Föstudagur 07.09.2012 - 22:59 - FB ummæli ()

Safran og vanilla

Hvað slær þennan titil út? Reyndar var frábær þáttur í ríkissjónvarpinu nýlega sem á í raun þennan titil og þar sem rætt var um þessar tvær kryddtegundir í sögulegu samhengi. En ég fæ hann lánaðan nú til að ræða um krydd sem vekur hjá manni sérstaka skynjun og tilfinningar og sem ef til vill má heimfæra á vissan hátt hvar bestu lífsgæðin er að finna.

Veraldleg gæði eru margskonar en leika misvel við skynfærin okkar og drauma. Gull og gersemar eru ef til vill það sem flestir ágirnast hvað mest í hversdagslegum heimi. Dauðir glansandi hlutir sem svo sannarlega geta glatt augað, en þó ekki síður hvað þessir hlutir standa fyrir í fjárhag talið og flestir miða flest sitt við. Gott krydd kryddar hins vegar lífið og tilveruna á allt annan hátt. Innri skilningarvit með hjálp bragðlaukanna og lyktarskynsfruma. Mörg hver eru auk þess afar holl, m.a. vegna sinna afoxandi eiginleika. Verja okkur jafnvel fyrir ótímabærri öldrun litninganna og gegn krabbameinum. Auk þess gleðja þau okkur í hversdagsleikanum og kalla jafnvel fram ljúfar endurminningar.

Reyndar er hreint safran talið jafngilda verðmætum gulls í þyngd sinni talið. Notað jafnvel sem skiptimynnt á öldum áður, ekki ósvipað og svarta gullinu, piparnum, bara miklu verðmætara. Vanillan hins vegar, var lengi vel óþekkt nema meðal ákveðinna frumbyggja í Mexikó og þeirra fjársjóður. Sem var nátengt trúarbragðasögunni og hjátrú. Talin m.a. tákngerfingur og uppspretta ástarinnar, en sem stundum er forboðin.

Ilmur og bragð hafa þannig alltaf staðið okkur nærri. Sem ásamt sjón og heyrn auðvelda okkur líka öll tjáskipti. Tengt lífsbaráttunni, ástinni og til að geta notið flesta daga. Allskonar skynjun sem er nátengd hverri annarri og magna oft hvora aðra upp. Lyktarlaus maður er þannig hálf bragðlaus maður. Nokkuð og sem getur gerst í einni svipan, í slysi með höfuðhöggi. Jafnvel öðruvísi neikvæðum tjáskiptum sem gerast stundum okkar á milli.

Safran minnir mig persónulega mest á ilmandi páskabollur sem þetta séstaka krydd á svo sterkan þátt í að skapa. Sem síðan smjörið okkar eitt getur fullkomnað. Gular eins vorsólin og sóleyjarnar. Hátíðleikinn fullkomnaður í heimilisbakstri með börnunum með hjálp krydds sem lifir með manni alla ævi. Vanillan hins vegar fyrir tilbrigði hversdagsleikans og maður vill gera dagamun. Baka vöflur með vanillusykri eða bjóða upp á vanillurjómaís með krækiberjasósu. Eða skreppa í kvöldökutúr í ísbúðina, til að breyta góðri kvöldstund í ennþá betri stund. Oft gleymum við þannig í umræðunni um erfiðleika lífsins, hvað einfaldir en ekki endilega sjálfsagðir hlutir skipta okkur miklu máli. Hlutir sem áður þóttu jafnvel luxsus en sem hurfu síðan með tímanum í hversdagsleikann. Hlutir sem engu að síður geta verið þeir unaðslegustu í lok lífsins. Jafnvel síðasta óskin.

Í lita hverfinu í Stokkhólmi þar sem dóttir mín býr ásamt eiginmanni og barnabörnum eru götur nefndar sem höfða til skynjunar okkar og viðhorfa til náttúrunnar, eins og Sólfagragatan sem fær mig alltaf til að brosa þegar ég líta á götuskiltið. Eins í höfuð ávaxtanna sem hljóta alltaf að vekja upp jákvæð viðhorf til heilsunnar, svo sem Eplagatan og Peruvegur. Í Kaupmannahöfn þar sem sonur minn býr ásamt sinni fjölskyldu er hinsvegar sjálfu kryddinu gefið hærra undir höfuð í götuheitum og sem iljar mann á annan hátt, en sem þættu sennilega hallærisleg götuheiti á sögueyjunni Íslandi. Pipargarður og þar skammt frá Sinnepsvegur. Heima hefur samt yngri dóttir mín Mýrarnar og Túnin.

En kryddið er margskonar, og menn hafa mismunandi smekk fyrir því. Sumir vilja líka matinn meira kryddaðann en aðrir. Stundum er krydd lífsins líka annað en hið viðurkennda krydd sem kitlar bragðlaukanna og nefið. Ekki síst allar góðu endurminningarnar um ævina. Ástarinnar sönnu, þegar við njótum stundarinnar hvað best, en gleymum tímanum. Allra stundanna meðal okkar nánustu og börnunum sem eru okkur alltaf kærust. Safran og vanilla í hinni raunverulegu mynd.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn