Það er mikið ævintýri að koma til framandi lands og leggja nýja jörð undir fætur sér. Sérstaklega þegar menningin er mjög ólík því sem við eigum að venjast, gróður, dýralíf og veðurfar sömuleiðis. Þar sem þarfasti þjóninn er múlasninn sem skiptir sköpum í fjöllunum. Kaktusar og ilmandi ávaxtatré og kryddjurtir.
Við hjónin heimsóttum Atlasfjölin í Marokkó nú um daginn og gengum þar um dali og fjallgarðana umhverfis Toubkal og reyndum síðan við hæsta tindinn í Norður-Afríku sem er í 4267 metra hæð. Reynsla sem verður uppspretta ýmissa frásagna á næstunni. Þar sem viðhorfin til náttúrunnar og lífsins hafa enn einu sinni breyst í mínum huga og áleitnar spurningar vaknað um ágæti okkar eigins menningarheims. Eins hvernig umhverfið mótar okkur stöðugt sem manneskjur og menningin fylgir síðan á eftir, oft á tvíræðan hátt.
Stundum er líka gott að geta snúið við blaðinu í einum vettvangi og kíkt inn í aðra sögu en okkar eigin og sem kemur okkur alltaf við, fyrr eða síðar. Ekki síst þegar við viljum meta okkar eigin vegferð í lífinu í samanburði við aðra. Á ferðalaginu um framandi heima.
Heimurinn logar hins vegar í allskonar erjum og stríðsátökum sem við eigum oft erfitt með að skilja. Allir samt aðeins tilbúnir að fórna litlu til að verja sína hagsmuni. Hagsmuni sem síðan skipta aðra miklu meira máli á hinum manneskjulega mælikvarða. Í afkomu, menntun og lífsbjörginni og gríðegur mismunur ríkir. Ekki síst þegar horft er til Afríku og þar sem alltof margir eiga um sárt að binda.Marokkó er sennilega evrópskari en flest ríki Afríku og fátæktin þar í engum samanburði við fátækustu þjóðirnar. Þar sem arabíska vorið kom aldrei og hjá þjóð sem vill vera vinveitt vesturlandsbúum. Mín stuttu kynni af þessari Afríkuþjóð sem býr við múhameðstrú, er auðvitað heldur ekki tilefni til að gefa neina endalega mynd af samanburðinum við vesturlönd, heldur er aðeins tilraun til að lýsa upplifun minni af þjóð, sem mér þykir nú mjög vænt um. Þjóð sem býr á margan hátt í miklu harðbýlara landi til sjávar og sveita en við eigum að venjast í dag, en við könnumst vel við á annan hátt fyrir ekki svo löngu síðan. Ekki síst í Atlasfjöllunum þar sem ég dvaldist með íslenskum ferðafélögum mínum, Berbum og múlösnunum. Þar sem tengingin er einfaldlega venjulegur Íslendingur sem gerir fátt skemmtilegra en að ganga á fjöll og skynja eittvað annað en það hverdagslega. Úr hverju við erum og hvert við stefnum.