn kom líka með sínar tilkynningar í hátalarakerfið eins og vera ber og varaði við ókyrrð í lofti tvisvar á leiðinni og bað farþegana að spenna beltin. Lendingin var síðan óaðfinnanleg. Allir komust öryggir í höfn. Þökk sé góðri flugvél en ekki síður góðum flugmönnum. Nokkuð sem ég gekk reyndar að þegar ég pantaði flugfarið upphaflega. Sennilega hefði annað verið upp á teningnum ef ég hefði vitað að flugþjónarnir yrðu látnir fljúga í þessari ferð og fyrst og fremst ætti að treysta á sjálfstýringuna. Jafnvel þótt sumir flugþjónanna væru komnir með sólópróf í flugi. Flugstjórar á stórum flugvélunum eru einfaldlega menntaðir og þjálfaðir til þessara verka og flugþjónar til annarra, þótt allir vinni síðan að sama markmiði. Að gera flugferðina örugga og um leið ánægjulega.

Meira þá um staðreyndirnar í heilbrigðiskerfinu og sem myndlíkingin í sögunni er dregin af. Um lyfjamál landans sem mörgum finnst nóg um þessa daganna en vefst fyrir öðrum og sem mikið hefur verið í fréttum. T.d. um mikla notkun sýklalyfja og svefnlyfja sem hefur í för með sér alvarlegan samfélagslegan vanda og oft hefur verið varað við. Sýklalyfjaónæmi og aukningu á slysatíðni í umferðinni. Þróun sem hefur átt sér stað í mörgum löndum og veruleg ógn stendur af. Þegar ekki tekst að meðhöndla jafnvel einfaldar sýkingar á öruggan hátt og þar sem svefn og verkjalyf eru algengari orsök slysa í umferðinni en sjálft áfengið. 

Nú stendur til með nýju frumvarpi velferðarráðherra að stefna markvist á að auka aðgengi og ávísanir á hormónagetnaðarvarnarpillur til ungra kvenna til að draga úr ótímanbærum þungunum. Jafnvel í grunnskólum landsins og heimila jafnvel skólahjúkrunarfræðingum að ávísa á lyf sem geta haft ýmsar frábendingar og jafvel hættulegar aukaverkanir í för með sér og sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa ekki grunnþekkingu í, í námi sínu. Einfaldlega þar sem þessar starfstéttir eru ekki menntaðar sem læknar í læknisfræði. Í sjúkdómafræði og lyfjafræði meðal annars til margra ára. Frumvarp sem var unnið að  á síðustu metrunum án aðkomu lækna til að fá lyfjaávísanaréttinn í gegn. Hvað er að þessari þjóð? Er stefna heilbrigðisyfirvalda virkilega að slaka á öryggri notkun lyfja og þynna heimilislæknaþjónustuna enn frekar á höfuðborgarsvæðinu? Eða útvatna hana jafnvel alveg? Væri ekki nær að nýta hjúkrunarfræðingana betur til ráðgjafar um getnaðarvarnir almennt og kynheilsu eins og frumvarpið fjallaði um í grunninn. Í meðförum undirbúningsnefndarinnar þar til á síðustu metrunum. Eins og með aðra ráðgjöf sem brýtur nú enn og aftur á og er til umfjöllunar. Þ.e.um svefnvanda okkar Íslendinga og sem felst allra síst í að skrifa upp á meira af svefnlyfjum. Að læknarnir ákveði meðferðina í byrjun og lög gera ráð fyrir til ákveðins tíma, en hjúkrunarfræðingarnir hjálpi til með ráðgjöf og stuðning í kjölfarið eða jafnvel áður. 

Fjölga þarf  í starfstétt heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikil undirmönnun á sér stað, ólíkt ágætri mönnun í hjúkruninni. Sérstaklega til að læknar geti unnið betur eftir alþjóðlegum stöðlum í heilsugæslunni og við erum í raun skuldbundin til að gera sem nútímanleg vestræn þjóð. Að skyndiúrlausnirnar og ómarkvissar lyfjaávísanir takmarkist sem mest, en sem því miður hafa fengið að þróast allt of lengi af illri nauðsyn og fyrirhyggjuleysi stjórnvalda hér á landi sem oft hefur verið bent á. En hvernig vilja stjórnmálamennirnir og þá stjórnvöld sjá heilsugæsluna þróast með tímanum? Með eða án læknanna? Væntanlega þó að færri óvelkomin börn fæðist í heiminn og að við komust sem flest í örugga höfn að lokum. Með samvinnu, samráði og skynsemina að leiðarljósi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn