Þriðjudagur 04.09.2012 - 13:33 - FB ummæli ()

Kreppan í kroppnum

Hvað gerist þegar sálin er brotin og langþreyttur líkaminn er búinn að fá meira en nóg? Þegar einskonar hrun verður innra með okkur og við fáum ekki alltaf skilið, en skiljum þó. Hver ertu duldi djöfull?, spyrjum við þá gjarnan okkur sjálf.

Vefjagigt (fibromyalgia) er sállíkamlegur sjúkdómur í vöðvum, stoðkerfinu almennt og taugakerfinu, án vefrænnar eða sýnilegrar bólgu. Vefjagigt er talin hrjá 3-6% jarðabúa, oftast ungar konur. Þar sem sársaukaskynið er brenglað vegna truflana í taugaboðunum. Verstu verkjapunktarnir eru oft á dæmigerðum stöðum og samhverfir í hliðum líkamans, í herðum, hnakka, öxlum, olnbogum, utanverðum mjöðmum og innan á hnjám. Oft fylgir síþreyta og svefntruflanir. Sumir vilja jafnvel meina að sjúkdómurinn einkennist fyrst og fremst af trufluðum svefni og þegar líkaminn vaknar óhvíldur alla morgna. Heilkenni sem vara mánuðum og jafnvel árum saman, nema reynt sé að vinna gegn orsökunum í tíma. Mikið álag, ekki síst á nútímakonuna er talin ein helsta skýringin á hvað vefjagigtin er algeng nú á dögum. Álagsgigt, þrálátar vöðvabólgur og verkir sem herja á konur í blóma lífsins og þær eiga að vera upp á sitt besta.

Vöðvahnútarnir er stífir og aumir en án vefrænna bólgubreytinga. Einbeitingaskortur, ristilkrampar og höfuðverkir eru algengar kvartanir með vöðvaverkjunum. Geðræn einkenni, depurð og kvíði blandast síðan oft inn í sjúkdómsmyndina. Reyndar er oft erfitt að átta sig á hvort kemur á undan, eins og með hænuna og eggið. Passleg hreyfing, góð næring og a.ö.l. heilbrigður lífsstíl eru allir sammála að sé nauðsynlegustu þættirnir í forvörnum og bata. Sumir þurfa að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna fyrri áfalla, jafnvel frá því í æsku sem aldrei var unnið úr á sínum tíma. Angist sem liggur djúpt í iðrum sálar og beina. Jafnvel geðlæknishjálpar og lyfjameðferðar við hæfi. Bólgueyðandi lyf duga hins vegar skammt, og því verkjalyf gjarnan of mikið notuð. Sjúkdómurinn vefjagigt með öllum fylgikvillunum er þannig ein algengasta ástæða örorku kvenna í dag. Sem endurspeglar miklu alvarlegri þjóðfélagsböl undir niðri og sem því miður virðast allt of algeng í okkar samfélagi í dag.

Annarskonar vefjagigt, fjölvöðvagigt (polymyalgia eða polymyalgia rheumatica, polymyositis) á ekkert skylt við þá fyrri (vefjagigtina) en sem rétt er að minnast á í þessu samhengi vegna algengs hugtakaruglings og þar sem greining og meðferð er mjög ólík. Fjölvöðvagigtin er algengust hjá eldri konum (yfirleitt eftir 50 ára aldur, meðalaldurinn um 70 ára). Eins og í vefjagigtinni eru vöðvaverkir og þreyta fyrstu einkennin. Fjölvöðvagigtin hellist hins vegar yfir hratt á aðeins nokkrum vikum með oft alvarlegri fylgikvillum og jafnvel vefjabreytingum í mörgum líffærum.

Fjölvöðvagigtin er þannig sjálfsofnæmissjúkdómur þar sem ónæmiskerfið ræðst gegn eigin bandvef. Orsök sem tengist sjúklegum viðbrögðum í ónæmiskerfinu, eins og þegar um er að ræða marga aðra alvarlega gigtarsjúkdóma. Aðal einkennin auk vöðvaverkja sem eru mest í herðum, öxlum og mjöðmum er mikill styrðleiki á morgnana. Sumir fá jafnvel flensulík einkenni og hitavellu og margir missa hratt þyngd. Einkennandi er mikið máttleysi í stærstu vöðvum útlimanna, í lærum og herðum þannig að að standa upp úr stól getur reynst þrautinni þyngri. Um 15% sjúklinganna fá risafrumuslagæðabólgu (giant cell arteritis) sem er náskild en svæsnari bandvefsgigt. Hættulegt ástandð sem getur truflað blóðflæðið í höfðinu. Sjónin getur verið í hættu. Risafrumuslagæðabólgan greinist síðan best með vefjasýni úr utanáliggjandi æð yfir gagnaugum sem oft er þykknuð og aum. Því miður eru ekki til neinar sértækar gigtarprufur í blóði til að greina fjölvöðvagigt og risafrumuslagæðabólgu, en sökkið er hátt, yfirleitt yfir 60 mm/klst. og sem gefur þannig sterkar grunsemdir (oft hærra en 80 ef um risafrumslagæðabólgu er að ræða). Fjölvöðvagigtin svar vel lágskammta sykursterum, (Prednisólón) og brennur oftast upp á einu til tveimur árum, en hærri skammta þarf við risafrumuslagæðabólgu sem er þrálátari.

Um daginn setti ég eldri konu á sterakúr vegna grunns um fjölvöðvagigt. Að hún myndi svara meðferðinni vel næstu 2-3 daganna var í raun besta tryggingin að sjúkdómsgreining mín væri rétt. Lækning sem að sumu leiti líkist kraftaverkalækningu, þar sem viðkomandi fær aftur stigið á fætur og fær horfinn þrótt og liðleika. Þar sem eftirleikurinn er síðan nokkuð auðveldur. En því miður er slíkri lækningu ekki fyrir að fara hvað vefjagigtina áhrærir, með allar sínar óljósu sállíkamlegu skýringar og jafnvel sterar virka ekki frekar en vatn. Og á kraftaverk trúi ég ekki. Sjúkdómur sem engin ein lækning er til við, enda er sálin alltaf miklu erfiðari viðureignar en holdið. Sjúklingahópur sem tekur ómældan tíma að sinna í heilsugæslunni. Leita þarf til fjölþættrar meðferðar, sjúkraþjálfunar, lífstílsbreytinga með stuðningi, starfsþjálfunar og endurhæfingar. Margir sem búnir eru eða við það að missa vinnuna. Stór hópur í okkar þjóðfélagi í dag sem sýndur er lítill skilningur og er jafnvel atvinnutengdur. Fólk á besta aldri sem ætti að geta þjónað atvinnulífinu og þjóðarbúinu miklu lengur og betur, ef rétt er að málum staðið.

En það er sama hvað gigtin heitir, góð næring, hvíld, hreyfing og félagslegt öryggi eru allt lykilatriði í meðferð og bata, bæði fyrir sál og líkama. D-vítamínið og kalkið fyrir vöðvana og beinin má heldur ekki vanta og svo auðvitað lýsið okkar og omega fitusýrurnar. Sem eins og flest annað gott á rætur að rekja til sólarinnar og hafsins þaðan sem við erum upprunnin.

Félagslegar aðstæður, sállíkamleg einkenni og bætur.

Ábyrgð heilsugæslunnar í starfsendurhæfingu.

Þraut ehf. „Hágæðaþjónusta fyrir fólk með vefjagigt og tengda sjúkdóma í þeim tilgangi að auka lífsgæði þeirra og færni til daglegra athafna, auka skilvirkni innan heilbrigðiskerfisins í mati og meðferð sjúklinga og draga úr beinum og óbeinum heilbrigðiskostnaði vegna þessara sjúkdóma.“

VIRK, starfsendurhæfingasjóður samtaka atvinnulífs og stéttarfélaga.  „Meginmarkmið að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.“

Annað tengt efni: Fibromyalgia pain takes toll on everyday life.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn