Þriðjudagur 15.05.2012 - 11:02 - FB ummæli ()

Nútímavíkingar og útlitsútrásin

Vegna frumsýningar á þættinum hans Sölva Tryggvasonar, Málið í gærkvöldi á Skjá 1 þar sem fjallað var um útlitsdýrkun og m.a. var viðtal við undirritaðan um brjóstapúðamálið margfræga, vil ég endurbirta pistil minn um „málið“ frá því apríl aðeins lagfærðan, lesendum vonandi til betri glöggvunar á þessum nýja lýðheilsuvanda Íslendinga og sem þjóðin öll og heilbrigðiskerfið þarf nú að glíma við.

Fyrir tæpum tveimur árum fjallaði ég líka um aðkomu íslenskra fjölmiðla að ókeypis kynningu á bróstastækkunum, þar sem gefið var í skyn að þær þættu sjálfsagðar m.a. hjá ungum konum eftir fyrsta barn og þegar brjóstin létu á sjá eftir hlutverk sitt, meðgönguna og brjóstagjöf. Sennilega eru þessar offarir og ýmsar aðrar fegrunaraðgerðir sem ég fjallaði þá um, komnar langt út fyrir allt velsæmi og hugmyndafræði læknisfræðinnar, að minnsta kosti eins og ég lærði hana. Þar sem lágmarkskrafan var að gera sjúklingnum aldrei meira ógagn en gagn, til skemmri og lengri tíma litið. Sérstaklega saknaði ég í þættinum hans Sölva í gærkvöldi að meira væri fjallað um þátt fjölmiðlanna sjálfra í þessari þróun útlitsdýrkunar hér á landi og sem virðist hafa náð miklu lengra en hjá nágranaþjóðunum, eins og reyndar í svo mörgum öðrum „málum“ hér á landi undanfarin ár.

Lengi var hetjudýrkun ástunduð meðal þjóðarinnar og litið til fornsagnapersónana með lestri. Sem sumir í dag telja reyndar að hafi ekki alltaf verið heilar á geði, en sem gætu engu að síður samsvarað sér vel í nútímanum, á hinum ýmsu vígstöðum. Taumlaus útlitsdýrkun á sjálfum sér er hins vegar seinna tíma mál og þegar við viljum þykjast vera aðrir en við erum. Karlmannlegri ímynd ungra karla og kvenlegri ímynd ungra kvenna eins og sjá má í teiknimyndafígúrum eða afskræmdum fegurðar- og fitness keppnum. Takmarkanir þessara ímynda eru fáar og sem ná ekki síst til kynímyndarinnar og vöðvafíknar. Að sýnast sem „girnilegust“ fyrir hitt kynið. Útblásin brjóst kvenna eiga sér þannig engin takmörk í tíma eða rúmi, enda eiga þau brjóst rætur að rekja til kynlífsiðnaðarins úti í hinum stóra og villta heimi. Sem sumir telja eitt gleggsta dæmið um flótta nútímamannsins frá fjölskylduveröldinni og sem leiðir hugann óhjákvæmilega að úrkynjun sem þekktastar eru fyrr í sögunni þar sem siðferðisvitund í þjóðfélögum hnignar hratt. Í hrópandi andstöðu við þjóðfélagsgildin okkar ekki svo ævagömlu og góðu.

Alvarlegra er, þegar lýtalæknar, félagar mínir eltast við hégómann, langt út fyrir mörk læknisfræðinnar eins og ég lærði hana. Þegar normið er smá saman að verða spegilmynd „áskapaðs“ sýndarraunveruleika með hjálp fjölmiðla og sem hefur ómæld áhrif á börn og ungmenni. Sem eru að alast upp í okkar umsjón og telja síðan að ekkert sé ómögulegt með hjálp læknavísindanna. Ekki síður tísku- og afþreyingariðnaðinum, sem svo sannarlega reynir að skapa ímyndirnar. Á einu stærsta markaðstorgi í hinum vestræna heimi. Sem að mörgu leiti er komið í stað gömlu góðu bókarinnar og við áttum okkar hetjur ú huganum eingöngu. Þar sem ímyndunaraflið eitt fékk lausan tauminn. Nú er hugsunin hins vegar orðin ansi sjálfhverf og jafnvel ungum konum er leiðbeint að eftir fyrsta barn megi áskapa ný brjóst með gervifyllingum. Til að halda ávalt hinni upprunalegu ásýnd og gott betur.

