Þriðjudagur 08.05.2012 - 13:52 - Lokað fyrir ummæli

Allir með eitthvert vit í kollinum..

…eiga að nota hjálm við hjólreiðar og sem skiptir „höfuðmáli“ ef högg kemur á höfuðið við fall. Þetta hélt maður reyndar að allir vissu þótt umræðan á síðustu árum hafi stundum verið villandi í baráttu þeirra sem berjast gegn lögleiðingu reiðhjólahjálmanotkunar fullorðinna. Umræða sem hætt er við að snúist upp í andstæðu sína og verði sem vatn á millu kærulausra foreldra sem bera engu að síður ábyrgð á lífi barna sinna og unglinga og eiga að vera þeim góð fyrirmynd. Ekki síst þegar koma má í veg fyrir alvarlegustu höfuðslysin þeirra með notkun hjálma. Eins allra annarra sem kunna að hafa minni fyrirhyggju fyrir sér og sínum, einhverja hluta vegna.

Fátt er jafn ömurlegt eins og að taka á móti hjólreiðamanni á Slysa- og bráðamóttöku með höfuðáverka og sem notaði ekki hjálm. Þegar spurðar eru ótal spurninga hvers vegna og hjálmurinn hefði getað bjargað svo miklu. Þegar einhver dettur óvænt á hjóli og höfuðið fer alltaf fyrst niður. Þar sem höfuðhöggið jafnvel við fall á hjól á lítilli ferð getur auðveldlega valdið varanlegum heilaskaða.

Á þetta vorum við nýlega minn með ágætri grein Aðalheiðar Daggar Finnsdóttur sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku. Þar greindi hún frá höfuðslysi sem systir hennar varð fyrir á hjóli. Höfuðhögg sem olli heilaskaða sem hjálmur hefði líklega getað fyrirbyggt eða dregið mikið úr. Hjá stúlku sem missti hreyfigetu í vinstri fæti ásamt sem tap er á sjón og einbeitingu. Í sama blaði fyrir ári var líka viðtal við Láru Stefánsdóttur um hörmulegt hjólaslys systur hennar árið áður. Annarrar ungrar stúlku sem hlaut mjög alvarlegan heilaáverka og sem hafði venju vant, ekki verið með hjálminn sinn þegar hún datt á reiðhjólinu sínu og rak höfuðið í gangstéttarbrún. Umræða sem því miður virðist alltaf þurfa að taka upp í byrjun hvers sumars og sem mikið var fjallað um á blogginu mínu í fyrra. Þegar afskaplega erfitt getur reynst að vera vitur eftir á enda gera slysin aldrei boð á undan sér, hversu varlega sem maður annars fer. Allra síst reiðhjólaslysin.

Samkvæmt talningu VÍS sem nýlega kom fram í fréttatilkynningu frá þeim, notuðu aðeins 74% hjólreiðamanna hjálm, samanborið við þó 83% í fyrra á höfuðborgarsvæðinu. Þar sagði líka að áberandi færri unglingar noti hjálm en fullorðnir og börn. „Brýnt sé líka að hjálmurinn sé í lagi og notaður rétt, þar sem rangt stilltur hjálmur eða of gamall veitir falska vörn. Líftími hjálma sem ekki verða fyrir hnjaski er alla jafna 5 ár frá framleiðsludegi og þrjú ár frá söludegi.“ Jafnframt var bent á hvað það sé mikilvægt að hjólreiðamenn fari alltaf eftir umferðarreglum og gæti þess að vera sýnilegir í umferðinni.

Flest börn og fullorðnir líka eru ryðguð á hjólunum sínum nú í byrjun sumars eins og reyndar mörg hjólin sem eru misgömul og oft langt frá því þau voru notuð síðast. Mörg ósmurð og bremsur og annar öryggisbúnaður ekki alltaf í fullkomnu lagi. Margir fara full geyst miðað við aðstæður. Allt staðreyndir sem gott er að hafa í huga þegar umræðan snýst um að bera okkur saman við þjóðir þar sem hjólreiðar er hversdagslegur viðburður frá blautu barnsbeini.

Í hjólalandinu Danmörku t.d. þar sem flestir eru hjólandi allt árið um kring og hjólabrautir út um allt, hefur verið ákveðin tregða að sérstklega fullorðnir noti hjálma. En nú er að verða mikil breyting á eins og sagt var frá í fréttum í fyrra á netsíðu danska umferðarrásins Rådet for Sikker Trafik. Á aðeins 2 árum hafði hlutfall fullorðinna sem notuðu hjólahjálma aukist um 10% og notuðu um 25% fullorðinna hjálma árið 2010 að staðaldri í Danmörku á móti 15% árið 2008. Árið 1993 var hlutfallið hins vegar aðeins um 4%. Rannsóknir í Danmörku hafa enda sýnt að fækka megi verulega alvarlegum heilaáverkum fullorðinna, eða um allt að helming með því einu að nota reiðhjólahjálma. Meiri skilningi almennings á slysavörnum og betri hönnun á hjálmunum sjálfum er þakkaður þessi árangur.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/05/31/hjalmar_geta_klarlega_bjargad_lifi_folks/

Hjálmurinn sem bjargaði líklega lífi Kjartans. (Ljósmynd/Kjartan Sverrisson mbl)

Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU) á Íslandi sagði líka í sinni umsögn í fyrra að rannsóknir sýndu að 75% banaslysa hjólreiðafólks verði vegna höfuðáverka og sem kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um málið. Til mikils sé að vinna ef draga má úr þessum áverkum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á varnaráhrifum hjólreiðhjálma/hlífðarhjálma sýni síðan að þeir dragi úr líkum á alvarlegum höfuð- og heilaáverkum um 69-79% og að varnaráhrif hjálmanna séu svipuð fyrir alla aldurshópa. Að mati RNU ætti því að skylda allt hjólreiðafólk á Íslandi til að nota hjálma.

Segja má að hjólreiðarmaðurinn sé sjálfur hluti því samgöngutæki sem hjólið er, þegar það er á ferð um götur bæjarins. Það hlýtur að vera eðlilegt að ökumaðurinn sé varinn að lágmarki með einn lítinn hjálm á höfðinu og að hjólið sé ávalt vel sýnilegt, m.a. með endurskinsmerkjum og tilhlýðilegum ljósabúnaði í myrkri. Maður skyldi ætla að það sé meiri skammsýni en heimska sem sumir halda fram, að ökumenn bifreiða taki minna tillit til hjólreiðamanna sem klæddir eru þessum lágmarks „hífðarfatnaði“.

Það er ekki bara mál einstaklings sem verður fyrir höfuðhögginu ef reiðhjólamaður dettur óvarinn á hausinn og heilaskaði hlýst af, heldur líka fjölskyldunar og þjóðfélagsins alls. Því þarf að lögleiða hjálmanotkun sem fyrst fyrir alla, á sama hátt og bílbelti voru lögleidd hér á landi árið 1981. Þannig að engum „detti í hug“ að setjast á hjól án þess að láta á sig hjálm. Það hlýtur að vera skylda okkar allra að forðast alvarlegustu hjólaslysin eins og hægt er. Á sama tíma og við viljum stuðla að meiri hjólreiðum og betra umferðaröryggi allra vegfarenda. Meðal annars með átakinu „Hjólum í vinnuna“ sem hefst á morgun og sem er tileinkað íþróttaandanum (100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands), útiverunni og meiri hreyfingu sem er öllum svo lífsnauðsynleg á Íslandi í dag.

Þótt Danir standi okkur langt um framar með hjólastígunum sínum út um allt og með meiri tillitsemi við hjóreiðamenn í umferðinni, að þá megum við ekki láta þá hafa vit fyrir okkur í okkar höfuðmáli. Notum því eigið vit og réttan hjálm á kollinn.

 http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/05/31/hjalmar_geta_klarlega_bjargad_lifi_folks/

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/06/02/hentist_upp_og_lenti_a_hofdinu/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn