Mánudagur 04.06.2012 - 08:56 - FB ummæli ()

Það sem allir karlar vilja vita

Sl. mánuði hefur verið mikið skrifað um gagnsemi svokallaðs PSA (prostata specific antigen), skyndipróf úr blóði karla til að finna blöðruhálskirtilskrabbamein tímalega. Eitt algengasta krabbamein karla sem margir hræðast og nýlega var til ítarlegrar umfjöllunar hér á blogginu. Landlæknisembættið og læknar almennt hafa hins vegar bent á vafasaman ávinning og jafnvel að tjón sé af slíkum skimprófunum hjá einkennalausum körlum. Að meiri ástæða sé til að vera vel vakandi fyrir öllum nýjum einkennum sem tengjast þvaglátum og kyngetu ásamt öllum breytingum á ytri kynfærum með þreifingu og mottumarsinn í vor var fyrst og fremst tileinkaður. Skyndipróf sem þó ákveðin hagsmunasamtök eins og Framför hafa hvatt til að séu notuð hér á landi fyrir alla karla 50 ára og eldri og því full ástæða er til að ræða frekar. Álitaefni sem mikið er spurt um í heilsugæslunni.

Erlendis eru ráðleggingar heilbrigðisstofnana hins vegar yfirleitt á sama veg og hér á landi. Nú um helgina voru síðan að koma enn ákveðnari leiðbeiningar frá mjög virtum bandarískum samtökum heilbrigðisstarfsfólks í forvörnum  (USPSTF) um málið. Staðreyndir sem fengust eftir yfirlegu hundruða rannsókna á síðustu árum og viljinn teygður eins langt og hugsast gat að óskum karla í þessum efnum og ýmissa áhugasamtaka sem láta sig málið miklu varða. Jafnvel litið framhjá fjárhagslegum kostnaði skimunar, en litið þess í stað meira til lífsgæða karla. Þessar nýju ráðleggingar ná til allra aldurshópa, en þó ekki til PSA mælinga sem gerðar eru hjá körlum sem þegar hafa greinst með blöðruhálskirtilskrabbamein á annað borð og fengið meðferð þar sem PSA gildin geta komið að góðu gagni til að meta árangur meðferðarinnar til lengri tíma.

Amerísku sérfræðingasamtökin um forvarnir ráðleggja því læknum að ræða við skjólstæðinga sína hvað felist í kembileit með PSA mælingum og ræði sérstaklega alla ókostina sem fylgt geta „ótímabærum“ greiningum á blöðruhálskirtilskrabbameini. Þannig megi nálgast upplýsta ákvörðun þegar menn óska eindregið eftir PSA mælingu án einkenna. Betri og sérhæfðari próf með meiri sértækni á illvígara formi krabbameinsins er hins vegar beðið, jafnframt sem beðið er betri árangurs meðferða á krabbameinunum en boðið er upp á í dag.

Í óvöldu þýði má búast við að 5 karlar af hverjum 1000 deyi vegna blöðruhálskirtilskrabbameins á 10 árum. Rannsóknir sýna að í mesta lagi má bjarga einum af þessum 5 með PSA kembileit. Líklega er þessi tala enn lægri. Þetta þýðir að 4-5 karlar deyja hvort sem er úr krabbameininu á 10 árum og jafnvel þótt þeir undirgangist kembileitina með PSA prófum reglulega með öllum ókostunum sem því fylgir.

 • Fölsk-pósitive PSA próf. Um 100-120 af hverjum 1000 mönnum sem gerð er PSA kembileit á, fá falsk-pósitíva hækkun í PSA-svarinu. Flestir af þeim fara þá oftast í óþarfa sýnatöku úr kirtlinum en sem veldur óþarfa áhyggjum þriðjungur og kvíða. Um karla sem fara í sýnatöku fá líka hvimleiðar aukaverkanir sem lýsa sér með hitaköstum, sýkingum, síðkomnum blæðingum, vandamálum tengt tíðari þvaglátum auk verkja sem auðvitað skerða lífsgæði umtalsvert (auk áhrifa ofmeðhöndlunar og sem greint er frá hér fyrir neðan).
 • Ofgreiningar á krabbameini. Í fæstum tilfellum heldur blöðruhálskrabbamein sem finnst áfram að stækka eða breiða úr sér. Ef krabbameinið gerir það, vex það mjög hægt og ólíklegt að það valdi einkennum sem maður á eftir ólifað. Í dag er ennþá mjög erfitt að greina þá frá sem eru líklegri að hafa illvígara form krabbameins og sem vex þá hraðar og dreifir meira og hraðar úr sér. Flestar krabbameinsgreiningarnar í dag eru því óþarfar og hafa engin áhrif á lífslíkur. Sem best er þá að vita ekkert af.
 • Ofmeðhöndlun. Vegna óvissunnar um hvaða krabbamein sem greinast eftir hátt PSA eigi að meðhöndla (m.a möguleika á illavígara forminu), velja flestir (>90%) að meðhöndla öll krabbameinin á sama hátt. Um ávinning er sjaldnast um að ræða eins og áður segir þar sem aukaverkanirnar eru að sama skapi algengar. Beint ógagn af meðferð til lengri tíma eru síðan m.a.:
  • Stinningarvandamál eftir skurðaðgerð, geislameðferð, eða hormónameðferð. Hjá 29 körlum af hverjum 1000 sem finnast upphaflega með kembileit.
  • Þvagleki eftir geisla eða skurðaðgerð. Hjá 18 körlum af 1000 sem sem finnast upphaflega með kembileit.
  • Einnig er viss áhætta á alvarlegri aukaverkunum meðferðar eða jafnvel dauðsföllum;
   • 2 körlum fleiri sem fá alvarleg hjartaáföll af hverjum 1000 sem gerð er á kembileit og takast á við niðurstöður PSA mæinga en hinum sem ekki fara í kembileit.
   • 1 karli líklegra að fái blóðtappa og lungnarek af hverjum 1000 körlum sem gerð er kembileit á.
   • 1 dauðsfall tengt aðgerð af hverjum 3000 körlum sem fara í aðgerð vegna blöðruhálskirtilskrabbameins sem greinist með kembileit.

Samtök sérfræðinga um forvarnir í Bandaríkjunum sem heilbrigðisyfirvöld vitna mikið til og eru mjög virt út um allan heim, U.S. Preventive Services Task Force (USPSTF), mæla eindregið gegn að PSA sé notað til kembileitar á blöðruhálskirtilskrabbameini karla. Ókostirnir séu einfaldlega miklu fleiri og meiri en kostirnir.

http://www.uspreventiveservicestaskforce.org/prostatecancerscreening.htm

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn