Þriðjudagur 12.06.2012 - 13:35 - FB ummæli ()

Blæðingarhætta af völdum hjartamagnýls meiri en talin hefur verið

Sl. haust fjallaði ég aðeins um náttúrulyfið magnyl (aspirín), gamalt varasamt lyf með nýtt hlutverk. Þá sérstaklega sem segavörn og til blóðþynningar fyrir sjúklinga í sérstakri áhættu fyrir æðastíflum tengt kransæðasjúkdómi. En líka í seinni tíð sem hugsanlega tengist vörn gegn ákveðnum ristilkrabbameinum. Varað var þó við aukinni blæðingaráhættu af völdum aspiríns, jafnvel lífshættulegum heilablæðingum og blæðingum frá meltingarvegi, auk hættu á miklum blæðingum sem geta orðið eftir jafnvel minniháttar slys. Þetta á ekki síst við  þegar magnyl er tekið í litlum skömmtum sem hjartamgnyl 75-150 mg á dag. Eins hefur lengi verið varað við hærri skömmtum í seinni tíð, en sem notaðir voru hér áður gegn sótthita og gigtarverkjum, ekki síst meðal barna vegna ýmissa annarra alvarlegra aukaverkana. Nú er þannig frekar mælt með inntöku parasetamóls í þeim tilgangi.

Eins og fram kemur í grein í nýjasta hefti amerísku læknasamtakana JAMA, Journal of the American Medical Association sem kom út 6. júní sl., virðist áhættan á að fá fyrirvaralausar hættulegar blæðingar aukast um 55% samanborið við þann hóp sem ekki tekur magnyl (<300 mg á dag) eða sem samsvarar í tveimur tilfellum af hverjum 1000 á hverju ári. Áhættan er þannig svipuð og að fá alvarlegt hjartaáfall vegna kransæðastíflu og þegar magnylið er ekki tekið inn reglulega og áhættan er reiknuð út undir 10% líkum yfir 10 ára tímabil. Rannsóknin sem er ítölsk náði til um 200.000 einstaklinga sem tóku aspirin yfir nokkra ára tímabil, árin 2003-2008.

Ef áhættan er þannig metin meiri en 10% (eins og t.d. reikna má út í áhættureikni Hjartaverndar) er þannig hugsanlega réttlætanlegt að gefa aspirín sem blóðþynnandi lyf. Þótt bandarísk heilbrigðisyfrvöld (US Preventive Services Task Force) hafi hingað til mælt með aspiríni sem fyrstu forvörn hjá körlum 45-79 ára og konum 55-79 sem telja sig í áhættu fyrir kransæðablóðþurrð, hafa evrópsku hjartasamtökin (European Society of Cardiology) ekki ráðlagt slíka meðfeð sem fyrstu forvörn. Og þótt koma megi í veg fyrir 7 slæm hjartaáföll hjá 1000 einstklingum á ári hverju þegar áhætta á að fá kransæðastíflu er metin milli 10-20% yfir 10 ára tímabil, að þá fáum við að meðaltali a.m.k. eina slæma heilablæðingu og 3 lífshættulegar aðrar blæðingar á móti, auk hugsanlegra annarra aukaverkana sem tengjast stöðugri lyfjagjöf með hjartamagnyli. Og til að hugsanlega 2-3 njóti þannig einhvers ávinningsins, að þá þarf að meðhöndla alla hina 997 með sömu áhættuna í upphafi og ekki gagnast meðferðin.

Þannig ætti enginn að taka hjartamagnyl nema samkvæmt læknisráði og helst aðeins þegar um staðfestan slæman kransæðasjúkdóm er að ræða. Ekki síst gamalt fólk sem þegar er í stóraukinni áættu á að fá lífshættulegar blæðingar m.a í heila. Eins hefur sýnt sig að sjúklingar með alvarlega sykursýki gagnast lyfið verr en öðrum. Annað gildir auðvitað þegar hjartamagnyl er tekið vegna gruns um bráða kransæðastíflu og sem getur þá bjargað miklu ef tekið er inn tímalega. Þetta allt bera að hafa í huga þar sem hjartamagnyl er lausasölulyf og mjög vinsælt meðal þeirra sem telja sig í aukinni áhættu fyrir kransæðasjúkdómnum.

Reyklaus lífstílsbreyting með aukinni hreyfingu og góðu mataræði er hins vegar miklu líklegri til ávinnings í þessum efnum auk þess sem stjórna þarf oft blóðþrýstingi, kólesteróli og blóðsykri með góðum lyfjum og eftirliti. Eins má ekki gleyma ýmsum öðrum lyfjum (anticoagulant) sem gefin eru þegar veruleg hætta er á blóðþurrð hvort sem um er að ræða í heila eða hjarta og eins þegar leysa þarf upp blóðtappa sem þegar hefur myndast t.d. í fæti eða lunga.

http://www.medscape.com/viewarticle/765163?sssdmh=dm1.791635&src=nldne

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/10/30/gamla-goda-magnylid-varasamt-en-med-nytt-hlutverk/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn