Föstudagur 11.05.2012 - 16:50 - Lokað fyrir ummæli

…og höfuðbúnaðurinn sem við viljum ekki þurfa að nota.

Í sjálfu sér er eins og að bera í bakkafullan lækinn að ræða um öryggið sem reiðhjólahjálmur getur veitt. Slík er umræðan búin að vera um reiðhjólaslysin á undanförnum áratugum, líka hér á landi og slysatölurnar sýna svo vel. En einhverja hluta vegna geta sumir ekki skilið vandann eða vilja ekki. Gegn því sjálfsagða að nota reiðhjólahjálma, alltaf og bera fyrir sig ógn gegn einstaklingsfrelsinu og óþarfa boðum og bönnum. Á svipuðum nótum og barist var gegn bílbeltanotkuninni sem varð aldrei almenn og sjálfsögð fyrr en með lögleiðingu. Hvort sem okkur líkaði þá betur eða verr. En nú efast enginn og það þykir sjálfsagt að spenna beltin um leið og við setjumst inn í bílinn. Okkar vegna og barnanna.

Helstu rökin sem þeir beita sem eru á móti lögleiðingu reiðhjólanotkunar fullorðinna er að með því sé verið að draga úr áhuga á hjólreiðum og heilsuseflingu og að hjálmurinn sé skilaboð um að það sé svo hættulegt að hjóla. Eins að ef hjólreiðarmaður noti hjálm að þá sé minna tillit tekið til hans í umferðinni og að hann skapi sér jafnvel meiri hættu en ef hann væri hjálmlaus. Þetta má lesa m.a. í grein Pawels Bartoszek í Fréttablaðinu í morgun. Í raun þarf ekkert að segja meira um þessi rök, þau dæma sig sjálf en ég vona að þessi sjónarmið sem þarna koma fram séu fyrst og fremst vegna skammsýni greinahöfundar og annarra sem kunna að vera á sömu skoðun. Hjólreiðar aukast auðvitað ef vitað er að öryggis er gætt, í umferðinni með fræðslu og tillitsemi og ekki síst aðgangi að lágmarks öryggisbúnaði. Einkum vegna höfuðsins sem er verst útsett fyrir alvarlegustu slysin á reiðhjóli, ekki síst meðal barna.

Meirihluti þeirra eða 12 einsaklingar sem slösuðust alvarlega í reiðhjólaslysum árið 2010, voru ekki með hjálm. Margfalt fleiri duttu og fengu minna alvarlega áverka sem amk. talið var í fyrstu, þar af margir höfuðhögg. Í því sambandi er ekki síst áhugavert að líta til tengsla höfuðhögga og minnihátta breytinga sem geta orðið við mar á heilavef „minimal brain injury“. Varanlegar afleiðingar sem geta komið fram varðandi færni og þroska barna eftir tiltölulega lítil höfuðhögg og sem jafnvel ekki er endilega komið með til læknis, en sem getur valdið hegðunarvanda og skert færni barna og jafnvel fullorðinna síðar. Nokkuð sem reiðhjólahjálmar stórlega draga úr hættu á en sem jafnvel ein lítil steinvala á malbiki getur valdið.

Til að hjálmanotkunin verði almenn er sjálfsagt að lögleiða hana eins og gert var með bílbeltin 1981. Að gefnum tilefnum og þar sem málið er í sjálfu sér svo einfalt. Eitt er þó víst að aðrir hjámar með stálplötu í höfuðkúpu og spengingu við bein til að verja það sem eftir er af heilavef eru ekki flottir. Og allir eru sammála að slíkur hjálmur eykur ekki öryggið í umferðinni. Höfuðbúnaður sem við viljum helst ekki sjá, en neyðumst þó öll til að veita athygli. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.

http://www.brainline.org/content/2008/07/behavioral-considerations-associated-traumatic-brain-injury.html

http://www.brainline.org/content/multimedia.php?id=4434

http://us.is/Apps/WebObjects/US.woa/wa/dp?detail=12599&name=frett_ny

http://www.brainline.org/content/2011/04/bicycle-safety.html

http://www.brainline.org/content/2009/06/facts-about-concussion-and-brain-injury.html

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/05/31/hjalmar_geta_klarlega_bjargad_lifi_folks/

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/einar-bardarson-vard-fyrir-bil-a-hjoli-sinu-vaeri-ekki-til-frasagnar-hefdi-eg-ekki-haft-hjalm

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn