Sennilega finnst einhverjum ég hafa furðulegan smekk fyrir rósum fyrst ég fæ mig til að skrifa um rós sem er ekki til að njóta nú í byrjun sumars og meðan við bíðum í ofvæni eftir að jafnvel fyrstu laukarnir láti á sér kræla. Á þessu kalda vori, á landi elds og ísa. Þegar aðeins er rúmlega mánuður í sumarsólstöður og bara fíflarnir eru farnir að stinga upp kollunum. Rós sem kvelur og stingur meðan hún brýst út eftir taugaendum í eigin kroppi. Fagurrauð með safarík og eitruð blóm þegar hún loks springur út á nokkrum dögum á yfirborði húðarinnar og sáir þá fræjum hlaupabólu. Reyndar eins og alls staðar annars staðar í heiminum og því engan vegin séríslensk eins og svo margt annað í okkar áskæru fósturmold og kroppum. Ævagömul hlaupabóluveira (varicella zoster virus) sem hefur oftast lifað með okkur frá barnsaldri en brýst út þegar síst skyldi og við erum veikust fyrir einhverja hluta vegna.
Rós myrkursins sem er lengi að spíra með kvölum áður en hún kemur loks upp úr holdinu og verður öllum ljós. Rós sem var bundin hjátrú og kennd við belti. Væri banvæn yxi hún báðum megin eins og beltagjörð þvert yfir búkinn eða brjóstið. Sem nánast engar líkur eru á að hún geri nema um tvær aðgreindar sýkingar frá tveimur aðgreindum taugarótum á sama tíma er að ræða og þegar gamli hlaupabóluvírusinn vaknar til lífsins. Áminning að við þurfum alltaf að vera á verði og reyna að fara vel með okkur. Alveg eins og með landið sem er okkur svo kært og þolir ekki nema ákveðinn ágang. Sem er oft á mörkum þess að vera lífvænlegt og hvert blómstrá telur þar sem vatn á annað borð finnst og sem er svo sérstakt fyrir íslensku náttúruna. Flóruna sem við viljum vaðveita sem best á öllum stöðum, ekki síst þar sem hún er viðkvæmust á sjálfu hálendinu.
Beltarósin er þó í daglegu tali kölluð ristill (herpes zoster). Um nákvæman uppruna orðins ristill er mér ókunnugt en sem finnst þó í rituðu máli á 17 öld og vísar til „að stökkva á“ eða „flakka um“. En óneitanlega hjólmar ristill óspennandi miðað við beltarós og sem er varla eins lýsandi á fyrirbærinu. Áætlað er að um helmingur fólks hafi fengið ristil á gamals aldri, sumir oftar en einu sinni, jafnvel á mismunandi stöðum. Tíðnin er mun algengari eftir að gömlum aldri er náð, eða eftir 65 ára aldri. Einstaka sinnum verða taugaverkirnir viðvarandi til langs tíma eftir bltarósina. Veirulyf geta oft stytt tíma einkenna og útbrota hjá gömlu fólki ef þau eru tekin innan við 72 tíma frá upphafi einkenna. Þ.e. eftir að verkir byrja sem er oft nokkrum dögum áður en fyrstu útbrotin verða sýnileg. Mikilvægast er hins vegar að sinna húðhirðunni vel meðan á útbrotunum stendur, ekkert ósvipað og gert er þegar um slæma hlaupabólu er að ræða. Eins að við förum eins vel með okkur og kostur er.