Fáir efuðust um alvarleika PIP málsins svokallaða, ísetningu gallaðra og jafnvel eitraðara íhluta í brjóstin hjá tæplega 450 íslenskum konum á besta aldri og sem upp komst um áramótin. Í glæpamáli aldarinnar sem tilheyrir læknisfræðinni á heimsvísu og upplýsti í raun svo miklu stærra vandamál sem hafði verið falið lengi. Ekkert síður hér á landi. Jafnvel þótt flest fórnarlömbin vilji nú fara huldu höfði, enda komin á blindgötur og engin góð úrlausn í boði en að fá nýja púða. Þar sem erfitt var að taka það sem áður hefur verið gefið. Málefni sem fjölmiðlarnir sjálfir eru líka feimnir að ræða um. Að allir þeir púðar sem konur í „góðri trú“ fengu undir húð eða vöðva, endast að jafnaði ekki nema í nokkur ár, en ekki út ævina eins og kynnt var í upphafi. Farnir að leka jafnvel í prósentuvís strax á fyrsta ári og skelin að skorpna. Sílikon sem síðan fer á flakk og veldur fyrst staðbundnum bólgum og sýkingum, skemmir síðar vöðva, bein og önnur líffæri.

Ný þekking er skyndilega orðin til, sem þó er enn í mikilli mótun og allskonar nýjar upplýsingar hlaðast upp. Nýyrði eins og sílikon eitlar, sílikon snjókoma í holhöndum og jafnvel sílíkon brjóstverkir eru orðin algeng hugtök á íslenskri tungu. Verkir sem geta jafnvel verið erfitt að greina frá alvarlegustu brjóstholsverkjunum og hjartaverk. Enda gráta oft púðarnir ekkert síður en sálin. Ekki síst síðustu mánuði eftir að umræðan opnaðist loks og öll vandamálin tengt ásköpuðu brjóstafyllingum varð berskjölduð. Þökk sé umræðunni um hið ljóta PIP-mál.

Þúsundir kvenna leita upplýsinga um ástand sitt nú, en mismikið eftir hvað þær eru sjálfar upplýstar og hvað hver og ein kona afneitar vandanum mikið. Konur sem til dæmis hafa haft samband við Krabbameinsfélagið og óskað eftir ómskoðun af brjóstum sem fyrst til að útiloka leka og sem gæti verið að valda þeim heilsuvanda. Eins til að útiloka það versta, þegar óvænt fyrirferð eða bólga finnst í brjósti eða holhönd. Óskir sem félagið getur engan vegin orðið við vegna anna og of lítilla tengsla við brjóstakrabbameinið. Ógn sem allar konur hræðast þó mest.

Konurnar verða því að leita annað. Til lýtalæknanna sinna og heilsugæslunnar þar sem þó engin sérþekking er til staðar og allar verklagsreglur sárlega vantar. Þar sem læknarnir ráða ráðum sínum hver við annan í örvæntingu, enda óttast þeir alltaf afleiðingar af því óþekkta. Í veröld þar sem læknar verða bara að fara eftir sannfæringu sinni og sínu eigin „brjóstviti“. Eins og víkingarnir sem sigldu á höfunum til forna. En nú í leit að öllu sílikoninu sem er horfið úr brjóstum kvennanna. Stundum með blóðrannsóknum til að kanna möguleg mengunaráhrif. Líka vegna skorpinna brjóstskelja sem stundum virðast hafa gufað að mestu upp, í hitanum og ólgunni í líkama kvennanna um árabil.

Enginn veit samt hvað konurnar eru í raun margar, hvert þær stefna og hvaða tegundir af brjóstapúðum hver og ein ber, nema auðvitað lýtalæknarnir sem settu púðana í, í upphafi og sem sumir eru jafnvel horfnir af sjónarsviðinu. Þó er vitað að fjöldi brjóstapúðaísetninga hefur nálgast 1000 á ári sl. ár og að konurnar hljóti því að nálgast tugþúsundið. Sennilega fylla þær í dag meira en tuginn í prósentu talið fyrir ákveðna aldurshópa. Bombur framtíðarinnar í heilbrigðisgeiranum á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar.

Afar brýnt er auðvitað að kallað sé eftir nákvæmum upplýsingum sem allra fyrst til að kortleggja vandann sem heilbrigðiskerfið þarf óhjálkvæmilega að takast á við á næstu árum. Á hvaða aldri í lífi kvenna þær fá fyrstu púðana, fjölda ára frá aðgerð, barneignir og brjóstagjafir með púðana í brjóstum, hvernig eftirliti með púðunum hefur verið háttað hingað til og hvernig eftirlitið verður ráðgert í framtíðinni. Ekki síst til að ungar konur geti áttað sig á áhættunni sem þær taka þegar þær ákveða að fá brjóstapúða í fyrsta skiptið og ekki verður aftur snúið. Með upplýstri ákvörðun, enda gömlu ráðleggingar eins og fram kemur í upplýsingabæklingi Landlæknis frá árinu 2002 löngu úrheltar. Ákvörðunin að landlæknir fengi að kalla eftir þessum grunn upplýsingum strandaði hins vegar á sjálfri Pesónuvernd og sem úrskurðaði að beðni Læknafélags Íslands „að ekki væri nauðsynlegt að kalla eftir þessum upplýsingunum því þær varði ekki líf og heilsu kvennanna.“ Sjaldan hefur maður heyrt nokkuð eins fjarstæðukennt og sem er í raun makalaust álit frá opinberri stofnun sem á að vera vakandi fyrir hagsmunum einstaklingsins, ekkert síður en samfélagsins. Í stofnun þar sem lögfræðin og læknisfræðin fara greinilega illa saman.

Á sama hátt og við viljum taka á öðrum lýðheilusvandamálum í dag og sem hafa verið skilgreind sem slík, eins og t.d. tóbaksreykingum sem sannarlega skaða heilsuna, verðum við að takast á við brjóstapúðamálið allt eins og það leggur sig. Hvað sem Persónuvernd kann að finnast um vandann. Jafnvel með löggjöf eins og nú er verið að vinna að á Alþingi og Velferðarráðuneytið er að beita sér í þótt hægt gangi. Að eftirlit með umfanginu verði að minnsta kosti mögulegt. Síðar með betri kortlagningu á hinum raunverulega heilsuskaða og fyrirbyggjandi ráðstöfunum fyrir ungar konur í dag. Að ákvarðanir verði byggðar á bestu þekkingu og eðlilegu siðferðislegu mati og normi.

Stærsta spurningin sem þó brennur í mínum huga í dag er aðkoma heilsugæslunnar. Hvað á að ráðleggja öllum konunum og hvernig í ósköpunum á að rannsaka allar þær þúsundir kvenna sem eru nú með hugsanlega leka brjóstapúða, í óljósu magni, af ólíkum gerðum, og óljósum tegundum? Þar sem þöggunin ríkir og læknisfræðin virðist hafa gert meira ógagn en gagn. Með nýjum ásköpuðum lýðheilsuvanda sem við sjáum fyrir okkur um langa ókomna tíð. Og síðan verðum við sjálf dæmd, kannski eftir 1000 ár, nútímavíkingarnir í dag, bæði konur og karlar. Vonandi eigum við þá einhverja samsvörun við framtíðina og að ekki verði skrifað of illa um okkur.

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/03/01/nytt-og-flokid-heilbrigdisvandamal-medal-thusunda-kvenna-a-islandi/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/02/27/vonsviknar-konur-og-brostnir-brjoststrengir/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/02/14/hvad-eru-ungar-stulkur-ad-hugsa-i-dag/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/01/02/einn-staersti-skandall-sidasta-ars/

 http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2010/02/26/brjostastaekkun-a-stod2/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn